22.04.1939
Neðri deild: 47. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

29. mál, hegningarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þessi ræða gefur mér ekki tilefni til að segja margt um þetta mál. En þó vildi ég segja það, að þegar talað er um frekari undirbúning á þessu máli, þá get ég ekki komizt hjá því að leggja á það verulega áherzlu, að mér dettur ekki í hug, að sumir þeirra hv. þm., sem hafa haft málið til meðferðar nú í 2 mánuði, séu — sumir hverjir — á nokkurn hátt verr til þess fallnir eða óhæfari til þess að rannsaka málið heldur en þeir menn aðrir, sem gætu orðið fengnir til þess í millþn.

Þó að hægt væri að skipa í slíka n. álíka menn eins og þessa þrjá menn, sem fjallað hafa um undirbúning þessa frv., þá Einar Arnórsson, sem hefir mest af sinni starfstíð verið prófessor í l. við háskólann, Þórð Eyjólfsson hæstaréttardómara, sem hefir kynnt sér þetta mál alveg sérstaklega, og Gissur Bergsteinsson, sem lagt hefir í samningu þessa frv. sérstaklega mikla vinnu. — þó að fá mætti e. t. v. slíka menn í þá n., þá ættu hv. þm., sem eiga sæti hér í hv. d. og eru vanir dómarar og hafa verið það um mörg ár, þá dettur mér ekki í hug, að þeir hv. þm. séu ekki alveg eins færir um að rannsaka þetta mál eins og aðrir, sem fengnir gætu verið til þess að athuga málið utan þings. Ég vil leggja áherzlu á, að þingið samþ. mál, sem vel eru undirbúin. Og ég vil alls ekki gera neitt lítið úr þeirri athugun, sem þetta mál hefir fengið hér í 2 mánuði meðal þeirra hv. þm., sem eru lögfræðingar og auk þess æfðir dómarar.

Um 236. gr., sem aðallega er rætt um, hefi ég tekið það fram og fært rök að því sem minni skoðun, að um fyrri hluta gr., þ. e. a. s. fyrri málsgr., geta tæplega verið skiptar skoðanir, að þegar ærumeiðandi aðdróttun er höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá skuli það varða hegningu. Það getur aldrei verið til þess að vernda prentfrelsið í landinu eða málfrelsið að taka vægilega á slíku. Það endar heldur venjulega með því að eyðileggja það.

Það er síðari málsgr. 236. gr. sérstaklega, sem getur valdið nokkrum meiningamun. Þó vil ég álíta, að málsgr. eins og hún liggur fyrir sé ekki of ströng. Ég vil vekja athygli á því, að sönnunin í þessu tilfelli er neikvæð (sbr. síðari mgr.). Og við vitum, að atriði eru oft ákveðin eða skýrð í lögum með dálítið meiri strangleika en framkvæmd l. er. Og í þessu tilfelli má gera ráð fyrir slíkum dálítið meiri strangleika en beinlínis verður krafið til þess að sanna, hvort maðurinn hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda einhverju fram. Þarna er náttúrlega lagt mikið vald í hendur dómstólanna, og það verður hæstv. Alþ. að gera upp við sig, hvort það vill gera það eða ekki. Og þess ber einnig að gæta, að allt frá því er hegningarlöggjöfin var sett 1869 hafa dómstólarnir alltaf haft tilhneigingu til þess að skýra og dæma eftir ákvæðunum um ærumeiðingar vægar heldur en orð hegningarl. jafnvel standa til. Það hefir jafnvel verið gengið svo langt að mynda þá dómsvenju, sem heggur nærri því að vera ekki í samræmi við orð l. Og þess vegna er það, að þó að þetta ákvæði standi þannig í l., þá eru ekki nokkrar líkur til þess, að þessu ákvæði verði beitt þannig, að ástæða sé til að vera á móti því að lögfesta það, heldur eru allar líkur með því, að þessu ákvæði verði beitt með þeirri fyllstu varúð. Þess vegna er það, að ég álít, að þetta ákvæði eigi beinlínis að leiða í l. og að það sé til mikilla bóta, vegna þessarar skoðunar minnar, sem ég tók fram áðan, að það eigi að draga alveg skýrar og strangar takmarkalínur milli þess, hvort menn halda einhverju fram í þeirri trú, að þeir hafi sennilegar ástæður til þess að halda, að það sé rétt, og þeir því deila á það, sem þeir trúa, að fari aflaga, og hafa sennilegar ástæður til að halda, að það sé rétt — og ég vil láta dæma það vægt —, og hins hinsvegar, er menn bera það fram, er þeir vita, að er rangt, og hafa enga sennilega ástæðu til að halda að sé rétt, og vil ég láta liggja stranga refsingu við því. Fyrra tilfellið, er ég nefndi, er til þess að halda uppi réttlátum aðfinnslum, prentfrelsi og málfrelsi, sem hverju þjóðfélagi er nauðsynlegt. En sakaráburður sá. er ég síðar nefndi, er þess eðlis, að það, að láta slíku óhegnt, er beinlínis til þess að eyðileggja prentfrelsið og málfrelsið í landinu, því að ef farið er svo með það til lengdar að bera fram ákærur gegn betri vitund, þá miðar það slíku frelsi til tortímingar.

Þetta er sá rökstuðningur, sem ég sem dómsmrh. tel máli skipta að bera fram um þessa gr. Og ég tel það ekki vandamál fyrir lögfræðinga og dómara að mynda sér skoðun um það, hvort þeir vilji leiða slíkt í l. eða ekki. Það þarf ekki langa rannsókn á þessu til þess að mynda sér skoðun á því.

Ég vil svo ljúka máli mínu á því að segja, að ég álít frv. þetta svo vel undirbúið, að það sé eðlilegt að afgr. það nú áður en Alþ. er frestað, og vil mæla með því, að það verði gert. En hinsvegar ef hv. þm. vilja fara nánar gegnum þennan kafla þess, sem um hefir verið rætt, mætti afgr. málið á mánudaginn, þannig að til þess að hv. þm. geti afgr. það með betri samvizku, geti þeir þá kallað þá menn á fund hingað í alþingishúsið, sem undirbúið hafa málið, til þess að athuga gögn þau viðkomandi þessu máli, sem liggja fyrir hendi, ef þess er óskað.