01.05.1933
Neðri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (4247)

43. mál, læknishéraða - og prestakallasjóðir

Magnús Jónsson:

Mér þykir vænt um að heyra hv. frsm. n. lýsa því yfir, að n. sé hlynnt meginhugsun þessa frv. En meginhugsun frv. er ekki önnur en sú, að þegar eitt embætti gengur ekki út, þá eigi sú starfsgrein kröfu á hendur ríkissjóði um a. m. k. nokkurn hluta af þeirri fjárhæð, sem sparast við það, að ekki er starfað í því embætti. En ef þessi stefna er rétt, sem ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, þá hygg ég, að hún eigi ekki síður við um aðrar starfsgreinir en þá, sem hér ræðir um. Hitt er annað mál, að það er ekki alveg víst, að fé því, sem sparast á þennan hátt, sé sjálfsagt eða heppilegt að verja eins í öllum starfsgreinum. Ég get fallizt á, að heppilegasta leiðin viðvíkjandi heilbrigðismálunum sé sú, sem farin er í þessu frv. En að mér þykir svo vænt um þennan skilning hjá n., stafar af því, að ég hefi nú borið fram frv. í þessari hv. þd. um, hvernig verja skuli fé í annari starfsgrein, sem nákvæmlega eins stendur á um, en það er frv. um prestakallasjóð. Með því frv. mætti, ef að lögum yrði, ná nákvæmlega sama árangri að því er prestastéttina snertir, þó dálítið með öðru móti sé. Og nú stendur svo á, að frv. um prestakallasjóð er einmitt fyrir hv. allshn., og vonast ég því fastlega eftir því, úr því að sú hv. n. hefir fallizt á meginhugsun þessa frv., sem hér liggur fyrir, að þá muni hún einnig mæla með frv. um prestakallasjóð.