13.11.1933
Neðri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2015)

15. mál, Kreppulánasjóður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég get að mestu leyti fallið frá orðinu, því að það, sem ég vildi minnast á, er þegar búið að taka allrækilega fram, og vel má vera, að hv. þm. Borgf. hafi gert það líka, en ég varð að fara frá meðan hann hélt sína ræðu.

Ég verð að segja það, að ég er alveg grallaralaus yfir hv. flm. þessa frv. Hv. þm. V.-SK. hélt hér langa ræðu, og í raun og veru var fæst af því, sem hann sagði, í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. En mér fannst það vera eitthvað svipað því að vera kosningajarmur austan úr Skaftafellssýslu, sem og gætti víða úti um land við síðustu kosningar.

Það vantaði svo sem ekki, að það risu hinir og aðrir upp til þess að telja Kreppulánasjóðinn gagnslausan, sérstaklega fyrir fátækari bændur. Það yrði að ráði kommúnista, sem alls ekki vildu burðast með þessi kreppulán, að strika út skuldirnar. Þegar svo þessir menn voru spurðir að því af hinum, sem töldu erfitt að hjálpa fátækari bændum, hvort þeir aðhylltust kommúnistastefnuna í þessu efni, sóru þeir og sárt við lögðu, að þeir væru ekki í nokkru tygi við þá menn. En ég sé ekki, hvernig á að fara að framkvæma hjálp til fátækari bænda, ef ekki á þennan hátt, að hjálpa þeim um lán til þess að greiða þær skuldir, sem þeir annars telja sig ekki færa um að standa undir.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það væru í raun og veru svik við kjósendurna, ef þeir hreyfðu ekki hér á þinginu því, sem þeir teldu ábótavant við þessi lög. Ég veit, að kjósendur norður í Húnavatnssýslu töldu það helzt ábótavant, að þau næðu ekki til fátækari bænda. En hvað gera svo hv. flm. þessa frv. fyrir fátæku bændurna? Það er svei mér ekki svo lítið! Þeir ætla að draga þá út úr og auglýsa þá fyrir þjóðinni, að þetta séu mennirnir, sem þurfi að hjálpa og þurfi að fá eftirgjöf á skuldum sínum. Þeir mega nú ekki lengur teljast með hinum, sem ekki eru svo illa farnir efnalega, að þeir þurfi nauðsynlega að fá eftirgjöf á skuldum sínum. Þetta er nú hjálpin, sem þeir ætla að færa kjósendum sínum með þessari lagasmið. Ég get ekki séð, í hverju sú hjálp er fólgin, a. m. k. er ekki verið að gera neitt fyrir fátækari bændur. Það hefir líka verið bent á, að með þessu frv. er kippt burt þeim möguleika, sem nú er fyrir hendi, um að þeir menn, sem að vísu eiga fyrir skuldum, en samt sem áður eru ekki þess megnugir að rísa undir þeim, fái eftirgjöf. Svo það er ekki eingöngu, að hér sé verið að þekkjast til við þá allra fátækustu, heldur líka þá í betri flokknum, sem verst eru staddir. Ég skil ekki þessa föðurlegu umhyggju fyrir kjósendunum, sem hv. flm. þykjast syna, og þessari tilraun þeirra um að lítillækka þá, sem verst eru staddir, ætti hæstv. Alþ. að svara með því að fella frv. strax við þessa umr.

Það hefir mikið verið talað um síðara atriði þessa frv., sem er um stjórn Kreppulánasjóðs. Ég var fylgjandi því á sínum tíma, að stjórn Búnaðarbankans hefði með höndum stjórn sjóðsins, en nú, þegar búið er að skipa þessum málum á annan hátt, get ég lýst því yfir, að ég fyrir mitt leyti er sammála hinum, sem um það hafa talað, að það sé ekki hægt að gera graut í þessu, enda eru þeir, sem skipaðir voru til þessa starfs, búnir að vinna svo mikið til undirbúnings málinu. Það má auðvitað benda á, að þetta frv. kemur nokkuð seint fram, t. d. vegna auglýsinganna, svo sennilegt er, að þegar það er orðið að lögum, ef svo illa tækist til, væri búið að auglýsa mikinn meiri hl. af þeim, sem væntanlega sækja um lán.

Ég get svo að endingu flutt hv. flm. skilaboð frá einum bónda, sem átti tal við mig um þetta mál í morgun, að hann áliti það heppilegast fyrir hv. flm. að taka frv. aftur og geyma það þangað til ef svo illa færi, að önnur kreppa kæmi, og að þá yrðu gerðar svipaðar ráðstafanir og nú, ef það ætti fyrir beim að liggja að sitja á þingi þá.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta mál, en mér finnst, eins og ég hefi þegar tekið fram, að höfuðatriðin, sem frv. fjallar um, séu svo fjarri öllu lagi, að ekki geti komið til greina, að það verði samþ. Og þau eru gagnstæð því, sem þessir sömu menn heldu fram við kosningarnar í vor, því að þeir sögðu, að ekki væri gert nægilega mikið til þess að hjálpa þeim fátækustu, en meira gert fyrir hina, sem betur voru staddir, en nú ætla þeir fyrst og fremst að fara að svívirða þá fátæku, eins og hv. þm. V.-Sk. komst að orði um auglýsingaaðferðina.