17.11.1937
Neðri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (1988)

80. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Mig undrar nokkuð, hvaða erindi sá hv. þm., sem nú settist niður, hefir talið sig eiga í þessar umr., þegar litið er á ummæli hans, eins og hann hefir sett þau fram hér í hv. d. Mér virðist hann ekki hafa lagt neitt til málanna annað en að snúa út úr fyrir þeim, sem hafa talað, með rakalausum áburði, sem er þannig vaxinn, að það er einkennilegt, að hann, sem er í þessari stöðu, sem hann er í, og var að tala um, að hv. þm. Dal. væri líka í, skuli leyfa sér aðra eins málsmeðferð. Að vísu hefir verið sagt, að þessi hv. þm. ætti vanda til að vera nokkuð æstur, og sumir segja, sem ég vil ekki trúa, að hann tæki þátt í umr. til þess að vera illkvittinn. En það er leiðinlegt, þar sem hann hefir áður verið þm., að hann skuli ekki enn hafa lært, að það er ekki nóg að vera bara illkvittinn, og að það eru ekki gild rök, þegar hann ber embættisbróður sínum á brýn fölsun og blekkingar og að síðan hann fór úr Framsfl. hafi hann ekki haft annan atvinnuveg en að rægja og blekkja. Þegar slík orð og ummæli koma frá þessum hv. þm., sem er vígður, þá verður manni á að ætla, að það séu fleiri í þessari stöðu, sem ættu að fá ámæli, heldur en sá, sem hann vill ámæla, sem er „kollega“ hans. Það er annars áberandi að hlusta á þá tvo vígðu menn, sem hér eru, tala. Það hefir ekki orðið annars vart en að sá, sem átt hefir sæti hér á þingi nú um langt skeið, hv. þm. Dal., talaði með stillingu og rósemi. Hann meiðyrðir ekki menn, þó að hann geti verið elnbeittur, en þegar hv. 1. þm. Rang. telur sig eiga erindi til þess að ávíta og koma með aðdróttanir í garð hv. þm. út af skoðanamun, þá ætti hann að líta í sinn eiginn barm. Nú gat hann ekki talað öðruvísi við hv. þm. Snæf. en svo persónulega að bera það fram, að hans skoðun í þessu efni, og líklega Sjálfstfl. yfirleitt, væri miðuð við það, hvernig föður hans á Korpúlfsstöðum reiddi af. Þetta hefði getað staðið í verstu sorpgrein í blaði, en það hefir ekki borizt inn í þingið fyrr en þessi hv. þm., sem er vígður, vill messa yfir þeim texta hér í hv. d. Hv. þm. er annað veifið að tala um tölur, sem hann snýr öllum við, eins og henti hv. 2. þm. Skagf., þegar hann var að greina frá atkvgr. um 17. gr. Það er óvefengjanlegt, að í atkvgr. um 17. gr. greiddi mikill meiri hluti atkv. á móti. Þegar búið er að tala um, hvernig atkvgr. um gr. fór og endurtaka, hve mikill hluti þeirra, sem greiddu atkv., hafi verið á móti, þá standa þessir menn upp og segja, að það hafi verið greidd atkv. um öll lögin. Þó að við séum að tala um eitt atriði, þá leyfa þeir sér að snúa þannig út úr því, þó að enginn, sem vildi ræða málið, mundi dirfast að gera það í alvarlegum umr., og svo er hv. 1. þm. Rang. að tala um, að menn tali ekki nógu alvarlega. Ég hefi talað af fullri alvöru um þetta mál, en þegar ég talaði við hv. 2. þm. Skagf. um þetta, þá sýndi ég á andliti, að ég tók ekki allt hátíðlega, sem hann sagði. En það er óviðkunnanlegt, að hv. 1. þm. Rang. skuli vera að setja sig upp á háan hest, eins og hann hefir látið ljós sitt skína miður en skyldi í þessum umr. Það er annars í sjálfu sér nokkur vottur um það, hvernig málstaðurinn er, þegar þm. taka upp á slíku, og er það ekki að furða, því að ég veit ekki betur en að í Framsfl. sé mikil óánægja með ýms ákvæði l., ekki sízt 17. gr. Nú þykist hv. 2. þm. Skagf. ætla að rökstyðja sinn málstað með því að lesa upp niðurstöðu flokksþingsins um þetta efni, en hv. þm. veit vel, að það, sem gerðist á fundinum, kemur ekki nema að litlu leyti fram í ályktuninni. (StgrSt: Hvernig getur hv. þm. sannað þetta?). En það, að ályktunin er gerð um málið, sýnir, að málið var uppi á fundinum, og svo geta menn aflað sér ýmsra heimilda um, hvað hafi gerzt á fundinum. Hv. þm. gat ekki hrakið það, að margir framsóknarmenn úti um land hafa verið óánægðir með 17. gr. Þetta er því í rauninni ekki flokksmál, þó að Framsfl. hafi barizt um þetta mál við kosningarnar. Það er misskilningur, að hér sé um að ræða fáa menn, sem hv. 1. þm. Rang. á sínu máli kallar braskara. Ég fullyrði, að þetta sé fyrir bændastéttina almennt, því að það kemur niður á öllum, sem ræktun stunda, því að þeir hafa af óeigingjörnum hug unnið að ræktun á sinni jörð og vilja eiga sína jörð, og það er engin goðgá. Þeir hafa eftir fyrri lögum fengið jarðræktarstyrkinn óskoraðan, og svo er þetta tekið af þeim. Þessu una þeir illa. Hefði þetta verið nýtt ákvæði, þá væri það sök sér, en það var búið að gefa þennan styrk í lögum áður, og menn treystu því og unnu í þeim anda, að þetta mundi standa; þá er hart, að þetta skuli vera tekið af þeim. Þessir hv. þm. skulu verða varir við þetta hjá bændum og flokksmönnum sinum alltaf, þangað til leiðrétting fæst.

Að síðustu vil ég taka það fram í sambandi við svar hv. 2. þm. Skagf. við spurningu minni um það, hvaðan kröfur hafi komið til þeirra, sem undirbjuggu lögin, um að setja þessi ákvæði 17. gr., hvort þær hafi komið frá bændum, hverjum bændum og hvað mörgum, að hv. þm. segir, að þetta sé alls ekki komið frá neinum að utan; hann segir, að þetta sé komið frá þeim mönnum, sem undirbjuggu lögin.