30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. dómsmrh. lét svo um mælt, að það bæri að styrkja Slippinn til þess að hafa á hendi trésmíðaverkstæði. Við eigum ekki að styrkja Slippinn til þess að annast trésmíði; til þess eru nóg trésmíðaverkstæði í bænum. Það á hinsvegar að styrkja hann með áhöldum til þess að draga skipin á land, og það er vitanlega þjóðþrifamál. Hitt er annað mál, hvort eigi að veita honum einkaleyfi á viðgerðum.

Ég viðurkenni, að Slippurinn hafi einkarétt á því að draga skipin á land, en mér sýnist ekki ástæða til að veita honum aðstöðu til einokunar á öðrum sviðum. Og mér er spurn: Hvar er nú andi hinnar frjálsu samkeppni, sem sjálfstæðismenn eru annars svo fullir af? Hvaða ástæða er til þess að veita þessu fyrirtæki meiri einokunaraðstöðu heldur en það nú þegar hefir?

Ég veit ekki betur en að ríkinu sé það til stórtjóns að geta ekki látið trésmíðaverkstæði sitt vinna í Slippnum að viðgerðum við ríkisskipin. Þess vegna ætti hæstv. dómsmrh. að sjá í því hag ríkissjóðs að hafa þetta frjálst.

Hv. sjálfstæðismenn hafa, eins og kunnugt er, hina marglofuðu frjálsu samkeppni á sinni stefnuskrá, en nú rísa þeir upp hver á fætur öðrum og tala máli einokunarinnar. Finnst mér þar skjóta nokkuð skökku við; ég hefði haldið, að þeir myndu ekki sjá sér fært að vera á móti því, að viðgerðirnar í Slippnum yrðu gefnar frjálsar.