19.12.1935
Neðri deild: 103. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (3415)

6. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Thor Thors:

Það er ekki rétt hjá hæstv. forseta, að menn missi ekki rétt, ef ekki er gengið til atkv. um brtt. þeirra, hvort þær megi komast að eða ekki, þegar þörf er að leita atkv. um slíkt. Það hefir verið alveg föst þingvenja, að forsetar hafa jafnan leitað atkv. um of seint framkomnar brtt. þegar um leið og þær hafa komið fram, nema ef svo hefir staðið á, að þær hafi að dómi þeirra komið að einhverju leyti í bága við stjórnarskrána. Ég vil því enn mælast til þess, að forseti láti brtt. þessa koma undir atkv. áður en lengra er haldið áfram með umr. um þetta mál. Annað finnst mér honum ekki sæmandi. Vilji hæstv. forseti ekki verða við þessum tilmælum mínum, fyndist mér það mjög leitt, og ekki sízt vegna hans sjálfs, ef hann heldi ekki heiðri sínum, en slíkt teldi ég vafamál, ef hann tekur upp nýja þingvenju hvað þetta snertir nú. Hitt kemur þessu ekkert við, þó að einstaka samherja hans þyki mál þetta kannske orðið nógu rætt.