24.10.1935
Neðri deild: 56. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (4132)

134. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi ekki látið mig þetta mál miklu skipta, þegar það hefir verið til umr. hér á Alþingi. En það eru fullyrðingar hv. 6. landsk., sem koma mér til þess að segja nokkur orð. Hann sló því föstu sem sönnuðu máli, að dragnótaveiðarnar drægju ekki úr annari veiði. Nokkur undanfarin ár hefir danskt skip verið að dragnótaveiðum seinni hluta sumars og haust á Miðfirði inni undir botni og uppi í landsteinum. Hvort sem það er nú tilviljun eða eigi, þá hefir síðan þessi veiði byrjaði þarna svo að segja tekið fyrir þann fiskafla, sem þarna var áður einmitt á þessum sama tíma. T. d. í sumar seinni part sláttar þóttust útvegsbændur þarna út með firðinum verða þess varir, að talsverður fiskur væri kominn í fjörðinn. Heyannir hindruðu þá frá veiðum þá í svipinn, en þegar þær voru úti og grípa átti upp fiskinn, brá svo við, að ekkert fékkst. Þá var þessi danski bátur búinn að skarka í firðinum og veiða talsvert af kola, en sennilega drepa meira af öðrum fiski, sem steypt var fyrir borð, því þorsk hirða þeir eigi, en eitthvað lítilsháttar af ýsu. Ég er eigi svo fróður að vita, hvort það getur spillt afla, að fiskurinn, sem drepinn hefir verið, liggur í botninum, eða hvort fiskurinn helzt ekki við þar, sem dragnótin er notuð, en hitt er staðreynd, að fiskaflinn hefir þorrið á þessum stöðvum. Það hefir ekki enn komið fyrir sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu að fá þetta svaði friðlýst, en ég get fullyrt, að farið er að undirbúa að fá samþykkt í þá átt einmitt á næsta sýslufundi, því þeir, sem hlut eiga að máli, þykjast orðnir sannfærðir um, að þarna sé um veiðispjöll að ræða, og það mun verða gert allt, sem unnt er, til þess að vernda hag þeirra.

Það eru fleiri en þeir bændur, sem fiskveiðarnar stunda, er hér hafa hagsmuna að gæta. Allir, sem búa í sveitunum upp af, hafa hagsmuni af því, að eitthvað veiðist hjá sjávarbændunum, til þess að þeir geti fengið fisk til heimilisnota á hagkvæman hátt. Það er ekki svo lítið hagsmunaatriði fyrir þá, sem ekkert hafa að gera að haustönnunum loknum, að þeir geti þá farið á sjó og fiskað til heimilisnota handa sér og nágrönnum sínum.

Ég verð því að segja um þá reynslu, sem talað hefir verið um í sambandi við þetta mál, að þar sýnist sitt hverjum. Hvað snertir reynslu manna þarna fyrir norðan, þá fellur hún öll í þann farveg að styrkja þá skoðun, að dragnótaveiðarnar spilli annari veiði í sjónum. Ég mun því beita mínu atkv. biklaust í þá átt að hindra allt, sem gera á til þess að draga úr valdi sveitarfélaganna til þess að vernda fiskimið sín í þessu efni. Finnst mér ég hafa þar full rök að mæla, þar sem reynslan, sem venjulega er ólygnust, hefir hjá okkur bent til þess, að þessi veiðiaðferð hafi spillt fyrir öðrum fiskveiðum.

Það má líka benda á annað, sem í þessu sambandi er athugavert. Áður en umrædd dragnótaveiði hófst á Miðfirði, mátti ganga að því vísu, að seinni partinn í september og fram í miðjan nóvember væri a. m. k. nægileg síldveiði til beitu á firðinum, en nú hefir síldar ekki orðið þar vart tvö til þrjú síðustu árin, einmitt á þessum tíma, sem áður var mest af henni. Ég man eftir því ein tvö haust ekki fyrir löngu, að nægileg síldveiði var á Miðfirði og út af honum eftir að öll síld var horfin annarsstaðar. Þá voru stundum 30 skip þar að veiðum í einu. Sum þeirra lögðu afla sinn upp á Hvammstanga, og barst þar í land ekki svo hundruðum, heldur svo þúsundum tunna skipti. Hafði héraðið ekki svo litlar tekjur af því að fá þessa síld þarna á land til frystingar. Ég skal nú ekki beinlínis segja, að síldarleysið á þessum slóðum undanfarin haust sé dragnótaveiðinni að kenna, en einkennilegt er það, að þarna ber að sama brunni, - síldin hvarf á þessum tíma árs, einmitt eftir að byrjað var að stunda dragnótaveiðarnar þarna inni í firði. Og ég veit, að allir, sem fiskveiðar og síldveiðar stunda, líta mjög miklu hornauga til þessa manns, sem ár eftir ár upp á síðkastið kemur til þess að fiska með dragnót þarna inni á firðinum.