17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (1986)

80. mál, jarðræktarlög

*Þorsteinn Briem:

Hv. 1. þm. Rang. var mjög hávær út af því, að ég hafði sagt, að í hans kjördæmi hefðu verið greidd fleiri atkv. á móti 17. gr. jarðræktarl. heldur en með henni. En ég hefi fyrir mér skýrslu, sem er gerð af einum starfsmanni Búnaðarfélagsins, og þar segir, að með 17. gr. hafi í Rangárvallasýslu greitt 63 menn atkv., en á móti hafi greitt 119. Þó að það sé ekki nákvæmlega upp á brot, þá ætla ég, að 119 af 181 sé ekki mjög fjarri því að vera nærri, en satt að segja lagði ég ekki á mig að reikna þetta nákvæmlega í broti handa hv. þm. Hv. þm. reyndi að rugla atkvgr. um 17. gr. saman við aðra atkvgr. um lögin að öðru leyti, en það kemur ekki þessu máli við, og ætla ég ekki að taka mér nærri vanstillingu hv. þm. í sambandi við það. Að því er snertir dæmið, sem hv. þm. tilnefndi, að bóndi einn hefði reiknað sér 100 kr. fyrir hverja dagsláttu í túni, sem hann hefir gert síðan síðasta fasteignamat fór fram, þá sýndi ég fram á, að almesta kostnaðarverð fyrir 1 ha. væri 900–1200 kr., eða að meðaltali 1000 kr., og almesta kostnaðarverð fyrir sléttun dagsláttu væri 300 kr. Ég fór þeim orðum um þetta, að þar sem bóndinn teldi sig þurfa að fá 100 kr. fyrir hverja dagsláttu, sem hann sléttaði síðan síðasta fasteignamat var gert, þá sýndi það aðeins, að hann væri ekki að braska með jarðræktarstyrkinn, því að hann færi ekki fram á að fá framlagðan kostnaðinn fyrir sléttunina, heldur aðeins kringum 1/3, svo að hann gerir ekki kröfu til þess að fá sin eigin verk endurgreidd nema að 1/3, og er því langt frá, að hann sé að gera tilraun til þess að selja þennan ræktunarstyrk, sem hann hefir fengið. Hv. þm. endurtók það enn í þessari ræðu, að margir bændur vildu heldur fá jarðir, sem ekkert væri búið að gera á, heldur taka að sér að vinna að ræktuninni sjálfir og njóta ræktunarstyrks. Þetta get ég vel skilið, og það kemur alveg heim við mína skoðun, og það sýnir ljóslega, að það er langt frá því, að menn almennt vilji kaupa ræktunarstyrkinn, heldur kjósa þeir miklu fremur að fá að gera jarðabæturnar sjálfir, enda væri þá meiri trygging fyrir því, að þær væru vel unnar. Þetta styður allt mitt mál, hvernig sem hv. þm. reynir að snúa því við.