19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (3399)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Á þessu frv. hafa orðið verulegar breyt. síðan það var á ferðinni síðast, og ég tel þær tvímælalaust til bóta. Í frv. hefir verið tekið upp það fyrirkomulag, að hvert heimili fái hinar nauðsynlegu námsbækur gegn ákveðnu gjaldi á ári hverju, án tillits til þess, hve mörg börn eru á heimilinu. Tel ég, að þetta fyrirkomulag miði bæði að því að auka bókakost og spara kostnað við sölu bókanna. Ég sé, að í minnihlutaáliti hv. menntmn. er talið fyrirsjáanlegt, að tekjur þær, sem frv. gerir ráð fyrir, muni ekki nægja fullkomlega til þess að tilgangi frv. verði náð, og að þetta muni því óumflýjanlega leiða til hækkandi gjalda. Ég hygg, að þetta séu fullyrðingar einar og eru settar fram án þess að leitast sé við að færa rök að þeim. En þetta atriði hefir sérstaklega verð athugað af þremur mönnum, sem tvímælalaust eru hér allra manna færastir um að gera áætlanir um þennan kostnað. Þessir þrír menn eru fræðslumálastjóri, forstjóri ríkisprentsmiðjunnar Gutenbergs og Eggert Briem, sem er þekktur bóksali og um langt skeið hefir fengizt við bóksölu, og ég verð að segja, að ég verð að reiða mig á, að þær áætlanir, sem koma heim við athuganir þessara manna, hafi við rök að styðjast. Ég get þó fallizt á, að heimilt sé að hækka gjaldið um 60%, eða úr 5 kr. í 8 kr., ef ástæður benda síðar til þess, að það sé nauðsynlegt.

Ég verð því að álíta, að þetta séu fullyrðingar einar hjá hv. minni hl. n. og ekki á rökum byggðar. Legg ég til, að málið verði afgr. á þessu þingi.