02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (1275)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Sigurður Einarsson:

Viðvíkjandi því, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um eitt af erindum þeim, sem ég hefi flutt í útvarpið, vil ég upplýsa það, að þetta erindi var prentað orðrétt eins og ég flutti það og birtist í Alþýðubl. nokkru seinna. Menn geta því sjálfir fullvissað sig um, að það var engan veginn rétt með farið, sem þessi hv. þm. vitnaði til minna orða. Hefði mér heldur aldrei getað komið til hugar að segja eins fáránlega vitleysu eins og hann vildi gera að mínum orðum.

Þá er það viðvíkjandi ræðu hv. þm. V.-Sk., sem ég vildi hafa leyfi til að gera nokkrar aths. Það er nú nokkuð dottinn úr honum móðurinn, og er því sýnilegt, að hirtingin hefir haft góð áhrif á hann. En annaðhvort fyrir óvitssakir eða illvilja þurfti hann að misskilja orð mín um skoðanaskipti hans. Ég var hvorki að láta í ljós hryggð eða gleði yfir því, þó hv. þm. virðist hafa snúizt til betra hugarfars frá æsku sinni; slíka hluti þakka menn guði í hljóði, ef mönnum finnst ástæða til, en vitna ekki um þá í þingsölum. Það var bara af því að hann var að sletta til mín út af skoðanaskiptum mínum, sem ég vildi minna hann á, að ég býst við því, að hans skoðanaskipti hafi stafað af því, að hann hafi talið sig finna betri og réttari skoðanir heldur en hann hafði áður. Þetta var þungamiðjan í orðum mínum, en ekki hitt, hvaða tilfinningar ég eða aðrir kunna að bera í brjósti í sambandi við sinnaskipti hans. Allt slíkt er prívatmál hinna trúuðu og guðs þeirra.

Það getur verið, að hv. þm. finni ástæðu til að gera mikið úr því — og ég mun ekki heldur gleyma því strax —, að hæstv. forseti fann ástæðu til að víta mig fyrir orðbragð hér í d. áðan. En það var ekki af því, að ég tæki of djúpt í árinni. Það er nefnilega ekki hægt að tala um staðreyndir við ritstjóra Morgunbl., þó maður noti vægustu orð tungunnar um athæfi þeirra, án þess forseti finni ástæðu til að víta menn fyrir að láta þau sér um munn fara í þingsölunum. Orð mín um Moggatetur mun ég standa við hvar sem er, og ég vil endurtaka tilboð mitt til Valtýs Stefánssonar, að hann komi með tólf blöð af Morgunbl. og láti þau vitna um heiðarleik í notkun útvarpsfrétta, eða teljist ómerkur maður ella.