24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (1493)

25. mál, alþýðutryggingar

*Pétur Ottesen:

Það er þakklætisvert, að nú skuli koma fram viðurkenning þeirra manna, sem fastast stóðu á móti því, að komið yrði fram leiðréttingartillögum á alþýðutryggingalögunum, þegar þau lágu hér fyrir til umræðu á síðasta þingi, á málstað okkar, sem breyt. vildum gera, því að því fer svo fjarri, að þeir undrist, að nú koma fram breyt. á þessari löggjöf, að þeir blátt áfram furða sig á því, hve litlar breyt. koma fram, því að hv. 1. landsk, er hissa á því, að í þessum breyt., sem hér liggja fyrir, eru ekki neinar breyt. á sjúkratryggingunum. Ég skal aðeins minnast á þetta lítilsháttar, því að þótt óánægjan hafi að sjálfsögðu fyrst og fremst komið fram í kaupstöðunum, þar sem lögin fólu í sér beina fyrirskipun um það, að þessar tryggingar skyldu þegar teknar upp þar, þá hefir líka komið fram óánægja í kauptúnunum út af ákvæðum sjúkratryggingalöggjafarinnar. Þannig er t. d. á Akranesi. Þar var þegar látin fara fram atkvgr. meðal kauptúnsbúa um það, hvort ganga ætti undir þessar tryggingar. Við atkvgr. var þetta fellt, og var þess vegna ekkert við því að gera, þar sem yfirlýsing manna fekkst um það, að þeir vildu ekki undir þetta ganga. Nú er það svo, að á Akranesi hefir nú um áratug verið starfandi sjúkrasamlag, sem byggist á þeirri löggjöf, sem gilti, þangað til þessi lög voru sett. Nú var það vitanlega ekki meining kauptúnsbúa, að falla frá því að hafa sjúkrasamlag, heldur óskuðu þeir eftir að starfa áfram á sama sjúkrasamlagsgrundvelli í stað þess að ganga undir nýju ákvæðin. Þess vegna var það, að þeir fólu mér að fara þess á leit við ríkisstj., að þeir fengju að halda nokkrum styrk úr ríkissjóði til sinnar sjúkrasamlagsstarfsemi. Ég skrifaði svo ríkisstj. fyrir þeirra hönd og fekk blákalda neitun um það, að þeir fengju nokkurn styrk, nema því aðeins að þeir gengjust undir nýju lögin. Þeir hafa nú samt frekar kosið að starfa með sitt sjúkrasamlag með sínu eigin fjárafli án styrks úr ríkissjóði, en vitanlega er þeim mjög nauðsynlegt að fá breytt þessum kafla löggjafarinnar, þannig að þeim verði heimilaður nokkur styrkur úr ríkissjóði, án þess þó að þeir þurfi að ganga undir ákvæði þessara laga. Að ég hefi ekki þegar komið með breyt. í þessa átt, stafar af því, að ég hefi heyrt óánægjuraddir um framkvæmd laganna og bjóst því við, að það mundi koma fram sérstök breyt. á þessum kafla l. Þess vegna var það, að ég flutti ekki brtt. um þetta efni, og hefir þetta skýrt komið fram hjá hv. 1. flm. þessa frv., þar sem þess er fyrst og fremst getið í grg., og auk þess hefir hann tekið það fram, að borin verði fram brtt. um þetta efni.

Það hefir verið reynt að hrekja það, sem fram kom hjá hv. 1. flm., að það væri mikil óánægja úti um sveitir landsins út af þeim kafla alþýðutrygginganna, sem fjallar um ellitryggingarnar. Ég held, að það sé ekki ómaksins vert fyrir hv. 1. landsk. eða hæstv. atvmrh., að vera að reyna að mótmæla því, að þessi kafli laganna hefir líka valdið mikilli óánægju, enda kom það fljótt í ljós, þegar farið var að „praktisera“ þessa löggjöf þannig, að þann hluta ellitryggingasjóðsins, sem var alveg skýlaus eign hreppanna, átti að taka af þeim, og í stað þess, að þeir höfðu notið óskorað vaxtanna af þessum hluta sjóðsins, þá áttu þeir að kaupa vextina af þessum eigin sjóðum sínum með því að leggja fram ekki aðeins helming, heldur eftir því, sem nú er komið á daginn, allmiklu meira en helming á móti því, sem þeir áttu að fá. Við meðferð þessa máls hér á þingi leit ég alls ekki svo á, að löggjöfin fæli þetta í sér. Orðalagið um þetta er alls ekki ákveðið, en þessi merking hefir nú verið lögð í það, bæði af hæstv. ríkisstj. og stjórn tryggingamálanna, svo að það er ekki um það að villast, hvernig búa á að einstökum sveitarfélögum, að því er þetta atriði snertir. Það hefir líka valdið óánægju, að ellistyrktarsjóðsgjaldið hefir verið hækkað. Það mátti heyra á hv. 1. landsk., að honum fannst það smámunasemi hjá mönnum, að vera að gera veður út af þessari hækkun, en ég er hræddur um, að hann þekki ekki hinar erfiðu kringumstæður manna, sem ekki hafa annað sér til lífsviðurværis en það sem þeir geta aflað sér með sínum atvinnurekstri, en það er náttúrlega vorkunnarmál af hálfu þeirra manna, sem lifa kóngalífi af náð hæstv. ríkisstj., þótt þeir eigi ekki gott með að átta sig á því, hversu þröngt er í búi hjá bændum. — Ég ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, enda hefir hv. 1. flm. gert hreint fyrir sínum dyrum, að því er snertir tilgang okkar flm. með því að bera þetta frv. fram.