23.04.1940
Neðri deild: 50. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vil, áður en þetta frv. fer út úr hv. d., mótmæla þeirri aðferð, sem hér er viðhöfð af hálfu ríkisstj. um afgreiðslu mála á þessu þingi. Atvmrh.: Það er ekki seinna vænna). Það er ekki seinna vænna; það er alveg rétt hjá hæstv. atvmrh.

Það er meiningin, áður en þingið hefir gert nokkurn skapaðan hlut til þess að ráða fram úr þeim vandræðum, sem framundan eru fyrir almenning, að ganga þannig frá, að skera niður stórkostlega öll fjárframlög til verklegra framkvæmda í landinu og fjöldamörg framlög til sjóða og annars slíks, auk þessarar heimildar til þess að mega skera niður dýrtíðaruppbót, sem embættismenn og starfsmenn ríkisins eiga að fá.

Alþingi er sent heim án þess að hafa tekið fyrir nokkuð af þeim málum, sem alþýðan í landinu krefst, að tekin séu til afgreiðslu. Það liggja fyrir fjöldamargar óskir viðvíkjandi kaupgjaldsmálunum og öðru slíku. Þess hefir verið krafizt, að l., sem sett voru á síðasta þingi um kaupgjaldsmálin, yrði breytt. við þessu hefir verið daufheyrzt. Það hafa komið kröfur frá öllum mögulegum stöðum í landinu um það, að eitthvað yrði gert viðvíkjandi atvinnumöguleikunum — um það, að menn gætu haft einhvern möguleika til þess að hafa ofan af fyrir sér og geta haft meiri atvinnu heldur en fólk hefir haft undanfarið. Þessu hefir verið svarað af hálfu valdhafanna með því að segja, að þeir, sem ekki hefðu atvinnu í kaupstöðunt, gætu farið í sveit. En það hefir sýnt sig, að þar er engrar vinnu að vænta, sem geti bætt úr atvinnuleysi kaupstaðanna. Það liggja fyrir þær staðreyndir, að það þýðir ekkert að segja, að menn geti farið í sveit, þó að það geti verið „til hagræðis fyrir stærri bændur“, eins og einn framsóknarþm. skrifaði í Tímann nýlega. Það eru aðeins 200–300 menn, sem sveitirnar geta tekið við eftir skýrslu Búnaðarfél. Ísl. En þúsundir manna eru þó eftir í kaupstöðunum atvinnulausir, eins og t.d. byggingarmenn og verkamenn og aðrir slíkir. Alþ. hefir ekkert gert til þess að atvinna væri útveguð handa þessum mönnum. En ríkisstj. hefir aftur á móti verið heimilað að skera niður um 35% af ólögbundnum gjöldum ríkissjóðs. Það eru verklegu framkvæmdirnar. Síðan hefir því verið lýst yfir af fjmrh., að það sé alveg gefið, að þetta sé ekki nóg. Ég man eftir, að þegar þetta frv., sem nú á að fara að samþ., var lagt fram hér fyrst, þá sögðu þm., bæði úr Alþfl. og Sjálfstfl., að það næði ekki nokkurri átt að fara að samþ. slíkt. Nú eru þeir búnir að beygja sig svo, að þeir ætla að samþ. frv. án þess að nokkuð hall verið gert til þess að bæta úr atvinnuleysinu. Þáltill. hefir verið borin fram, sem fór þó ofur lítið í þessa átt, sem þm. Reykv. báru fram, en það var dregið úr henni í meðferð n., og mátti hún þó sízt við því. Eftir því sem útlitið er um innflutninginn og eftir þeim 1., sem hafa verið afgr., þá lítur ekki út fyrir, að bót sé á ráðin um innflutning á næstunni.

Það er auðséð, að Alþ. ætlar að skiljast við þau mál, sem þjóðin hafði þó búizt við, að það gerði ráðstafanir unt, án þess að ráða fram úr þeim. Togurunum hefir verið tryggt skattfrelsi og útsvarsfrelsi. Með þessu er séð unt, að togaraútgerðin fái allan stríðsgróðann, en ekki ríkið og ekki heldur bæjarfélögin verði hans aðnjótandi. Því hefir verið afstýrt, að togararnir færu i saltfisksveiðar eða hættu þann vinnumissi, sem verkalýðurinn hefir orðið fyrir af því að saltfisksveiðarnar hafa ekki verið stundaðar. Þannig hefir verið hindrað, að verkalýðurinn fengi atvinnu annaðhvort við saltfisksverkun eða vinnu, sem kemur í staðinn, sem haldið væri uppi af fé, sem tekið væri af ísfisksveiðunum. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að minnka vegavinnu og ríkisstj. hefir fengið heimild til þess að skera niður framlög til verklegra framkvæmda um 35%. Og það er nú verið að gera ráðstafanir til þess, að ennþá erfiðara verði síðar meir að bæta úr þeim húsnæðisvandræðum, sem hljóta að skapast við það, að lítið verður um byggingarefni á næstunni. Það er verið að auka þessi vandræði með því að minnka framlög til byggingarsjóða í sveitum og kaupstöðum og gera enn erfiðara fyrir unt að mæta þeirri kreppu, sem kann að skella yfir að stríðinu loknu. Þetta er gert af Framsfl. Framsfl. hefir hvað eftir annað hér á þingi borið fram till. um það, að leggja nýjar álögur á til þess að stofna nýja sjóði, en gengur nú fram fyrir skjöldu til þess að eyðileggja þá sjóði, sem fyrir eru, og skera niður framlög til þeirra sjóða, sem Framsfl. hefir verið að monta sig af að hafa komið í gegn, eins og til byggingarsjóðs fyrir sveitirnar og annað slíkt. Alþ. ætlar með afgreiðslu þessara mála algerlega að bregðast þeirri skyldu, sem á því hvílir, og ég sé líka á dagskránni fyrir Sþ., að það er ekki einu sinni meiningin að taka till. sósíalistaflokksmanna á dagskrá um ráðstafanir vegna núverandi styrjaldarástands. Það, sem mest er talað um í blöðum stjórnarfl., er það, hversu ægilegt ástandið sé framundan og hvað Alþ. þurfi að vinna mikið fyrir þjóðina. En á því er ekki snert hér. Þvert á móti er með þremur málum, sem keyrð eru gegnum þingið — þannig, að þau eru drifin í gegn með 3 umr. sama daginn — verið að minnka möguleikana, sem ríkið hefir til þess að einhverju leyti að létta undir með fólkinu og gera þess aðstæður bærilegri. Ég vil þess vegna óska þess og vona, að við afgreiðslu máls eins og hér er um að ræða, og þess, sem nú á að fara ganga til atkv. um, verði látið fara fram nafnakall. Það hefir komið fram sú skoðun frá ýmsum hv. þm., að það væri óforsvaranlegt að samþ. lagal. eins og það, sem nú liggur hér fyrir, og að það ætti að kalla sama þing, svo framarlega sem ríkisstj. áliti nauðsyn að grípa til annars eins og hér er farið fram á í þessu frv. Þegar nú ríkisstj. hefir áður verið gefin heimild til þess að skera niður upp undir 2 millj. kr. af fé til verklegra framkvæmda í landinu, og ef svo ríkisstj. þykir ástæða til þess að ganga lengra án þess að gera nokkuð til þess að bæta neitt úr fyrir alþýðunni, þá er ekki hægt að viðurkenna annað en að Alþ. verði að koma saman á ný til þess að gera slíkar ráðstafanir, ef það á annað borð á að vera í sölum Alþ., sem málin séu til lykta leidd. En það virðist stefna að því, að lausn vandamálanna fari ekki fram í sölum Alþ. Ef hv. þm. hefðu einhverja ábyrgðartilfinningu, þá get ég ekki annað séð en að þeir hefðu á móti öðru eins og þessu. Það hefir verið sagt af einum hv. þm., að ríkisstj. beri ábyrgð á þessu. En ríkisstj. ber ábyrgð fyrir Alþ., og Alþ. ber ábyrgð fyrir þjóðinni. En spursmálið er, hvað Alþ. ætlar að gera, hvort það ætlar að afhenda allt þetta vald í hendur ríkisstj. Ég vil þess vegna óska eftir því, að það komi greinilega fram við atkvgr. um þetta mál, hvernig hv. þm. greiða atkv., og vildi ég óska eftir, að hæstv. forseti vildi ganga inn á það að láta fara fram nafnakall um þetta mál. Því ella sæi ég mér ekki annað fært en að ræða þetta mál dálítið nánar.