17.02.1933
Efri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jónas Jónsson:

Ég get að vísu trúað því, sem hæstv. forsrh. sagði, að ríkissjóði sé engin vanþörf á þeim tekjum, sem þetta frv. á að veita honum, fremur en öðrum þeim tekjum, sem tiltækilegar kunna að þykja handa ríkinu, en ég vil taka það strax fram við 1. umr. þessa máls, að það er ekki alveg sjálfsagt mál með alla þessa sjö tekjuliði frv. Ég vil t. d. benda á, að það er alveg rétt, sem hv. 2. landsk. minntist á um samningana milli Framsfl. og Alþfl. á þinginu 1931. Breyt. sú, sem á varð í fyrra, var gerð út úr neyð og málið afgr. í mesta flýti, en nú höfum við allt þingið framundan. Ég vil auk þessa vekja athygli á því, að hér er um fremur óheppilega leið til tekjuöflunar að ræða, vegna þess að búast má við, að þessar tekjur eti sig upp að miklu leyti sjálfar. Fyrir utan það, að þörfin fyrir byggingarnar, bæði í kaupstöðum og ekki síður í sveitum landsins, er mjög brýn, þá er á það að líta, að renni tekjur tóbakseinkasölunnar til þeirra eins og lög standa til, skapast við það atvinna, sem full þörf er fyrir, ekki sízt í kaupstöðunum, og ég vil vekja athygli á því, að það virðist dálítið athugaverð ráðstöfun að taka féð frá þörfum og nytsömum framkvæmdum til þess að þurfa að láta það í atvinnubótavinnu, t. d. við að moka snjó á götunum hér í Rvík og aka honum burt úr bænum á bifreiðum.

Ennfremur í sambandi við 7. lið 1. gr. vil ég benda á það, að þar er farið fram á að rýra styrk til þeirrar stéttar í þjóðfélaginu, sem vafalítið er fátækust allra stétta. Ég býst við því, ef á það verður fallizt að veita mikla hjálp til atvinnulausra verkamanna, þá fari illa á að rýra hjálpina til skálda og listamanna, því sú stétt á áreiðanlega við erfiðari kjör að búa heldur en allur fjöldi verkamanna.

Ég hefi nú sýnt fram á, að það er ekki svo sjálfsagt að samþ. þetta frv. án breyt. á þann veg, sem ég hefi nú bent á.