05.05.1933
Efri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (3908)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Reykv. hefir nú skýrt þetta mál nokkuð frá sínu sjónarmiði, og sé ég ekki, að það styrki málstað þessa embættismanns ýkjamikið.

Hv. þm. segir, að ekki sé venja í einu af nágrannalöndum okkar að skoða sparisjóðina nema einu sinni á hverjum fimm árum, og þurfi því ekki fremur hér. Vil ég benda hv. þm. á það, að þótt eitthvað sé lag í einu landi, illt eða gott, er það ekki bindandi í öðru landi fyrir það. Ég veit til þess, að líta átti eftir sjóðum sýslumannanna á 3 ára fresti, en var þó ef til vill ekki gert einu sinni á hverjum 10 árum. En nú um tíma hefir verið framkvæmt hjá þeim árlegt eftirlit, sem er báðum til gagns, sýslumönnunum og ríkissjóði, auk þess sem eftirlitið er ódýrara í framkvæmdinni því oftar, sem það er gert. Ég verð að segja það, að það er óneitanlega skrítið þetta eftirlit hv. 1. þm. Reykv., sem honum þó er greitt nokkrum þúsundum meira fyrir en ráðherralaunum nemur, ef hann, eins og segir í bréfi Landsbankans, sem ég gat um, hefir ekki rækt neitt eftirlit þar í 2-3 síðustu árin, og sambandið milli hans og þessarar stofnunar er heldur ekki meira en svo, eftir því, sem honum sjálfum segist frá, að hann veit ekki, að stofnunin hefir neitað að borga fyrir eftirlit hans með þeim rökstuðningi, að um svo litla vinnu væri að ræða. Þegar svo hér við bætist, að hv. þm. hefir ekki séð sér fært að ferðast um og skoða sparisjóðina, eins og eðlilegast væri, að hann gerði, en hinsvegar situr hér á þingi fjórðung ársins, án þess að honum beri hin minnsta skylda til þess, verður manni á að spyrja, til hvers þjóðin sé að hafa þennan mann. Þótt stórþjóðirnar kunni að hafa sambærilegt embætti, er hér við að athuga, að hlutaðeigandi embættismaður hjá þeim er alltaf upptekinn við starf sitt, sem hv. þm. er ekki, eins og ég hefi bent á, enda þótt hann ætti að starfa a. m. k. ekki minna en útibússtjórarnir gera, og myndi líka vafalaust hafa gert það, ef hann hefði ekki haft þá stórhættulegu skoðun, að honum bæri lítið að gera fyrir þessa aura, sem hið fátæka föðurland hans borgar honum fyrir vinnuna.

Hv. þm. lét orð falla á þá leið, að Útvegsbankinn hefði beðið hann að athuga hag bankans, og er þetta að vísu í ósamræmi við það, sem kemur fram hjá fulltrúaráði þessa banka í bréfi frá 30. marz í ár, þar sem segir, að fulltrúaráðið hafi samþ. það á fundi sínum 15. okt. 1930 að tilkynna fjmrh., að fulltrúaráðið óskaði eftir, að bankinn væri undanþeginn þeirri kvöð að greiða hl. af launum eftirlitsmannsins með bönkum og sparisjóðum (sbr. þskj. 455), og hefir bankinn staðið við þetta síðan. 1930 hefir þannig verið slæmt ár fyrir hv. 1. þm. Reykv. Báðir bankarnir segja honum þá upp hlýðni og hollustu á hinn eftirminnilegasta hátt.

Ég álít, að eftirlitsmaðurinn eigi að vera við starf sitt alla daga ársins, nema hvað hann ef til vill fengi sumarfrí, eins og aðrir opinberir starfsmenn, og ætti honum þá að vera yfirkomanlegt að skoða alla sparisjóðina á landinu a. m. k. annaðhvert ár. Hv. þm. hefir lýst því hér fyrir d., hve mikla og skemmtilega þýðingu starf hans hefir haft fyrir 2 sparisjóði í landinu, þar sem heilbrigðisvottorð, sem hann gaf sjóðunum, forðaði þeim frá hruni, eftir því, sem hv. þm. sagðist frá, og ætti starf hans ekki að hafa minni þýðingu fyrir aðra sparisjóði, ef það væri rækt, og hv. þm. hefði ekki þær lífsskoðanir, sem meina honum að rækja það. Hér er um almenna gagnrýni að ræða, án tillits til persónulegra verðleika þm. sjálfs. Þetta embætti er mjög dýrt, en þó hygg ég, að ef hv. þm. hefði t. d. lagt jafnmikla vinnu í starf sitt og t. d. bankastjórar gera og unnið nokkra tíma daglega, sem dreifðust á stofnanirnar, hefði engum þm. komið til hugar að leggja embættið niður, því að þá hefði sú ástæða ekki legið fyrir, sem Landsbankinn ber við, að hér sé um engin vinnubrögð að ræða. Hv. 1. landsk. segir, að engar skýrslur liggi fyrir um það, hvað þessi maður hafi gert, en að hinu leytinu telur hann þó, að starfið þurfi endurbóta við, og m. a. að nauðsynlegt sé að færa starfið út, verksvið eftirlitsmannsins sé of lítið, og þurfi nú að skapa handa honum einskonar atvinnubótavinnu, þar sem hann hefir ekki fundið næg verkefni í þeim verkahring, sem honum var trúað fyrir. Ég álít nú reyndar, að heppilegra sé að setja hina opinberu sjóði undir stj. Landsbankans, og vænti ég, að hv. 1. landsk. geti verið mér samdóma um það. Hér er um mjög dýrt embætti að ræða og þó óþarft, eins og ég hefi bent á, og því spurningin í þessu máli aðeins sú, hvort áfram á að borga 16 þús. kr. fyrir starf, sem ekki er árangursmeira en þetta starf bankaeftirlitsmannsins.