05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta er nú í annað skiptið, sem þetta frv. er borið fram hér á Alþ., en satt að segja sé ég ekki, að það nái raunverulega neinum tilgangi, þótt samþ. yrði.

Í 1. gr. frumv. er talað um, að fara skuli fram samkeppni um hugmyndir, ef ráðh. eða þeim, sem verkið lætur framkvæma, þykir ástæða til. Það er algerlega lagt á vald ráðh. eða þeirra sveitarfélaga, sem ætla að láta byggja, hvort þeir láta slíka samkeppni fara fram eða ekki. Ég held því, að þetta gæti aldrei orðið til þess að þoka málinu áfram og yrði ekki til annars en að ákveða, hverjir skuli vera í dómnefnd á hverjum tíma, og ég efast um, að það væri heppilegt, að Alþ. ákveði það í eitt skipti fyrir öll. Það getur hver ráðh. látið vera að bjóða út nokkuð af þessum mannvirkjum, svo að frv. eins og það liggur fyrir getur aldrei orðið annað en einber hégómi.

Ég held, að menntmn. ætti að athuga þessa hlið málsins. Ef það er meining Alþ., sem virðist vera, að setja eigi fastar reglur um það að bjóða út eða hafa samkeppni um slík verkefni, þegar byggð eru stór mannvirki, er sjálfsagt að lögfesta það alveg, en leggja það ekki á vald ráðh. á hverjum tíma. Þá kemur líka fram þingviljinn, hvort eigi að hafa það svo.

Í sambandi við þá samkeppni, sem farið hefur hér fram, vil ég benda á, að þegar samkeppni fór fram um síldarverksmiðjur ríkisins, var það formaðurinn fyrir síldarverksmiðjunum, maður starfandi hjá ríkinu, sem hreppti verðlaunin. Ef það er tilgangur frv. að láta húsameistara á ýmsum tímum fá sérstök laun fyrir að taka þátt í samkeppni, þá væri þessu máli bezt borgið á þann veg, að launin séu hækkuð við þessa menn, en ekki sé verið að fara neinar krókaleiðir.

Þá vil ég víkja að öðru atriði, sem á sér stað í sambandi við samkeppni yfirleitt. Það er, að verið er að gefa mörgum mönnum góðar vonir um að ná í þennan pening, mönnum, sem leggja í það mikla vinnu og fá máske ekkert fyrir. Það er ekki lítil vinna, sem þannig er oft á glæ kastað. — Ég vil benda á, að þetta frv. miðar heldur ekki að því að koma þessu atriði í fast horf.