04.04.1940
Efri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

102. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

*Frsm. (Magnús Gíslason):

Mér þykir hlýða, af því að allshn. flytur þetta frv. og það er dálítið óvenjulega til komið, að gera grein fyrir því hér við 1. umr. þess.

Eins og tekið er fram í grg. frv., þá liggur nú fyrir Alþ. frv. til l. um breyt. á l. um varnir gegn kynsjúkdómum. Þetta mál hefir farið til allshn., og ástæðan, sem gefin er fyrir þessu frv. til l. um varnir gegn kynsjúkdómum, er sú, eins og skýrt er frá í grg. frv., að kynsjúkdómafaraldur gangi hér um bæinn og hætta sé á, að það aukist við það, að kvenmenn séu meira við Reykjavíkurhöfn en góðu hófi gegni, og að upptaka þeirra sjúkdóma sé að leita hjá erlendum sjómönnum, sem hingað komi. Og eins og grg. segir, er ráðið við þessu að banna kvenmönnum, sem ekki eiga brýnt erindi þangað, aðgang að höfninni frá kl. 8 árdegis til kl. 8 síðdegis.

Nú viðurkennir n. þá hættu, sem hér er á ferðinni, því að eins og kunnugt er, eru kynsjúkdómar mjög útbreiddir víða erlendis og hafa orðið hreinasta plága með sumum þjóðum. Hér á landi hafa ekki verið svo ýkjamikil brögð að þeim hingað til. Það ættu að viðurkennast allar skynsamlegar tilraunir til þess að losa íslenzku þjóðina við þessa plágu og til þess að draga úr þessari hættu.

Allshn. virtist skynsamlegra að hafa ekki það form á þessu, að flytja málið sem breyt. á l. um varnir gegn kynsjúkdómum, því að málið er þannig vaxið, að það heyrir undir l. um lögreglusamþykktir í bæjum, og framkvæmdir slíkar sem þær að banna einstaklingum umferð á vissum stöðum heyra undir lögreglusamþykktir bæjar- og sveitarstjórna.

Þessu frv. um varnir gegn kynsjúkdómum er ætlað að ná eingöngu til Reykjavíkur. En það getur einnig verið hætta á, að þessir sjúkdómar geti borizt til annara staða á landinu engu síður en til Reykjavíkur, eins og t. d. Siglufjarðar vissan tíma ársins. Það getur að vísu verið ástæða til þess að samþ. þetta, en það mun ekki þurfa lagabreyt. í þessu efni til þess að ná tilgangi frv. Í l. frá 1890 um lögreglusamþykktir fyrir kaupstaði er tekið fram, að bæjarstj. sé heimilt að setja reglur um almennt velsæmi á almannafæri. Og þær lýsingar, sem gefnar hafa verið af ástandinu hér við höfnina, benda til þess, að skortur sé á, að um almennt velsæmi sé að ræða. Þess vegna álít ég, að þegar sé í l. heimild til þess að setja slík ákvæði í lögreglusamþykktirnar. En til þess að taka af allan vafa um þetta og til þess að bæjar- og sveitarstj. þurfi ekki að óttast, að það séu ekki lagaheimildir til þessa, þá fannst n. rétt að leggja fyrir þingið frv. til l. um breyt. á l. nr. 1 3. jan. 1890, um lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina, þar sem bæjar- og sveitarstjórnum væri sérstaklega heimilað að setja reglur um eftirlit með samgöngum við óviðkomandi eða tortryggileg skip, þannig, að þetta ákvæði næði ekki aðeins til kvenfólks, heldur til allra, ef ástæður væru fyrir hendi til þess að banna slíka umferð. Með þessu er í raun og veru ekki lagt á móti tilgangi frv. á þskj. 163, heldur teljum við nauðsyn á að gera einhverjar slíkar ráðstafanir í þessu efni. En við teljum fyrirkomulagið heppilegra með því að hafa það í því formi, sem við leggjum til hér á þskj. 334.