11.12.1937
Efri deild: 47. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég á hér eina brtt. á þskj. 274, um niðurskiptingu á benzínskatti. Ég gat þess hér við umr. þessa máls, að það væri sjálfsagt og rétt að skipta benzínskattinum til vega í samræmi við það, sem kæmi af benzínskattinum úr hverjum fjórðungi. En það hefir tekizt þannig til, að einum fjórðungi landsins hefir ekki verið ætlaður einn einasti eyrir af þessu fé. Hæstv. fjmrh. tók fram, að hann vildi skipta þessu sanngjarnlega, og ég vænti þess, að svo verði. En nú horfir þannig málum, að vegur í Vestfirðingafjórðungi, sem greinist frá meginbrautinni í Borgarfirði, Vesturlandsveginum, er nú, þegar kemur inn fyrir Bröttubrekku, þannig farið, að það þarf 11–12 þús. kr. til að gera hann þannig færan, að ekki þurfi að fara yfir stórt vatnsfall á leiðinni. Bílar hafa iðulega orðið fastir á sumrin, að heita má daglega í Miðá. Ég veit, að hæstv. vegamálaráðh. er vei kunnugt um þetta, þar sem hann hefir oft átt þar leið um. Nú fékkst í þennan veg í fjári. 8 þús. kr., en þá vantar töluvert fé í hann enn. Nú fara nær allir Vestfirðingar, sem úr fjórðungnum fara landleiðina eða heim til sín, þennan veg, og því réðst ég í að reyna fyrir mér, hvort hv. d. vildi ekki sýna þá sanngirni að miðla í veg þennan nokkru af þessu fé. En yfirleitt horfir málið þannig fyrir mér, að ég legg ekki kapp á að fá þetta beinlínis sem benzínskatt til vegarins. Og ég segi fyrir mig, að í því trausti, að hæstv. fjmrh. fylgi nú fram þeim ásetningi sínum, sem hann virðist láta í ljós hér, að hann mundi stuðla að því, að fjvn. reyndi að gera skiptinguna á þessu fé enn sanngjarnari en áður, mundi ég geta tekið þessa brtt. mína aftur. — Ég vænti þess, að það verði litið á þetta mál rétt og sanngjarnlega, því að það varðar alla þá menn, sem ferðast landleiðina til Vestfjarða, þar sem það er eina leiðin, sem þangað liggur og bílfær á að heita. Ég ætla ekki að svo stöddu máli að ræða hin önnur atriði þessa frv., og læt því þetta nægja að sinni.