13.11.1935
Efri deild: 68. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1213 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Jón Auðunn Jónsson:

Mér fannst á sumum hv. þdm., að þeir felldu sig síður við það, að gjaldið væri ákveðið eftir geðþótta bæjarstj. og hefi ég því borið hér fram brtt. um, að það væri fastákveðið í frv. Ég verð nú samt að segja það, að í mínum augum er þetta ekki stór ókostur, og ef maður ætti við skynsamlega bæjarstj., þá ætti það að vera fremur kostur en ókostur að mega hafa þennan skatt lágan í byrjun. Það er fullerfitt að innheimta þessi gjöld, sérstaklega meðan þau eru ný. En Ísafjörður hefir öllum öðrum kaupstöðum meiri þörf fyrir að fá fastan gjaldstofn, vegna þess að útsvör á Ísafirði eru miklu hærri en í nokkrum öðrum kaupstað á landinu, ef miðað er við eignir manna og tekjur. T. d. voru þau árið 1932 helmingi hærri en í Reykjavík og meira en ½ hærri en á Akureyri, miðað við tekjur manna og eignir. Þess vegna get ég fallizt á, að það sé þegar ákveðið hámarksgjald í þessu frv. og það sé miðað við þá hæstu upphæð, sem er í frv., sem sé 1% af húseignum og 0,8% af byggingarlóðum, en af öðrum lóðum, ræktuðum lóðum, görðum og fiskreitum, 1% eins og annarsstaðar þar, sem þessi gjöld eru, því að það yrði auðvitað því nær ókleift að borga af þeim eins hátt og heimilað er í frv.

Annars skal ég geta þess, að fasteignagjöld, húsaskattur og gjöld af byggingarlóðum í Reykjavík eru með l. nr. 36 frá 1924 0,8% af húsum og 0,6% af byggingarlóðum og 0,1% af lóðum, sem eru ekki notaðar sem byggingarlóðir, svo sem ræktunarlóðum og fiskreitum. Í Neskaupstað er einnig fasteignagjald af húsum samkv. 1. frá 1921, og þar er skattur af húsum 0,5‰, en ekkert af lóðum. Á Siglufirði er fasteignagjald, en aðeins til að standa straum af sjóvarnargarðinum þar, og ekki lagt nema á nokkurn hluta fasteigna í kaupstaðnum, aðeins þær, sem stafar hætta af sjávargangi, og er gjaldið 0,49 af húsum, en 0,25% af öðrum fasteignum, svo sem lóðum.

Í Vestmannaeyjum er líka gjald af bæði húsum og byggingarlóðum, 0,4% af hvorutveggja. Undanskildar eru ræktunarlóðir, fiskreitir og bithagi.

Aðalbreyt., sem yrði samkv. mínum brtt., er sú, að af lóðum, sem notaðar eru til ræktunar, og öllum fiskreitum á gjaldið ekki að vera nema 0,1‰ enda virðist það vera stefna allra bæjarfélaga að hafa lágt gjald af þessum eignum. Býst ég við, að þessi skattur allur geti numið á Ísafirði um 40000 kr. á ári. Ef hann væri af öllum skattskyldum lóðum á Ísafirði, yrði hann 50000 kr., en bærinn á nokkrar lóðir, svo að ég hygg, að skatturinn verði ekki meiri en 40000 kr.

Það er enginn vafi, að kaupstaðurinn þarf að fá slíkan tekjustofn. En auðvitað verður þetta til þess að hækka húsaleiguna undir eins þegar frá liður, því að það eru ekki húseigendurnir, sem koma til með að bera þetta gjald, nema þeir, sem búa í sínum húsum og leigja ekkert af þeim, heldur verða það leigjendurnir, og má því búast við, að húsaleigan hækki við þessa skattgreiðslu.