23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (882)

51. mál, strandferðir

Pétur Ottesen:

Ég get vel tekið undir það með hv. flm., að full ástæða er til að gera ráðstafanir til þess, að innlendi skipakosturinn, sem í strandferðum er, verði nytjaður betur en nú er til þeirra mannflutninga, sem eru hér meðfram ströndum landsins. Það er vitanlegt, að allmikið af þessum fólksflutningum, a. m. k. á stærri hafnirnar, á sér stað með erlendum skipum, dönskum og norskum.

En ég sé hinsvegar ekki, að það reki neinn nauður til þess, til þess að koma þessu eitthvað áleiðis, að fara að kveða svo á, að ríkisstj. ein hafi einkarétt til þess að flytja farþega hafna á milli. Ég veit, að t. d. í Noregi og víðar, þar sem erlend skip eru útilokuð frá slíkum mannflutningum með ströndum fram, þá er það ekki gert á þennan hátt, að gefa ríkinu einkaleyfi til að flytja, heldur með öðrum ákvörðunum.

Þótt ég því taki mjög undir það með hv. flm., að það beri sem bezt að hlynna að innlendu skipunum hvað þetta snertir, vil ég láta það koma fram, að það beri ekki að gera það á þann hátt, sem farið er fram á í þessu frv., og það því fremur, var sem með ákvæðum 2. gr. frv. virðist hreint og beint vera reitt til höggs við Eimskipafélag Íslands.

Þá vil ég ennfremur benda á það, að í þessu frv. er gert ráð fyrir, að ef strandsiglingar eru í höndum annara en ríkisins, þá eigi að greiða til ríkisins 20% af fargjöldum. En undanþegin eru skatti skip og bátar, sem styrks njóta úr ríkissjóði. En nú er þess að gæta, að allvíða er haldið upp fólksflutningi hafna á milli á skipum og bátum, sem einskis styrks njóta úr ríkissjóði, og eftir þessu ættu slík skip og bátar að komast undir þessi ákvæði, og af fargjöldum á þeim borgast 20% í ríkissjóð, m. ö. o. yrði að hækka fargjöldin sem nemur 1/5 að vitanlega verður þessi skattur að ganga út yfir þá, sem ferðast með skipunum.

Ég get bent á siglingar milli hafna við Faxaflóa, t. d. milli Rvíkur og Akraness. Bátar, sem þar fara á milli, njóta ekki styrks úr ríkissjóði, en með þeim fara t. d. á sumrin a. m. k. 200–300 manns vikulega. Á fargjöldum með þessum bátum yrði þá slík hækkun að eiga sér stað. „Suðurlandið“ yrði að sjálfsögðu undanþegið, en það kemur akaflega litið við sögu um fólksflutninga milli Rvíkur og Akraness.

Þá yrði eins um veiðiskip, sem flytja farþega milli Norður- og Suðurlands eða þá aðeins hafna á milli, sem þau oft gera þegar þau fara í veiðiferðir og að norðan aftur. Í þessu felst óhæfilegt ranglæti. Það má nú náttúrlega segja, að þetta geti staðið til bóta. Og þó að ég geti verið því að sjálfsögðu samþykkur, að rétt sé að útiloka erlend skip eftir því sem hægt er frá fólksflutningum með ströndum fram, þá vil ég gera það á annan hátt en þann, að einskorða, að ríkið taki að sér alla fólksflutninga með ströndum fram, og það á þann hátt, að Eimskipafélagi Ísl. gæti orðið til tjóns.