22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (3302)

77. mál, áfengislög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Að ég hefi beðið um þessa aths. er eingöngu sakir þess, að hæstv. forsrh. leggur sig allmjög fram um það, að framkalla þá mynd af brtt. minni um húsrannsóknina, sem skjóti hv. dm. skelk í bringu með að samþ. hana. Ég hefi hreint og beint ekki orðið var við öllu meiri málafylgju hjá honum en þessa tilraun hans að knésetja þessa brtt. Hann seilist svo langt, að hann telur, að í till. geti jafnvel falizt brot á stjskr. Í tilefni af þessu vil ég benda hæstv. ráðh. á 61. gr. stjskr., sem hljóðar svo: „Heimilið er friðheilagt. Ekki má gera húsleit, né kyrrsetja bréf og önnur skjöl og rannsaka þau, nema eftir dómsúrskurði eða eftir sérstakri lagaheimild“. Í þessari grein er beinlínis gert ráð fyrir, að húsrannsókn skuli heimil með sérstöku lagaákvæði, án dómsúrskurðar. Þetta tel ég nægilegt til þess að sanna, að það brýtur ekki í bága við stjskr., þó að brtt. mín verði samþ.

Hæstv. forsrh. mótmælti því enn, sem ég hafði eftir núv. lögreglustjóra, að komið hefði fyrir, að lögregluþjónarnir hér framkvæmdu húsrannsókn án dómsúrskurðar. Ég skal að sjálfsögðu ekki fara að blanda mér inn í þann ágreining, sem er um þetta atriði á milli hæstv. ráðh. og núv. lögreglustjóra, og það því síður, þegar mér virtust ummæli hæstv. ráðh. falla síðast þannig, að hann tæki ekki fyrir, að þetta hefði átt sér stað, þó að hann tæki það fram, að lagaheimild væri ekki til fyrir því, að láta fara fram húsrannsókn án dómsúrskurðar. Ég vil nú benda á, að þegar það getur komið fyrir hér, þó kannske í einstaka tilfelli sé, að svo mikil nauðsyn sé á, að hrísrannsókn fari fram í fljótu bragði, að ekki er talið tækilegt að ná til lögreglustjóra í næsta húsi, til þess að tækifærið gangi ekki úr greipum lögreglunnar, hvernig mundi þetta þá vera úti á landi, þar sem langt og erfitt er að ná til lögreglustjóra, og hver áhrif gæti það haft á uppljóstranir í þessum málum að þurfa jafnan að bíða eftir úrskurði lögreglustjóra, og þegar svo þar við bætist, að oft er beinlínis ekki hægt að fá þá til þess að leyfa þetta. Enda hefir tregða þeirra í þessu oft leitt til þess, að ekki hefir verið hægt að ná í þá brotlegu. (GSv: Hvar hefir slíkt átt sér stað?). Hv. þm. þarf ekki að spyrja. Hann veit vel, að slíkt hefir víða átt sér stað, og það meira að segja í nágrenni hans.

Hæstv. ráðh. talaði og um það, að frágangurinn á brtt. minni væri mjög losaralegur, þar sem ekki þyrfti einn sinni að liggja fyrir sterkur grunur, svo gera mætti húsrannsókn hjá mönnum. Þessu er því fyrst að svara, að mér finnst ærin trygging í því fólgin, að rannsókn þessa mega aðeins framkvæma þeir menn, sem falin hefir verið löggæzlan, menn, sem taldir eru hafa þann manndóm, að óhætt sé að trúa þeim fyrir slíku ábyrgðarstarfi. Það út af fyrir sig virðist mér ætti að nægja til þess að tryggja það, að ekki væri rasað fyrir ráð fram í þessu efni, og yfirleitt held ég, að segja megi, að þessir menn standi ekki að baki sumum sýslumönnunum, a. m. k. hvað áhuga og skyldurækni snertir um þessi mál. En til þess nú að ekki sé hægt að segja það með neinum rétti, að losaralega sé frá þessu ákvæði gengið í brtt. minni, þá vil ég bera fram skrifl. brtt., sem hljóðar svo: „Húsrannsókn slíka má þó því aðeins framkvæma, að sterkur grunur leiki á um óleyfilega meðferð áfengis, enda telji löggæzlumaður hættu á, að dráttur á framkvæmd rannsóknarinnar geti orðið þess valdandi, að sönnunargögnum verði undan skotið“. Þegar nú þetta er komið til viðbótar því öryggi, sem ég tel að felist í löggæzlumönnunum sjálfum, er tæplega hægt að fella till. mína um þetta atriði fyrir það, hve losaralega sé frá henni gengið.

Þá minntist hæstv. forsrh. á það, að stundum hefði komið fyrir, að stórtemplar hefði verið búsettur norður á Akureyri, og væri því engin trygging fyrir því, að hann væri jafnan búsettur hér. Þetta hefir aðeins einn sinni komið fyrir, að stórtemplar hefir ekki verið búsettur hér, en það var fyrir misklíð, sem nú er löngu jöfnuð. Ég held því, að hæstv. ráðh. geti reitt sig á, að hann geti jafnan haft hann við hlið sér hér sem ráðunaut í þessum málum, ef brtt. mín verður samþ.