01.04.1942
Efri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég verð að segja það, að mér finnst töluvert kapp hlaupið í þetta mál af hálfu meiri hluta hv. n. Í stað þess, eins og ég fór fram á, að málið væri tekið af dagskrá, þá byrjar frsm. á að ræða málið algerlega og ætlar hreint og beint að knýja hæstv. forseta til þess að halda áfram umræðunni með því að byrja að ræða um málið. Það hefði vitanlega verið réttast af honum að segja af eða á um það strax, hvort hann vildi, að málið yrði tekið af dagskrá eða ekki. Svo held ég, satt að segja, að meiri hluti d. hefði átt að greiða atkv. um það, ef n. vildi ekki fallast á uppástungu þá, sem ég bar fram um að taka málin af dagskrá. 2. málið á dagskránni, sem aðalágreiningurinn er um, en ekki er beint til umr., er búið að vera 7 daga aðeins hér í þessari hv. d., og þá finnst mér, að mikið ofurkapp sé lagt á það mál, ef ekki má taka það af dagskrá nú, þegar þess er gætt, að báðir aðilarnir, sem talað hafa við n,, eru á móti því að samþ. þessi bæði frv. óbreytt. En því í ósköpunum má ekki reyna að fá samkomulag milli þessara aðila og þingsins til þess að komast niður á þá lausn málsins, sem allir geti sætt sig við, bæði þingið og sú stétt, sem á að beita þarna kúgunarl. Ég sé ekki, hvernig stendur á því, að ekki má fresta málinu um þennan eina dag. Það getur komið til umr. í Nd. strax eftir eina umr. hér, sem gæti farið fram strax eftir páskana. Og það þarf ekki að verða til þess að seinka málinu. Það hlýtur annað að liggja þarna bak við og sem ég held, að ætti að nema burt, til þess að hægt væri að fá eitthvert gott samkomulag í málinu. Ég vildi benda á, viðkomandi því, sem hv. frsm. sagði, að það mætti breyta frv. í Nd., að við vitum það, að það er viðkvæðið í deildunum, er málin hafa til umr. á eftir hinni d., að það megi ekki hreyfa við málunum, af því að það tefji svo málin að láta þau hrekjast á milli d. Og úr því að hv. frsm. er að væna mig um, að ég sé að gera þessa till. mína um að taka málin af dagskrá til þess að drepa þau, þá vil ég segja, að það er alls ekki rétt, og hv. frsm. hefur alls ekki leyfi til að bera mér það á brýn. Ég gæti þá alveg eins borið honum það á brýn, að hann vilji framgang málsins án breyt. móti vilja allrar læknastéttarinnar bara til þess að skapa úlfúð milli þeirra, sem eiga að veita, og þeirra, sem eiga að þiggja þessa hjálp. Þess vegna finnst mér ekki nema sjálfsögð liðkun í þessu máli að taka málin nú af dagskrá, og það því fremur, sem einn hv. nm. er ekki viðstaddur, nm., sem ég býst við, að muni hafa viljað hlusta á þau rök og taka til greina, sem komu fram frá báðum þessum aðilum, sem talað hafa við nokkra af nm. Og ef þessum nm. er ekki gefinn kostur á að kynna sér málið á þennan hátt, getur maður ekki haft nema umsögn annars málsparts í n., þess sem vill hafa frv. óbreytt samþ. út úr d., um það, hvað fram hefur farið á þessum nefndarfundum. Mér virðast því öll rök hníga að því, að málunum eigi að fresta þangað til n. er fullskipuð hér í hv. d., sem fjallaði um málið. Ég hygg, að a.m.k. allir þeir hv. þdm., sem vilja sýna nokkra sanngirni í þessu máli, hljóti að finna það, að þetta eru töluvert sterk rök fyrir því að fresta málunum um þennan eina þingdag getur maður sagt. Og það hefur annað eins skeð hér á hæstv. Alþ. eins og það, að það væri farið eftir óskum eins einstaks þm. um slíkt sem þetta. Og ég man bara ekki eftir því í háa herrans tíð, að mál hafi verið afgreitt svo, að neitað hafi verið að taka það af dagskrá, ef einhver þm. hefur óskað þess, til þess að hann gæti komið með brtt. við frv., og þegar frv. hefur ekki lengur verið fyrir d. heldur en hér er um að ræða. því að 1. umr. um seinna málið á dagskránni, sem aðalágreiningurinn er um, fór fram nákvæmlega fyrir einni viku.