23.11.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (2958)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla aðeins að fara nokkrum orðum um málið. Þál., sem lá fyrir þinginu 1941, var afgr. með rökstuddri dagskrá, sem náði samþykki þingsins. Meiri hluti þingmanna sá ekki ástæðu til, að ráðizt væri í kaup á hlutabréfum bankans. Hagur bankans var mjög batnandi. Því hefur verið lýst yfir, að athugun hafi farið fram á hag bankans. Eins og sakir standa er hagur og ástand bankans miklu betra nú en þá. Hlutabréfin eru miklu meira en nafnvirði. Verðið hefur hækkað vegna hinnar miklu verðhækkunar, sem nú er. Lagðar hafa verið fyrir vegna skuldatapa um 3 milljónir kr., og því er haldið fram, að ekki sé mikil hætta á skuldatöpum fyrir bankann. Húseignir örlátt metnar og stórfé í gengissjóði örugg eign. Það virðist ekki ósanngjarnt, ef kaupa á hlutabréf bankans, að gefa fyrir þau meira en nafnverð, og mundi láta nærri, að rétt væri, að það yrði um 125% eða 25% fram yfir nafnverð. Nú var því þannig varið samkv. síðasta reikningi bankans, að lagt var fyrir til næsta árs, eftir að þessi frádráttur fór fram, sem ég minntist á, — og eftir að stjórnin var búin að gefa nokkuð af nettóhagnaðinum, hversu rétt það er samkv. samþykktum um bankann, skal ég ekki deila um á þessum stað, — þá er fært yfir sem svarar á 3. af hundraði af allri hlutafjáreign, sem bankinn samanstendur af, en það eru rúmar 7 millj. kr. Auðvitað bar að greiða hluthöfum þennan yfirfærða arð. Og með áframhaldandi hækkandi hag bankans er auðséð, að ekki verður hjá því komizt að greiða hluthöfum arð, svo að þessi bréf hljóta að verða arðvænleg eign. Og þegar ekki var talin ástæða til þess á þrengingatímum að rétta hluthöfum hönd í þessu efni, þá tel ég ekki ástæðu til að skjótast nú fram fyrir merki til þess að ná í þessi bréf fyrir lágt verð tiltölulega — og jafnvel til gráða fyrir ríkissjóð, eins og haldið hefur verið fram hér undir umr., að ætti að stefna að. Ég held því fram, að heppilegasta niðurstaðan í þessu máli sé sú að samþ. heimild fyrir bankann sjálfan til þess að leysa inn þessi bréf, eftir því sem honum sýnist. Og þá getur hann greitt hærra en nafnverð fyrir bréfin. Ég held, að þetta væri heppilegra en hitt, að ríkið færi að hefjast handa um þetta og gefa út skuldabréf. Því að ég sé ekki annað en nóg gjöld steðji að fyrir ríkissjóð að inna af hendi, án þess að fara þurfi að bæta þessu ofan á. Og yfirleitt er vafamál, hvort þjóðinni er það heillavænlegra, að ríkið blandi sér í rekstur hlutafélaga og gerist þar hluthafi meir en nauðsyn krefur.