27.11.1942
Efri deild: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (3331)

13. mál, vegalög

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Með l. frá 1933 var tekinn í þjóðvegatölu vegurinn frá Patreksfirði til Bíldudals yfir tvær heiðar, þ.e. Mikladal og Hálfdan. Á þessum árum hefur aðeins verið lokið við veginn yfir Mikladal, sem er 7 km, þó aðeins þannig, að unnt er að skríða hann á bílum.

Árið 1936 er með l. gert ráð fyrir, að í þjóðvegatölu komi vegur frá Mikladal að Haga á Barðaströnd, sem er 201/2 km á lengd. En eftir nákvæma rannsókn, fyrst í hraði og síðan af vegamálastjóra, hefur komið í ljós, að þetta er óheppileg leið fyrir akveg og heppilegra sé að láta Barðastrandarveginn koma inn með Patreksfirði yfir Kleifaheiði og inn Barðaströndina að Haga, þetta er allt 31 km. Eftir kröfu sýslunefndar hefur svo vegamálastjóri vikið hér til áætluninni um vegarlagninguna og látið hefja vegargerð inn með Patreksfirði. Er búið að gera þar 7 km langan veg. 1. gr. þessa frv. fer fram á, að vegal. verði breytt til samræmis við það, sem verið er hér að framkvæma, og er því ekki hér um að ræða að taka neinn nýjan veg í þjóðvegatölu, heldur aðeins um breyt. til samræmis.

Þá hefur einnig með l. verið tekinn í þjóðvegatölu vegur frá Haga að Brjánslæk (Brjánslækjarvegur). Þótti vegamálastjóra hentugt og rétt að samræma þetta allt með þessari breyt. á vegal. Enda er það svo sjálfsagt mál, að þessi leiðrétting sé gerð og málið þannig fært í eðlilegt horf, að ég þarf ekki að fjölyrða um það frekar.

A-liður 2. gr. frv. er nýr liður. Er þar lagt til, að í þjóðvegatölu sé tekinn vegur frá Bíldudal um Suðurfirði að Brjánslæk. Þegar ákvörðun sú, sem ég ræddi um í upphafi, var tekin, var gert ráð fyrir því, að Arnarfjörður hefði samband við Barðaströnd og Suðurlandsbraut eftir þeim vegi, sem þar var tekinn í þjóðvegatölu. En þegar þeirri leið er síðan breytt, eftir till. vegamálastjóra, lengist hún mikið og breytist þannig, að fara yrði yfir þrjár heiðar til þess að komast á Suðurlandsbrautina, en það yrði til þess að útiloka Arnarfjörð frá eðlilegu sambandi við vegakerfi landsins. Sú leið, sem hér er gert ráð fyrir, að tekin verði upp, hefur þann kost, að ekki er nema eina heiði yfir að fara til þess að komast , á aðalbrautina — til Suðurlandsins, sem þá og stendur í sambandi við flutningaleiðina sjóveg yfir Breiðafjörð til Stykkishólms. Skiptast þá leiðirnar þannig á Brjánslæk, að önnur færi út Barðaströndina áleiðis til Rauðasands og Patreksfjarðar, en hin beint yfir heiðina um Suðurfirði til Bíldudals. Og þetta er eðlilegast.

Um b-lið 2. gr. er það að segja, að hér er einnig um nýjan veg að ræða frá Bíldudal að Bakka í Dalahreppi. Ég hef ekki farið fram á, að annað eða meira væri tekið í þjóðvegatölu af vegum í Dalahreppi, en ég tel, að það sé óhjákvæmilegt, að einmitt þessi hluti hans sé tekinn þar með. Dalahreppur er nú einangraður frá öllu vegakerfi og er í raun og veruf hvorki í sambandi við samgöngur á landi eða sjó. Því að beri eitthvað út af með veður, er þar ekki lendandi í neinni vör. Kaupfélagið, sem er eina verzlun hreppsbúa, á jafnan á hættu að koma hvorki vörum frá sér né að, og var t.d. á síðasta hausti hætta á, að öll framleiðsla bænda þar yrði ónýt vegna þessarar einangrunar sveitarinnar í samgöngumálum, því að í þrjá daga samfleytt var ekki hægt að flytja kjöt til frystihúss, sem einungis varð að flytja sjóleiðina, af því að landleiðin er lokuð vegna vegarleysis.

Í c-lið 2. gr. frv. er um 400 metra veg að ræða frá aðalveginum, Geiradalsvegi, að verzlunarstaðnum í Króksfjarðarnesi. Geiradalshreppur er fámennur,. í honum eru 13 bæir, og hann mun ekki geta staðið sjálfur undir þeim kostnaði, sem þessi vegarlagning mundi hafa í för með sér, en sá kostnaður mun vera um 10 þús. kr. eftir áætlun vegamálastjóra. Hins vegar er Króksfjarðarnes eini staðurinn, þar sem hægt er fyrir íbúana í þessum hreppi að koma frá sér vörum, ef senda á þær sjóleiðis. Þess vegna er nauðsynlegt að leggja þennan veg sem fyrst.

Þá hef ég einnig tekið upp stærra nýmæli, sem er vegurinn frá Brjánslæk póstleiðina að Kollabúðum í Þorskafirði. Þetta er stærsti og dýrasti kaflinn af þeim vegum, sem frv. fjallar um. En svo er ástatt með þessa sýslu, Barðastrandarsýslu, að hún er algerlega útilokuð frá aðal-vegakerfi landsins og því bráðnauðsynlegt að tengja hana með þessum vegi frá Brjánslæk að Þorskafirði við aðal-vegasambandið, sem nú er þegar komið í samband við Þorskafjörð. Þessi vegur, sem nú er póstleið, er fjallvegur og þarf því að komast í þjóðvegatölu. Hrepparnir Gufudalshreppur og Múlahreppur eru þannig settir nú, að þeir eru innilokaðir og út úr öllum samgöngum bæði á sjó og landi. Verður þessum hreppum því ekki með nokkurri sanngirni neitað lengur um þessar nauðsynlegu samgöngubætur.

Í gær hlustaði ég á umr. um vegamál í hv. Nd.

Þar kom það skýrt fram, sem haldið hefur verið fram af vegamálastjóra, að það sé rétt og nauðsynlegt að flokka vegina um landið meira en gert hefur verið, og kemur það að sjálfsögðu til athugunar hjá þeim nefndum, sem með þau mál hafa að gera hér á Alþ.: samgmn. d. Fellst ég persónulega á þá tilhögun, að teknar væri í 1. flokk aðalbrautir, er tengja saman héruð, og siðan í 2. flokk brautir, er tengja hreppa við vegakerfi landsins. Kæmi þá þessi vegur frá Brjánslæk að Þorskafirði undir 1. fl. Vildi ég beina því til þeirra n., sem fara með samgöngumálin, hvort ekki væri rétt að taka meira tillit til þeirrar reglu, sem vegamálastjóri hefur bent á og ég nú gat um, en fara hins vegar síður eftir því einu um vegamálin, hvað hart er sótt af hverjum þm. að fram nái að ganga á Alþ. Því að óneitanlega hefur það miklu ráðið um vegina í strjálbýlinu undanfarið, hve fast hefur verið fylgt eftir af þm. um framkvæmdir í þeim efnum. Aðeins 7 km langur vegur er nú lagður eða ruddur í þeirri sýslu, sem ég hef með þessu frv. lagt til, að lagðir verði vegir um, sem sýnir, að þessi sýsla hefur orðið gersamlega út undan um allt, sem lýtur að vegabótum á undanförnum árum. Þó hefur þessi sýsla greitt stórkostlegt fé í ríkissjóð. Má í því sambandi m.a. benda á sem dæmi, að á aðra millj. kr. hefur verið greitt í ríkissjóð í stríðsgróðaskatt af aðeins tveimur gjaldendum í sýslunni. Þess er því vænzt af sýslubúum. sem nú leggja svo drjúgan skatt í ríkissjóðinn, að þeir fái einhvern hluta af honum endurgreiddan til vegamála, svo að héraðsbúar séu ekki alveg eins berskjaldaðir fyrir þeim erfiðleikum, sem steðja að, þegar afturkastið kemur í atvinnulífinu.

Vil ég svo leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og samgmn., sem þá sennilega ræðir við hv. samgmn. Nd. Vona ég, að hv. n. taki þessu máli með sanngirni og veiti því fylgi gegnum þessa hv. d.