28.03.1941
Neðri deild: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

15. mál, hegningarlög

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Út af fyrirspurn hv. þm. Barð., þá hefur sú hlið málsins verið athuguð, hvort hegningarl., eins og þau eru nú, tækju yfir þennan lið frv., og ýmsir lögfræðingar álíta, að hegningarl. næðu yfir þá verknaði, sem hér eru taldir upp, jafnvel á þeim tímum, sem nú eru. En hins vegar eru menn ekki svo sammála, að ekki þótti rétt að hætta á það, en íslenzka ríkisstj. gæti tekið til sinna ráða, ef sá verknaður er framinn af hálfu Íslendinga, sem um getur í frv. Ég veit, að hv. þd. gerir sér ljóst, að á friðartímum mundi það vitanlega vera móðgun við erlenda herforingja, ef framin væri skemmd á eignum þeirra, sem þeir kynnu að eiga hér á landi, án þess að talað væri um landráð í því sambandi. En á slíkum tímum, sem nú eru, hlýtur íslenzka ríkið að taka í taumana, ef þetta kæmi fyrir. Eftir gömlu hegningarl. mundu íslenzkir dómstólar hegna fyrir þessa tilverknaði, sem hér um ræðir, með smávegis sektum, en það mundi leiða til þess, að hin erlenda herstjórn gripi til sinna ráða. Það er vitað mál, að erlendur her leyfir ekki, að móðgun sé framin gegn yfirmönnunum eða að eignir hans séu skemmdar, slitnir símaþræðir, vopnum stolið o. s. frv., sem refsað er svo með lítils háttar sektum. Þessi regla gildir í hvaða landi sem er. Íslendingar geta ekki varið sig með öðru en afskiptaleysi, og þess vegna eru það landráð að móðga erlenda herforingja og skemma eignir þeirra, enda getur það leitt til þess, að hið erlenda vald taki í sínar hendur eitt af því, sem okkur er viðkvæmast og mesta þýðingu hefur fyrir sjálfstæði ríkisins, en það er dómsvaldið. Við megum búast við því, að þessir menn séu teknir án dóms, fluttir burt og dæmdir fyrir erlendum herrétti. T. d. má geta þess, sem er ekkert launungarmál og öll þjóðin veit, að þegar tæki fundust hjá tveim Íslendingum og þeir grunaðir um að nota þau til að hafa fréttasamband við erlenda þjóð, þá var ekkert ákvæði í íslenzkum hegningarlögum, sem náðu yfir slíkt afbrot, enda fór svo, að þeir voru fluttir úr landi. Til þess að fyrirbyggja, að erlent hervald hrifsi í sínar hendur dómsmál þjóðarinnar, er nauðsynlegt að setja slík lög sem þessi. Ég vil taka það fram hér, að ríkisstj. hefur sett þessi l. án þess að óskað hafi verið eftir því af erlendri herstjórn, og vegna þess, að þau eru nauðsynleg sjálfstæði landsins. Þau eru trygging gegn því, að erlent vald seilist inn á framkvæmdavaldið, sem mundi óhjákvæmilega leiða til þess, að þjóðin tapaði hluta af sínu sjálfstæði. Ég vil jafnframt taka fram að mér hefur gefizt kostur á að sjá dóma, sem erlendis hafa verið dæmdir eftir lögum um svipuð atriði, og ég vildi óska þess, að ekki þurfi að láta íslenzka dómstóla kveða upp slíka dóma. Það er ekki heldur gert ráð fyrir því með þessum l., enda eru þau mjög væg, samanborið við l. um sama efni hjá öðrum herteknum þjóðum. Ríkisstj. þótti samt rétt að setja skýlaus ákvæði um þessi atriði, og hún væntir þess, að hv. þd. sé henni sammála. Ég álít, að það sé ávinningur fyrir Íslendinga sérstaklega, ef íslenzkir dómstólar hafa aðstöðu til að dæma í þessum málum, svo að ekki þurfi að flytja íslenzka borgara úr landi til að refsa þeim.