15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

22. mál, skógrækt

*Sveinbjörn Högnason:

Við þm. Rang. eigum brtt. á þskj. 438 við 17. gr. þessa frv., sem er um það, hverjir eigi að annast dýraleitir og grenjavinnslur innan skógargirðinga. Þetta ákvæði 17. gr. er orðið til vegna ágreinings, sem verið hefir undanfarin ár milli Skógræktarinnar og eigenda Goðalands og Þórsmerkur. Mér vitanlega getur ekki verið um aðrar skógargirðingar að ræða, þar sem fjallskil eiga sér stað, svo að mér er óhætt að fullyrða, að 17. gr. er samin með tilliti til þessa ágreinings. Sömuleiðis er mér ekki kunnugt um, að grenjaleitir fari annarstaðar fram innan skógargirðinga. Þórsmörk og Goðaland eru geysistór svæði, eign Fljótshlíðinga og Eyfellinga og notuð sem afréttur fyrir þessi héruð. Þegar landeigendurnir afhentu þennan afrétt til skógræktar, settu þeir það skilyrði, að viðtakendur kæmu upp fjárheldum skógargirðingum. Nú hefir þetta skilyrði aldrei verið haldið af Skógræktarinnar hálfu. Það hefir aldrei verið hægt að gera fjárhelda girðingu um þetta svæði, bæði vegna þess hve þetta er hátt uppi í fjöllum, og yrði líka seinlegt og dýrt í framkvæmdinni. Einnig hefði þurft að girða yfir á, sem er vatnsmikil og hefir eyðilagt girðingar á hverju ári. Þessi vöntun á fjárheldum girðingum hefir haft það í för með sér, að fé hefir gengið óhindrað innan skógargirðinganna, þrátt fyrir það, þó að reynt hafi verið að verja hið girta svæði af hálfu Skógræktarinnar. Hvað afrétturinn er stór, má marka af því, að fjársöfnun er framkvæmd þar á hverju hausti af 10–12 mönnum í 3 daga. Hvergi á landinu, þar sem skógargirðingar er um að ræða, getur ákvæði 17. gr. skipt miklu máli nema á þessum tveimur stöðum. Þegar eigendur Þórsmarkar og Goðalands afhentu þetta land til skógræktar, þá var vitanlega um mikið tjón að ræða fyrir bændur, sem höfðu notað það sem beitiland fyrir búpening sinn. Það var líka eini möguleikinn fyrir þessa bændur til að geta haft aðgang að afrétti. Má fara nærri um, hve mikil óþægindi það hafa verið fyrir Fljótshlíðinga og Eyfellinga, þegar þetta land var tekið til skógræktar, og ekki síður vegna þess, að skilyrði þau, sem sett voru, hafa aldrei verið haldin. Í seinni tíð hefir Skógræktin reynt að koma kostnaðinum við fjallskil og grenjaleitir yfir á eigendur landsins, þó að hún hafi enga heimild haft til þess. Hefir Skógræktin freklega gengið á rétt landeigenda, og þar að auki ekki treyst sér til að koma upp fjárheldum girðingum. Ég þori að fullyrða, að ef leitt yrði í lög, að smölun innan skógargirðinga fari fram á kostnað landeigenda, þá verði tafarlaust tekin upp sú krafa á Skógræktina, að gera um Goðaland og Þórsmörk fjárheldar girðingar. Eftir að eigendur þessara ágætu landa hafa afhent þau til skógræktar og sýnt með því mikla fórnfýsi, á að svíkjast að þeim með löggjöf, sem skyldar þá til að greiða mörg hundruð krónur á hverju ári til að framkvæma það, sem Skógræktinni ber að gera.

Ég vil því mælast til þess, eingöngu vegna skógræktarinnar sjálfrar, að brtt. okkar á þskj. 438 verði samþ. Ég er sannfærður um, að ef hún nær ekki samþykki, muni fjáreigendur ekki sætta sig við að afhenda svo gott land og verða síðan að kosta smölun á fé sínu innan þess, þar sem Skógræktinni ber skylda til að byggja fjárheldar girðingar.