08.04.1941
Efri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (407)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Jónas Jónsson:

Herra forseti! Ég er, eins og ég geri ráð fyrir, að við séum flestir, að miklu leyti samdóma hv. n. í þessu máli, en þó tel ég, að annmarkar séu á frv., sem e. t. v. verður nauðsynlegt að breyta við 3. umr., nema því aðeins, að hæstv. ríkisstj. vilji lýsa yfir því, að hún muni framkvæma 1. á þann hátt, að þessir ágallar komi ekki að sök.

Það er að sjálfsögðu gott að koma konum og börnum fyrir í sveit, en menn verða að athuga, að hér er um mörg þúsund manns að ræða, en mennirnir, sem að brottflutningnum starfa, eru viðvaningar og kunna lítið til þessara mála. Það er svo um barnaskólahús og fundahús til sveita, að þau eru oft ófullkomin. En nokkrir skóar landsins eru svo vandaðir, að það má ekki hleypa þangað stórum hópum af illa uppöldum unglingum og láta þá eyðileggja skólana með vondri umgengni. Slíkt væri vandalismi. Ég á aðallega við kvennaskólana á Hallormsstað, Laugum og Laugalandi. Það væri hægt að eyðileggja þá á einu sumri, ef farið væri hirðuleysislega með þá. Á Blönduósi er kvennaskóli, sem er eldri en þessir þrír, en hann er alnauðsynlegasta gistihús landsins og því óhugsandi að taka hann. Um Hallormsstaðaskóla er það að segja, að hann er eini samkomustaðurinn á stóru svæði, en þar er hins vegar tiltölulega lítið pláss, og mundi ekki muna mikið um hann til þeirrar notkunar, sem hér er um að ræða. Það þarf ekki að lýsa því hér, hvað sú kona, sem hefur forstöðu hans á hendi, hefur unnið þar snilldarlegt starf, og hvað öll umgengni er þar til fyrirmyndar. Sama er að segja um skólann á Laugum. Þar hefur Kristjana Pétursdóttir gert garðinn frægan og gert það litla hús að þeirri fyrirmynd, sem slík stofnun á að vera. Eins er á Laugalandi. Þessar stofnanir eru sómi fyrir landið og bera vott um þess hærri menningu. Það á ekki það sama við um ýmislegt, sem við karlmennirnir gerum. Okkar fundahúsum er oftast illa við haldið. Af skólum karlmannanna er það sérstaklega einn, sem skólastjórinn hefur reynt að fara álíka vel með og farið hefur verið með kvennaskólana, sem ég nefndi áðan, en það er Laugarvatnsskólinn. Einn af mönnunum, sem á að athuga um brottflutning barna úr bænum, sendi dónalegt og siðlaust skeyti til starfsmanns á Laugarvatni og spurði, hvað margir koddar væru þar til, hvað mörg rúm o. s. frv. Það nær ekki heldur neinni átt að taka eina staðinn, sem til er á Suðurlandi til fundahalda, námskeiða og til hressingar og heilsubótar.

Alveg eins og Reykholtsskólinn er , búinn að gera samning við Akurnesinga og Borgfirðinga um að taka við börnum þaðan, sem er mjög eðlileg ráðstöfun, þar sem sýslan hefur lagt fram mikið fé til skólans, yrði fólk við Ísafjarðardjúp mjög óánægt, ef sú skylda yrði lögð á Reykjanesskóla að taka við börnum almennt, því að náin samvinna er milli Ísafjarðarkaupstaðar og Reykjanesskóla.

Ég vil skjóta því til hæstv. forsrh., hvort hann treystir sér ekki til að lýsa yfir því, að þessir fjórir skólar, sem ég hef nefnt, verði ekki teknir leigunámi. Ef hæstv. ráðh. treystir sér ekki til þess, mun ég bera fram brtt. við 3. umr.