25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (4686)

93. mál, fasteignakaup til handa ríkinu

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. flm. segir, að hverinn og umhverfi hans geti orðið gróðafyrirtæki, en eigandinn treysti sér þó ekki til að verja hann. Í þessu er fullkomin mótsögn. Ef eigandinn treysti sér til að gera hverinn að gróðafyrirtæki, myndi hann ekki hlífa sér við að verja því til viðhalds og vörzlu á hvernum, sem með þyrfti. Annars held ég, að erfitt verði að hafa mikið fé upp úr hvernum með því að selja aðgang. Hverinn sést að um langan veg, og því yrði erfitt að fá menn til að borga fé fyrir að koma ofurlítið nær, þar sem bletturinn umhverfis hverinn er aðeins 1 ha. og menn gætu hæglega séð hverinn gjósa úr svo lítilli fjarlægð. Enda bendir allt til þess, að eigandinn treysti sér ekki til að, gera hverinn að gróðafyrirtæki á þann hátt.

Ég hefi ekki heldur mikla trú á því, að hægt sé að selja landið í kring til sumarbústaða. Ég hefi sjálfur komið þarna og litizt umhverfið í mesta máta ófýsilegt til slíks. (BB: Nei). Jæja, hver hefir sinn smekk. 6000 kr. gefa meiri árlegar tekjur en líkur eru til, að land undir sumarbústaði þarna gæti gefið. Ég held því, að hér gæti ekki verið um gróðafyrirtæki að ræða.