22.01.1943
Neðri deild: 40. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (3214)

107. mál, sala á jarðeignum ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Í ræðu hv. þm. A.-Húnv. voru tvö atriði, sem ég vildi svara fáum orðum. Hann sagði, að ég hefði alla tíð barizt fyrir því, að ríkið eignaðist jarðir. Þetta er rétt. Ég man eftir fundi, sem haldinn var í Borgarfirði árið 1912, þar sem þeir töluðu Jón Þorláksson og Guðmundur Finnbogason. Þar hélt ég fast á þeirri stefnu, sem nú er viðurkennd orðin með l. um erfðaábúð og óðalsrétt, og deildi fast við þá. Á þeim fundi hafði ég aðeins einn mann með mér, Pál í Einarsnesi. En síðan hef ég oft mælt fyrir þessari stefnu á fundum og haft meiri hl. með mér. Og ég skal geta þess til dæmis um það, hve hugsunarhátturinn hefur breytzt í þessu efni, að einn af helztu stuðningsmönnum Sjálfstfl. í Mýrasýslu, sem var á fundinum 1912, notaði síðar meir tækifærið, sem lögin um erfðaábúð gáfu, til að selja jörð sína og tryggja syni sínum hana með erfðafestu. Þá er hitt atriðið. Hv. þm. sagði, að ég byggi í húsi, sem ég ætti sjálfur. En hvernig er það í ábúðarlöggjöfinni? Er ekki ætlazt til,, að bændur eigi sjálfir húsin, sem þeir búa í? Ég var leiguliði á jörð árin 1914–20, en á sama tíma bjó þessi hv. þm. sem sjálfseignarbóndi og býr einn. Ég tók við jörðinni, og hún bar eina kú og 40 kindur, en skilaði henni með 300 hesta túni og á annað hundrað fjár. Að öðru leyti þarf ég raunar ekki að svara persónulegum árásum hv. þm. á mig. Þó get ég ekki látið undir höfuð leggjast að gera athugasemd við það, er hann sagði, að við hv. þm. Mýr., sem erum í fasteignamatsn., hefðum samþ. lægsta fasteignamat, sem þekkist. Ég skal í þessu sambandi lesa upp tölur um fasteignamat þriggja jarða nú og áður. Fasteignamat á jörð hans sjálfs, Akri, nam 1820 kr. 186I, 6200 kr. 1921, 9200 kr. 1931 og 11200 kr. nú. Fasteignamat á Torfalæk nam 2900 kr. 1861, 8500 kr. 1921, 10800 kr. 1931 og 11600 kr. nú. Fasteignamat á Húnsstöðum nam 1000 kr. 1861, 5000 kr. 1921, 12500 kr. 1931 og 13400 kr. nú.

Langlægsta mat, sem þekkzt hefur, er framkvæmt nú, segir hv. þm.! Eftir þessu eru aðrar röksemdir hans. Þó sagði hv. þm. eitt, sem gefur von um, að hann geti vitkazt. Hann sagði, að voði væri fyrir dyrum, ef fasteignamat væri of hátt. Þó vildi hann láta hækka það, og jarðirnar hækka við sölur.

Hv. 7. þm. Reykv. sagði hér tvennt, sem ég sé ástæðu til að svara. Annað var það, að því hefði verið haldið fram hér, þegar l. um erfðaábúð og óðalsrétt voru til meðferðar, að erfðaábúðin skapaði bændunum með sölunni fé, sem þeir gætu varið til umbóta á jörðunum. Þetta er alrangt. Í þingtíðindum er ekki eina línu að finna til staðfestingar þessu. Hins vegar var því haldið fram, að erfðaábúðin skapaði bændum betri leigukjör og betri möguleika til að bæta jarðir sínar. Þá komst hv. þm. í deilu við hv. 2. þm. Reykv. og veitti þar vitneskju, sem mér finnst merkileg og þykir lýsa hans flokki vel. Hann sagði, að styrkir þeir, sem bændur hefðu fengið, hefðu verið veittir í því skyni að gera þá sem lítilmótlegasta og sem háðasta ríkinu. Nú hefur Sjálfstfl. eitt sinn flutt till. um styrk til bænda til síldarmjölskaupa á síðastl. sumri. Hv. þm. hefur þá skýrt, hvaða hvatir lágu á bal: við þetta hjá flokknum, sem sé þær að gera bændur sem lítilmótlegasta og sem háðasta styrkveitanda. Mér kom ekki til hugar þá, að þetta væru hvatirnar, en þetta er ný vitneskja, sem sýnir mér Sjálfstfl. í nýju ljósi. Nú skil ég líka styrki þá, er flokkurinn vill veita til bátabygginga. Það á að vera til að ánetja þá flokknum. Ég hef hins vegar staðið að ýmsum till. til styrktar landbúnaðinum af skilningi á nauðsyn þess að halda þessum atvinnuvegi á floti. Þó er gleðilegt, að Sjálfstfl. hefur vitkazt svo, að hann er farinn að sjá, hvað heppilegast er í þessu efni fyrir bæ hans, Rvík. Nú eru 11 ár síðan ég átti í harðri deilu við Jón Þorláksson um það, hvort selja ætti lóðirnar við höfnina. Hann sagði, að það væri sjálfsagt. Nú mun enginn af ráðamönnum Sjálfstfl. halda slíku fram. Nú ætlar bærinn meira að segja að fara að reka Björn í Grafarholti burt, og hv. 7. þm. Reykv. lýsir yfir því, að ástæðan sé nú, að bæjarmenn í heild þurfi á landinu að halda. Bærinn ætlar sem sé að nota landið sem sameign. Þeir sjálfstæðismenn eru farnir að sjá sannleikann innan síns þrönga hrings, en þeir eru blindir, þegar út fyrir hann kemur. En ég veit, að eftir svo sem 11 ár getum við fallizt í faðma um nauðsyn þess, að landið eigi sem mest af jörðum til að fyrirbyggja óeðlilega verðhækkun og sívaxandi skattabyrði ábúenda.