15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Við hv. þm. G.-K. vil ég segja það, að það er ekki svo hættulegt, þó að hann gleymi því nú, að ráðh. geti sagt af sér, en það væri hættulegt, ef hv. þm. væri í því sæti, sem ég er í nú, að hann skyldi þá gleyma því.

Út af því, sem hv. 8. landsk. sagði, að það væri ekki ótrúlegra, að beitt væri hlutdrægni við atvinnuúthlutun við síldarverksmiðjurnar á Siglufirði heldur en að ég væri hlutdrægur í embættisveitingum, vil ég segja það eitt, að „margur hyggur mann af sér“; það að hann er með fullyrðingar um, að ég sé hlutdrægur í embættisveitingum, án þess að hann reyni að færa rök að því, sýnir, hvernig hv. þm. er í eðli sínu. Ég get trúað, að þessi sjálfslýsing eigi vel við hann.