13.11.1933
Neðri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (2012)

15. mál, Kreppulánasjóður

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég er meðflm. að þessu frv. Má segja, að nokkuð fljótt sé af stað farið, að vilja nú gera breyt. á lagabálki, sem settur var á síðasta þingi og afgr. að því er virðist með nær einróma samþykki Alþingis. Þó mun það ekki vera allskostar rétt hjá hv. hm. Str., að ástæðan fyrir því, að ekki megi breyta þessum l., sé sú, að allir hafi verið samhuga um þessi l. á þinginu í fyrra, því að það er alveg víst, að um þetta mál urðu um skeið allmjög skiptar skoðanir, eins og hv. þm. ætti að vera kunnugt um.

Hv. þm. taldi enga ósk hafa komið frá stjórn sjóðsins um að breyta þessum l., og það er vitanlegt, að stjórn sjóðsins hefir ekki óskað neinna breyt. fram yfir það, sem tveir sjóðstjórnarmeðlimir hafa flutt till. um í Ed., en það er enginn mælikvarði á það, hvort rétt sé að gera breyt. á þessum l. Hitt hlýtur að verða aðalatriðið, hvað heppilegast verði fyrir þá menn, sem þessara 1. eiga sérstaklega að njóta.

Hv. þm. Str. færði það fram sem mótbáru, að nú þegar væri byrjað á framkvæmdum, svo að erfitt væri vegna þess að fara nú að breyta l., og minntist einnig á það, að bændastéttin hefði ótvírætt látið í ljós skilning og samúð með þessum l. Það er rétt. Það er nú þegar byrjað á að framkvæma þessi l. og fulllangt komið í því til þess að breyt. komi að fullu haldi, en þó ekki svo, að vel má enn koma fram nauðsynlegum breyt. En um skilning og samúð frá bændum getur hann ekki vitað frekar en aðrir, nema frá þeim, sem beiðast þessara lána, og þeim skýrslum, sem þar með fylgja. Og það liggur í augum uppi, að bændur, sem verða að sækja um þessi lán, fara ekki um leið og þeir beiðast landsins að skrifa ásökunarskjal á hendur þeim, sem þessi 1. settu, og þá um leið þeim, sem úrskurða eiga, hverjir þessi lán skuli fá. Það hefir ekki heldur verið farið fram á það við bændur landsins, að þeir létu uppi álit sitt á þessum l. Og fjöldi bænda, sem nú verða að gefa sig undir þessi l., eru ekki þannig í stakkinn búnir, að þeir finni hjá sér sjálfstæða hvöt til að gera aths. eða koma með aðfinnslur um þessa löggjöf. Það er engin von, að þeir geti risið upp til neinna andmæla, af því að þeir eru kúgaðir menn af skuldum.

Það eru til þeir menn, sem þykjast eiga fyrir skuldum, þó að þeir séu stórskuldugir. Mikill hluti landsmanna er svo, að þeir vilja ekki láta kaffæra sig af öðrum. Þeir vilja nota þessa stofnun til að koma sér upp úr feninu, en vilja ekki láta ausa yfir sig að óþörfu. þeir vilja, að stj. bjargi þeim á land, en sé ekki að útata þá meira en þeir hafa að ófyrirsynju orðið að þola áður.

Fyrst ég tók hér til máls, vil ég ekki láta hjá líða að minnast á það, að ég álít, að þessi l. séu að ýmsu leyti á röngum grundvelli reist. Ég álít, að þetta mál hefði átt að taka miklu róttækara frá grunni. Öllum þeim, sem þekkja eitthvað til um fjárhag bænda nú, er það ljóst, að mikill hluti þeirra er nú svo sokkinn í skuldir, að engar líkur eru til, að þeir nokkurntíma geti bjargað sér út úr þeim, svo nokkru nemi. Spurningin er því sú, hvort þýði að hjálpa þeim með því að færa niður skuldir þeirra eftir einhverju mati.

Nú er það vitanlegt, að skuldir bænda eru að mjög miklum mun við verzlanir. Verzlanirnar þekkja svo vel fjárhag þessara manna, að þær vita, að þeir borga aldrei. Þær eru margar búnar að gera það upp við sig, að þessar skuldir fái þær aldrei. Á nú að hjálpa þessum mönnum? sé þeim hjálpað á þann hatt, sem gert er ráð fyrir í þeim l., sem hér um ræðir, þá verður það þannig í framkvæmdinni, að verzlanirnar fá borgaðar skuldir, sem þær eru búnar að tapa og eru hættar að telja með. Og ef nú á að fara að veita bændum lán til slíkra hluta, þá verður það til þess, að þeir geta ekki staðið við greiðslur sínar, sem verða miklar eftir sem áður, og verða eftir nokkur ár e. t. v. komnir aftur í sama farið. En ef farin væri sú leið að strika út allar skuldir, þá væri hreint borð hjá bændum. Þá gætu þeir staðið á hreinum grundvelli og fundið sig sem frjálsa menn, en verzlanirnar engu tapað fram yfir það, sem tapað var, og þá mætti hjálpa þeim sómasamlega, sem geta staðið. En þessi leið var ekki farin, heldur kákleiðin, að hjálpa öllum, eða þykjast hjálpa, lána öllum, þó að þeir séu þess ekki umkomnir að fá lán af sögðum sökum. Þessu verður ekki um þokað héðan af, nema sjóðstjórnin taki nú þessa stefnu hreint og beint með heimild þeirri, sem þessi l. gefa, og fari yfir á þann hreina grundvöll, eyða skuldum þessara manna an þess að þeir, sem lánað höfðu, fái nokkuð upp í þær skuldir, sem þeir þegar hafa tapað.

Það getur verið, að segja megi, að með þessum hætti verði sumar verzlanir hart úti. þetta getur orðið óþægilegt fyrir þær verzlanir, sem halda sér uppi á því að telja fram eignir sínar á fölskum grundvelli, telja það eign, sem vitanlegt er, að aldrei fæst. En það væri þá ekki svo mikill skaði, þó að einhver verzlun færi um, og jafnvel þótt það væri kaupfélag. Og það væri þá líka nær að láta skuldastofnanir þeirra, t. d. bankana, fá einhvern slatta af þessum milljónum, sem nú á að lána mönnum, sem eftir nokkur ár verða komnir í sama skuldafenið og þeir eru í nú. En þó að einhverjar einstakar verzlanir velti um, þá gerir það ekki svo mikið til, ef landslýðurinn frelsast.

Þá vil ég lítilsháttar taka til athugunar það, sem hv. þm. Str. sagði um efni þessa frv. Hv. þm. taldi auglýsingarnar á þessum mönnum svo bráðnauðsynlegar, að ekki yrði hjá þeim komizt. Frv. fer fram á, að frá þessum auglýsingum séu þeir undanskildir, sem samkv. skattaframtali eða eftir mati héraðsnefndar teljast eiga fyrir skuldum. Hv. þm. getur ekki neitað því, að það hlýtur þó að teljast rétt, að þeir menn, sem kannske eiga miklu meira en fyrir skuldum, séu þó undanteknir þessum auglýsingum, því að við getum ekki gengið inn á, að rétt sé, að allir landsmenn fái niðurfærslu. Hugsum okkur það, sem nú stendur til. Það eru ekki einungis bændur, sem hér getur orðið um að ræða. Það var samþ. á síðasta þingi að rannsaka einnig hag sjávarútvegsins. Hvað mun koma þar upp? Er ekki líklegt, að þeir verði þar talsvert margir, sem telja sig góða, ef þeir geta talið sig eiga fyrir skuldum, en verða langt þar fyrir neðan, ef þeir eru gerðir upp eftir lagmati.

En síðasta þing lét ekki sitja við þetta eitt. Það samþ. líka að láta rannsaka hag allra þurrabúðarmanna, verkamanna og iðnaðarmanna í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Og frá þessu sjónarmiði séð mun vera langt frá, að margir þessara manna eigi fyrir skuldum. Og ef á nú eða í framtíðinni að fara að færa niður skuldir allra þessara manna, auglýsa þá sem hálf- eða heil-gjaldþrota. Þá er komið inn á svo háskalega braut, að það er orð í tíma talað að taka þegar í taumana, eins og hér er lagt til.

Það eru vissar stofnanir, sérlega fáar í hverju héraði, nefnilega lánsstofnanirnar, sem reyndar eru mestmegnis á einum stað, í Rvík, sem hægt er að fara til og fá upplýsingar hjá, enda verður sjóðstj. að snúa sér til þeirra hvort sem er. Tökum dæmi. Skýrsla kemur frá lánbeiðanda, þar sem hann tilgreinir sínar skuldir, og ekki verður í sjálfu sér efað, að hann geri það rétt. Hvað gerir sjóðstjórnin þá? Hún snýr sér auðvitað samt sem áður til þeirra lánsstofnana, sem lánbeiðandi hefir tilgreint, til þess að bera saman það, sem lánbeiðandi hefir gefið upp, og skuldina við stofnunina. Þar getur sjóðstjórnin einnig fengið uppgefið, í hverjum ábyrgðum lánbeiðandi stendur. Með því að snúa sér til sparisjóðanna í héruðum og lánsstofnananna í Rvík má fá að vita, í hvaða ábyrgðum hver maður í hverju héraði stendur. Með því móti mætti komast hjá að auglýsa aðra en þá, sem nauðsyn ber til. En hv. þm. Str. gerði lítið úr þeirri sómatilfinningu, sem gæti verið hjá þessum mönnum, sem nú eru svo illa staddir, að þeir verða að sækja um lán úr sjóðnum. Það er nú svo, að mörgum mönnum er ekki sama um þessar auglýsingar, enda ætti ekki að ýta undir að gera menn lélegri en þeir í raun og veru eru. Séu menn í erfiðleikum, ættu þeir heldur að hressast upp við þær aðgerðir, sem heim eru til hjálpar, þó ekki sé öðruvísi en siðferðislega. Nú vitum við, að eftir þeirri löggjöf, sem gilt hefir, er ekki siður að semja og gefa út skuldainnköllunarauglýsingar um nokkurn lifandi mann, nema um þrotabú sé að ræða eða „likvidation“. Það er aðeins þegar menn eru gerðir upp í lifanda lífi eða dánarbú, að slíkar auglýsingar koma til greina. Nú vil ég benda á, að þegar um er að ræða mat á eignum manna, þá gefur að skilja, að menn verða að sætta sig við, bæði þeir, sem þar eiga hlut að máli, og þeir sem meta eiga, að gera algerlega nýtt mat, miðað við ástæður manna og afkomu. Það er alls ekki nóg að vitna í skattaframtalið; „eða eftir mati“, segjum við líka í brtt. okkar. Það er ekki nóg að vitna í fasteignamatið, þótt það sé hið löggilta mat. Í þessum tilfellum verður sjóðstj. að láta meta af nýju, því að það er allt annað, hvað menn eiga eftir hinu löglega mati, eða mati, sem réttmætt þykir í slíkum kringumstæðum sem nú eru. Fasteign getur verið rétt metin á einum tíma, en ofmetin á öðrum, og það er alkunna, að núgildandi fasteignamat er þannig í morgum héruðum. Það vita allir, að ómögulegt er víða að selja nokkra jörð við fasteignamati, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi, og yfirleitt eru jarðir bænda óseljanlegar sem stendur, og jafnvel afurðir þeirra líka. Þeir, sem eitthvað hafa haft með uppboð búa að gera, vita, hvernig sölumöguleikar eru nú, og eru menn þó aldrei eins fíknir í kaup og á uppboðum. Matið verður að byggjast á ástæðum, sem fyrir hendi eru, og mun þó ekki víða of í lagt. Segja mætti, að sá stæði sig sæmilega, sem það mat stæðist, því að það verður að vera lágmat.

Hann talaði um það, hv. þm. Str., að þingið ætti að vera stutt. Mér finnst nú ekki allar aðgerðir hans flokksmanna á þessu þingi miða að því, að svo verði, og þykir ýmsum, sem það háttalag muni standa fyrir skjótri afgreiðslu og framkvæmdum á þessu þingi.

Ég verð að víkja loks með nokkrum orðum að framtíðinni, hvað gera skuli, hvort menn telja þetta nú nóg og fullkomið, sem þegar hefir verið afrekað á seinasta þingi, sem þó er einskonar sambland af hugmyndum manna um þessi efni, og þó ekki þannig, að allir væru ánægðir með það. Halda menn, að það sé nægilegt að láta sitja við þá káktilraun, sem kreppulöggjöfin að mörgu leyti er? Halda menn, að nóg sé að láta halda áfram með þessum nýju lánum og allt veltast svo í sama ósómanum? Verði það gert, fá menn eftir nokkur ár alla veltuna yfir sig á ný. Nei. Það þarf að reisa skorður við því, að verzlunarskuldir haldi áfram að myndast og safna á sig háum vöxtum og vaxtavöxtum. Ég mun á þessu þingi leyfa mér að bera fram frv. um, að verzlunarskuldir geti ekki haldið áfram að myndast eins og áður, enda ættu þær framvegis að vera bannfærðar í þessu landi.