16.11.1933
Neðri deild: 11. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (954)

27. mál, lax og silungsveiði

Pétur Ottesen:

Því var spáð bæði af mér og ýmsum öðrum 1932, þegar laxveiðalöggjöfin var sett, að gallarnir á þessari löggjöf mundu brátt segja til sín. Síðan er ekki liðið nema eitt ár, og nú finnur ríkisstj. sig knúða til þess að fara fram á 3 breyt. Ég tel það víst, að þessar breyt. séu nauðsynlegar, en það er ýmislegt fleira í þessari löggjöf, sem þyrfti ekki síður að taka til athugunar. Ég flutti á síðasta þingi brtt. við ýms ákvæði laganna, og ef þær breyt. hefðu þá verið samþ., þá hefði ekki þurft að bera fram tvær af þeim brtt., sem hér liggja fyrir nú. Ég held, að þetta eigi við um 1. og 2. brtt. Ég vil hér benda á, að það hefir komið fram við framkvæmd þessara laga, sem ég sagði þegar í upphafi, að einstakir laxveiðamenn hafa tapað miklum tekjum og orðið af mikilsverðum hlunnindum án þess að fá nokkuð á móti. Mér var það ljóst, að þetta hlyti að koma fram, og benti á ósamræmi í lögunum, þar sem í öðrum tilfellum er gert ráð fyrir bótum, ef menn verða fyrir barðinu á þessum lögum. En þetta hafði þá ekki áheyrn hjá hv. d. T. d. gera lögin ráð fyrir, að fyrir missi selveiðinytja skuli koma fullar bætur. Laxveiðendur geta krafizt þess, að selveiði verði eyðilögð, þar sem selur er til spillis fyrir laxgengd, en fullar bætur eru greiddar fyrir þennan hlunnindamissi. Ennfremur geta þeir, sem við Árósa búa, krafizt þess, að laxveiði í sitji skammt frá Árósum verði niðurlögð, gegn fullum bótum til þeirra, er þá veiði eiga. Nú veit ég, að ýmsir, sem hlut eiga að máli, hafa borið sig upp við hæstv. atvmrh., og þar sem hann hefir tekið sér fram um breyt. á löggjöfinni, vildi ég heina til hans þeirri fyrirspurn, hvort ekki væri sanngjarnt, að tryggingarákvæði yrðu sett inn í frv., til þess að bæta eitthvað upp hann skaða, sem einstakir menn verða fyrir vegna ákvæða í lögunum, einmitt þeir menn, sem missa alla veiði án þess að fá nokkrar bætur fyrir. Ég vildi aðeins skjóta þessu bæði til hv. n. og hæstv. atvmrh., en krefst hinsvegar ekki svars við þessu nú. heldur vil ég mælast til, að þetta verði athugað til 2. umr., og vænti þess, að ég fái þá tækifæri til þess að gefa frekari skýringar.