21.11.1935
Efri deild: 75. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) [óyfir].:

Ég skil það nú, að hv. þm. N.-Ísf. hefir sannfærzt um, að hans till. miða í þá átt að ganga skemmra en frv., en muni verða eins dýrar í framkvæmd.

Ég er honum því þakklátur fyrir að taka þær aftur, og vænti þess, að hann fylgi frv. En bein afleiðing af því, að hv. þm. tók sína till. aftur, er sú, að við tökum okkar till. einnig aftur.

Hitt var beinn óþarfi af hv. þm. að vera að brýna mig á því, að ég væri á móti því að hafa hlustvörð allan sólarhringinn. Það er öðru nær. Þar er ég hinum alveg sammála, en það liggur alls ekki hér fyrir til umr.

Þá sagði hv. þm., að flutningaskipin mundu verða seld út úr landinu, að mér skildist vegna þessa kostnaðar. Og að nú þegar væru tvær beiðnir um sölu þeirra komnar til ráðh. En hver trúir því, að þetta sé ástæðan? Ekki ég. Og þó að beiðni hafi komið, er hvorki víst, að það verði veitt eða notað, þó það fáist.

Hitt er líklega, að einhverjir aðrir vilji eiga skipin og reka þau áfram. því má heldur ekki blanda saman ef eigendur vilja skipta á þeim og öðrum hentugri skipum. Ég veit um framkomnar beiðnir í því sambandi, en hefi ekki kynnt mér það mál. En að ástæðan fyrir þessum beiðnum sé sú, að hér á Alþingi hefir komið fram frv. um að tryggja öryggi mannslífanna á sjónum, því trúi ég ekki og vona, á því trúi enginn.