19.10.1937
Neðri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (1802)

7. mál, alþýðutryggingar

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Frv. þetta á þskj. 7 er það sama og borið var fram á síðasta þingi, en dagaði þá uppi. Þegar eftir að frv. þetta var fram borið, kom það í ljós, að hér á Alþingi voru menn sameinaðir um að vera ekki ánægðir með þá löggjöf um alþýðutryggingar, sem þá var nýkomin, og var það að vonum, því að fólk sá og reyndi, að ekki mátti við sum ákvæði þeirrar löggjafur hlíta.

Þetta frv., sem við berum fram nú, miðar að því að lagfæra helztu ágallana, en þeir ágallar eru og viðurkenndir af hinum flokkunum, meður því að brtt. komu fram á síðasta þingi, sem tóku tillit til þessara sömu atriða. Það er því ekki síður tímabært nú en þá að bera þetta mál fram á Alþingi.

Ég skal ekki verða langorður um þetta og læt að mestu nægja að vísa til orða minna, þegar frv. var fram borið í öndverðu. Ég vil aðeins drepa á helztu breytingarnar, en þær eru: Í fyrsta lagi að lagfæra ákvæði um dánarbætur til eftirlifandi ekkju eða ekkils, svo og foreldra. Þær tilheyrðu frekar kaflanum um slysatryggingar, sem voru, áður en alþýðutryggingarnar voru settar, orðnar tiltölulega fullkomnar, og var það ekki nema að vonum, svo langan tíma sem hafði verið um þær fjallað. Ég taldi því, að þar yrði ekki um bætt, enda fór svo, að þeim ákvæðum var eigi breytt í alþýðutryggingalögunum, nema til hins verra. Af voru teknar bætur til eftirlifandi foreldra, sem misst höfðu börn sín, og þá helzt sonu sína, og bótunum var yfirleitt misskipt. Brtt. mínar voru þær, að þetta væri fært til sama horfs og áður var, og brtt. Alþfl. og Framsfl. miðuðu í sömu átt.

Í annan stað voru þessar brtt. aðallega við ellitrygginga- og lífeyrissjóðskaflann. Það er mikið mál, og vil ég drepa á kosti og galla þeirrar löggjafar og greina aðalstefnuatriðin.

Þetta frv. gerir ráð fyrir, að löggjöfin haldist, en verði endurbætt. Hér voru fyrr lög um einskonar ellitryggingar, sem hétu lög um almenna ellistyrktarsjóði, en ekki var mikið af mörkum lagt samkv. þeim ákvæðum. Sjóðirnir höfðu ekki magn til að miðla miklu til gamalmenna. En þar kom styrkur úr ríkissjóði til viðbótar, og sá styrkur var orðinn allverulegur og munaði talsverðu til þess að bæta hag manna, og engar kvartanir heyrðust. Síðasta árið, sem ellistyrktarsjóðirnir voru við lýði, 1935, var styrkur veittur á 3. hundrað þús. kr. yfir allt landið. Gefur það að skilja, þar sem honum var úthlutað eftir kunnugastra manna ráði, að hann kom að góðu haldi, og má segja, að sveitirnar hafi unað þessu vel. Sveitirnar vissu, að þær áttu fúlgu, sem ekki varð af tekið. Nú kemur það til, að öll þessi fúlga, sem í árslok 1935 er orðin hátt á 2. millj. kr., er tekin hertaki af löggjafarvaldinu, enda sætti það miklum mótmælum, að án þess að spyrja héruðin er öllu dembt í sameiginlegan sjóð, og er það verk, sem löggjafarvald á ekki að láta liggja eftir sig. Og það var ekki nóg með, að þessi fúlga væri tekin af héruðunum, heldur voru vextirnir líka teknir, og það þó að ákvæði laganna gæfu ekki fullt tilefni til þess. Það má líka segja, að ekkert atriði í löggjöfinni hafi sætt eins almennri óánægju í öllum flokkum um land allt eins og þetta. Þegar til kemur, eiga hrepparnir, ef þeir eiga að hafa von um að fá nokkurn styrk úr hinum sameiginlega sjóði, að leggja fram úr sveitarsjóði á móti, og var það alveg nýtt atriði, og án þess að héruðin væru nokkuð um spurð. Þetta eru allir sammála um, að verður að lagfærast.

Þá er einnig mikið athugavert við þau ákvæði, sem fjalla um gjaldskyldu. Er þá fyrst til að taka, að íðgjöld eru orðin allt of há, og gengur ein brtt. okkar í þá átt að fá þau lækkuð. Einnig er farið fram á, að gjaldskyldualdur ellitryggðra sé færður niður í það horf, sem var, nefnilega úr 67 árum í 60 ár. Gjaldskyldutímabilið 18–60 ár var sem sé rýmkað í 16–67 ár, en það þótti m. a. ákaflega ranglátt að láta menn yfir 60 ára að aldri þurfa að gjalda á ný til hinna nýju sjóða.

Ég þykist ekki þurfa að rekja nánar ákvæði frv., en um leið og ég segi almennt frá því, hvert stefnir í þessu efni, skal ég geta þess, að sjálfsagt þykir, að vextir ellistyrktarsjóða hreppanna skuli, á því tímabili. sem er millibilsástand, teljast með í tillagi sveitarsjóðanna og úthlutast af sveitarstjórnum, en á móti leggi lífeyrissjóður fullt. Menn getur greint á um, hvort vextirnir eigi beinlínis að teljast til tillagsins eða þeim skuli úthlutað sérstaklega, en hvað sem um það er, teljum við skýlaust, að hrepparnir eigi umráðin yfir þessu, og eðlilegt, að það teljist til tillagsins.

Nú telja ýmsir þann milliveg færan, að flytja umráð vaxtanna heim í sveitirnar, og má vel um það ræða, en með því er ekki umráðunum skilað aftur.

Loks vil ég drepa á það, að það þótti hart aðgöngu, þegar alþýðutryggingalögin voru sett, að aðrir lífeyrissjóðir voru líka teknir hertaki, sem sé lífeyrissjóður embættismanna og lífeyrissjóður barnakennara. En til þessara sjóða hafa menn greitt alla sína embættistíð, og hefir það oft verið of þungur skattur, því að þeim er ekki að sama skapi ætlaður riflegur lífeyrir. Það er fúlga, sem alþýðutryggingalöggjöfin ætlast til, að tekin verði og lögð inn undir hinn almenna lífeyrissjóð, og um sinn eiga embættismenn að heyra undir ákvæði eldri laganna, en ekki undir ákvæði núgildandi laga. Sama er að segja um lífeyrissjóð barnakennara, en hann er kominn hátt upp í 1 millj. kr. þann tíma, sem hann hefir starfað, svo að þetta allt saman er geysimikil fúlga, og er ekki vandi að mynda stóran sjóð, þegar heilir sjóðir, sem óheimilt er að taka, eru teknir og þeim er dembt saman. Það er enginn vandi að búa til milljónasjóði, þegar milljón er tekin frá almenningi og héruðum, — og svo eru menn að hrósa sér af þessu. Því verður ekki um þokað, að þetta er gert á þann hátt, að réttlæti í meðferð þessa fjár hefir ekki verið haft að grundvallarreglu. Nú viljum við, sem þetta frv. flytjum, ekki við þetta hlíta og ætlum að sjá, hvort hið háa Alþingi vill ekki færa þetta til réttari vegar og láta þessa sjóði halda sér án þess að taka þá sama taki og hina, og er þá tímabært að athuga, að hið árlega gjald lífeyrissjóðs ætti að lækka eftir réttri reglu, að því er snertir vöxt sjóðsins.

Ég skal nú ekki að sinni hafa þessi orð mín fleiri, en vil vænta þess, að um margt af þessu verði gott samkomulag, með því að menn eru, eins og ég hefi getið um, komnir á þá skoðun, að hér þurfi leiðréttingar við. Í þetta frv. er ekki tekinn einn kafli alþýðutrygginganna, sem sé sjúkratryggingakaflinn, og er það gert af okkur með ráðnum hug, því að við ætlum þeim stöðum, þar sem þau ákvæði koma helzt til framkvæmda, kaupstöðunum, að taka málið til íhugunar og bera fram brtt. við þau. Í frv. er lagt til, að 5. kaflinn í f., sem fjallar um atvinnuleysistryggingar og er óstarfhæfur, verði felldur burt úr l., og í rauninni er ekki tímabært að fara fram á þau ákvæði, og væntanlega er enginn ágreiningur um það atriði. Ég vil svo að lokum leyfa mér að leggja til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. allshn.