04.05.1938
Neðri deild: 61. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2645)

127. mál, landssmiðjan

*Emil Jónsson:

Fyrir einu eða tveimur árum síðan voru hér samþ. lög um stofnun landssmiðju. Þessi lög eru ekki komin til framkvæmda ennþá. Og nú ber hv. þm. A.-Húnv. ásamt fleirum fram frv. um það, að þessi stofnun verði lögð niður, áður en þau lög, sem Alþ. hefir sett, hafa verið framkvæmd. Ég sannast að segja skil ekki almennilega í, hvað fyrir þm. vakir. Það var að vísu þannig, að þessi lagasetning mætti nokkurri mótspyruu frá flokki þessara hv. þm., og þeir hafa alla tíð verið því andstæðir að þessi smiðja væri rekin í harðvítugri samkeppni, eins og hún hefir verið, við þær verksmiðjur, sem hér eru starfræktar. Það kæmi mér ekki óvart, að einhverjar dýpri ástæður liggi til grundvallar fyrir þessu frv. heldur en fram hafa komið, og ég hygg, ef hv. þm. færi að rannsaka ýmsar þær framkvæmdir, sem nú hafa verið gerðar í landssmiðjunni fyrir hið opinbera, að hann sæi, hver afleiðingin yrði, ef hans frv. yrði samþ., þ. e. að reikningar fyrirtækja þeirra, sem vinnuna framkvæmdu fyrir ríkið, yrðu ekki lægri. Að gera samninga um þessi verk til margra ára nær ekki nokkurri átt. En það sagði hv. þm. af því hann veit ekki, hvað hann er að tala um. Ef á að gera samninga við fyrirtæki um framkvæmt verks eftir 2 til 3 ár, getur verðlag og kaup manna og annað slíkt verið svo langt frá því, sem nú er, að slíkt er alveg ómögulegt. Það, sem tryggt er með starfi landssmiðjunnar, er, að þar fæst unnið fyrir kostnaðarverð, sem alls ekki er tryggt á neinum öðrum stað. Með lögum frá 1936 var gert ráð fyrir því, að ríkissjóður ábyrgðist nokkrar fjárgreiðslur til landssmiðjunnar til þess hún gæti byggt yfir sig viðunandi húsakynni og aflað nokkurra nauðsynlegra tækja. Landssmiðjan byrjaði af mjög miklum vanefnum og hefir ekki fram á þennan dag fengið þau nauðsynlegu tæki til að geta staðið sig í samkeppninni. En að vísu er nú landssmiðjunni ákveðin nokkur lóð, þar sem hún starfar, og þeim stofnunum öðrum, sem hafa þar hús, verður sagt að flytja þau. En ekki hefir ennþá fengizt ákvörðun um, hvort byggðar yrðu þær byggingar, sem lögin mæla fyrir, og þær vélar yrðu fengnar, sem nauðsynlegar eru. Á þessum undanförnu starfsárum hefir landssmiðjan þó, ef allt er tekið sem heild, ekki skilað halla fyrir ríkissjóð a. m. k. sem neinu nemur, heldur yfirleitt hagnaði. Að leggja hana niður að þeirri ástæðu er ekki að ræða um. Ég er sannfærður um, að þetta getur borgað sig fyrir ríkissjóð, eins og hv. 2. þm. Árn. segir, að leggja fram nokkurt lán til húsbyggingar og vélakaupa til þess að fá reksturinn færðan í betra horf. Því eins og kunnugt er, verða svona stórar framkvæmdir sem þessar, skipaviðgerðir og annað, ekki unnar á neinn hátt „ökomomiskt“ nema fullkomnustu tæki og annað sé til staðar. Ég held því, að þetta frv. sé fram komið alveg að tilefnislausu, og ekki ástæða til að láta það fara til n. Ég mun þó ekki setja mig á móti því. Ég held, að það væri fullt eins mikil ástæða til að vísa frv. til iðnn. eins og fjhn. En ég geri ekki ráð fyrir, að flm. ætlist til, að frv. gangi fram á þessu þingi, svo seint sem það er fram komið.