13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég hefi engu að bæta við það, sem hæstv. fjmrh. tók fram um þær reglur, sem fylgt er í úthlutun innflutningsleyfa, né heldur um þá viðleitni, sem innflutnings- og gjaldeyrisn. hefir haft með að beina vörukaupunum til Þýzkalands. Ég tel það sjálfsagða skyldu að beina þeim vörukaupum, sem hægt er, þangað, því að með því skapast sölumöguleikar fyrir okkar vörur.

Hv. þm. G.-K. var að benda á eina vörutegund, sem við gætum keypt frá Þýzkalandi, nefnilega kolin. Eins og mönnum er kunnugt, eru þeir samningar við Breta, að við erum skuldbundnir að kaupa 77% af okkar kolum hjá þeim. En þau 23%, sem eftir eru, hafa allt fram að þessu verið keypt að mestu leyti í Póllandi. Ýms kolafélög hafa þar sambönd. Við höfum líka selt þangað talsvert af léttverkaðri síld, og þótti því ekki heppilegt að draga úr kolakaupum þaðan. Á síðasta ári var búið að gera samninga um síldarsölu til Póllands, en þegar minna varð úr síldveiðinni en búizt var við, var nokkuð dregið úr kolakaupunum frá Póllandi, en þeim viðskiptum aftur beint til Þýzkalands. Þetta verður tekið til athugunar í sambandi við Þýzkaland, að svo miklu leyti sem hægt er vegna skuldbindingar okkar við Breta og viðskiptajafnaðarins við Pólverja með tilliti til síldarsölunnar þangað.

Hv. þm. taldi, að fiskimálan. væri ekki til þess fallin að skipa mann í n., sem sér um úthlutun þessara leyfa, vegna þess að þar ættu sæti fulltrúar frá S. Í. S. og Alþýðusambandi Íslands. Ég get ekki verið honum sammála um þetta, og mig minnir, að á síðasta þingi hafi þessi hv. þm. komið með frv. um fiskiráð, sem átti að leysa allan vanda sjávarútvegsins. Þetta fiskiráð átti að vera skipað fulltrúum úr S. Í. S. og Alþýðusambandi Íslands. Ég hygg því, að hv. þm. hafi þá ekki talið óeðlilegt, að þessir aðilar hefðu þar einhver afskipti. Ef þetta er misminni hjá mér, mun hv. þm. væntanlega leiðrétta það.

Annars þýðir ekkert að vera að karpa um þetta atriði, því að ég býst við, að hv. þm. komi með brtt. við þetta atriði við næstu umr.