01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

16. mál, vegalög

*Þorsteinn Briem:

Í nál. á þskj. 216 hefir samgmn. komizt svo að orði, að hvert hérað, sem till. hafa komið frá um að taka vegi í þjóðvegatölu, hafi fengið einhverja lausn í till. n. Ég hygg, að það sé aðeins fyrir vangá n., að brtt. mín á þskj. 27 hefir ekki komizt inn í þá breytingartillagnaskrá, sem fylgir nál. Af þeirri ástæðu skal mér vera því ljúfara að taka aftur þessa brtt. mína til 3. umr. Brtt. mín hljóðar um það að taka upp í vegalög Salthólmavíkurveg.

Þessa brtt. tek ég aftur samkv. tilmælum hv. frsm., en aðeins í því trausti, að það hafi verið fyrir vangá n., að hún hefir ekki mælt með henni, en á hinn bóginn tekið upp vegi, þar sem líkt stendur á um. Þarna er ekki um stóran verzlunarstað að ræða, en þar er þó opin búð í hverri viku allt árið, og suma tíma ársins á hverjum degi. Umferð er þar allmikil, því að menn fara þangað oft á bílum og svo á ferju yfir Gilsfjörð til Króksfjarðarness. Vegurinn er því ekki eingöngu fyrir héraðsbúa, heldur einnig fyrir almenna ferðamenn, og á því vel við, að hann sé í þjóðvegatölu.

Ég vænti því, að hv. n. taki þessa till. til velviljaðrar athugunar fyrir 3. umr.