17.12.1945
Efri deild: 50. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

144. mál, Austurvegur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir ekki óeðlilegt, þó að hv. 2. þm. Árn. hafi borið fram þetta frv., því að eins og hann segir, eru sterk rök, sem mæla með, að frv. sé borið fram. Eins og hann hefur tekið fram, er hvergi vikið frá þeim till., sem fram koma í nál. Málið hefur verið rannsakað af n., sem þar til var kjörin og skipuð var annars vegar sérfróðum mönnum og hins vegar pólitískum hagsmunamönnum, svo að það virðist, sem málinu ætti að vera fullkomlega bjargað í höndum þessara aðila. Samt er það nú svo, að fyrir augum leikmanna á þessu sviði virðist, að málið þurfi miklu betri undirbúning en enn er orðið hjá þessum mönnum. Skal ég þá fyrst fara nokkuð út í það.

Fyrst er hér gert ráð fyrir að fara nýja leið í gegnum Þrengslin. Um þessa leið hefur verið deilt hér á þingi mikið áður, og virðist hún nú ætla að sigra í þessari baráttu um, hvar vegurinn eigi að liggja austur yfir fjall eða milli þessara tveggja byggða, Reykjavíkur og austurláglendisins. Það bendir þá til þess, að þeir hafi haft rétt fyrir sér, sem vildu hafa þessa leið í upphafi. En eftir að komið er yfir mestu snjóþyngslin og erfiðleikana á fjallinu, þá er ekki gert ráð fyrir að halda inn á þjóðveginn, sem nú er, heldur fara út af honum og yfir foræðin í Ölfusinu til Selfoss. Nú er upplýst, að þarna er víða a. m. k. sex metra dýpi og aðeins fúamýri og alveg órannsakað, hvort þar er nokkuð fremur botn en í síkinu við Hvítá, sem hefur kostað ríkið mörg hundruð þúsund fram yfir það, sem áætlað var, og ef jarðvegurinn á þessu 2–3 km svæði yrði eins og síkið hjá Ferjukoti, þá þyrfti að þrefalda þessa upphæð eða meira. Sé kastað svona höndunum til undirbúnings málsins á öllum sviðum, þá er ekki undarlegt, þó að menn vilji líta í kringum sig, áður en gengið er frá frv.

Ég viðurkenni, að það er mikil nauðsyn fyrir þá, sem búa austan fjalls, að fá sem öruggasta leið yfir fjallið. En það getur ekki verið, að það sé jafnmikil nauðsyn að gera nýjan veg austur yfir Ölfusið, sem hlýtur að kosta mikið fé. Mér vitanlega hefur aldrei komið fram, að erfiðleikar væru að komast frá Hveragerði austur að Ölfusá og ekki heldur frá Hjalla að Ölfusá, svo að það hlýtur að liggja eitthvað annað til grundvallar fyrir, að eigi að eyða milljónum í að byggja þennan veg og nota ekki þann, sem fyrir er. Ég vænti þess fyllilega, að samgmn., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi þetta gaumgæfilega og breyti frv. a. m. k. á þann hátt, að vegurinn verði ekki lagður lengra en niður af fjallinu fyrst um sinn og nota svo gamla veginn, eins og hann liggur fyrir, með þeim endurbótum, sem þarf þar að gera.

Mér þykir einkennilegt að sjá samanburðinn hér á því, hvað kosti að leggja þennan veg austur á móts við það, hvað kostar að leggja hann yfir Hellisheiði. Það virðist, eftir því sem kemur fram í nál. á blaðsíðu 17, að það kosti 9,6 millj. að leggja nýjan malarveg með því að fara þá leið frá Lækjarbotnum austur í Ölfus, sem nú er þegar lögð, en ef á að gera nýja leið um Þrengslin, þar sem enginn vegur er fyrir, þá á það að kosta 7,2 millj. kr., svo að með þessu virðist upplýst frá vegamálastjóra, að allt, sem hefur verið lagt í leiðina frá Lækjarbotnum austur í Ölfus, sé verr en ekki gert, því að varla verður það skilið öðruvísi en að það sé hvergi hægt að hafa nokkra stoð af þeim vegi, sem fyrir er. Og ef það skyldi vera rétt, þá vil ég ekki gleypa, eins og þorskur gleypir agn, þá áætlun, sem hér liggur fyrir frá þessum manni. Mér finnst þetta benda mjög til þess, að þessi mál þurfi gagngerðrar athugunar við á ný, því að eftir því sem hér kemur fram, verður rúmum tveim millj. ódýrara að leggja nýjan veg yfir Þrengslin en að endurbæta þann gamla svo, að hann verði jafngóður og nýr vegur.

Þá vil ég í þriðja lagi benda á, að þær niðurstöður, sem þessir menn komast að, eru einhverjar þær fáránlegustu, sem ég hef séð. Í fyrsta lagi leggja þeir mikla áherzlu á, að setja verði rúmar 22 millj. í þennan veg og að það verði gert á 6 árum, og þeir leggja svo mikla áherzlu á þetta, að lagt er til, að 3,7 millj. verði teknar upp á fjárl. fyrir 1946, þó að málið sé ekki komið í gegnum þingið eða frekari rannsókn hafi farið fram, vitandi það, að vegamálastjóri hefur ekki tekið þessa fjárhæð upp í till. sínar um fjárveitingar til vega í fjárl. næsta árs. En þegar búið er að setja þessa till. ófrávíkjanlega fram, þá er sett fram önnur till., að meðan sé verið að byggja þetta mannvirki, þá skuli leggja allt kapp á að ljúka þeim vegi, sem kallaður er Selvogsvegur, og ekki einasta það, heldur einnig, að á sama tíma verði Þingvallaleiðin endurbætt. Mér er óskiljanlegt, hvernig n., sem er skipuð jafnágætum mönnum, getur látið fara frá sér slíkt plagg. Þeir leggja fyrst til að henda milljónum króna í tvær leiðir, sem fyrir eru, til að ljúka þeim á sama tíma og enn fleiri millj. eiga að fara í þriðja veginn. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þegar samgmn. tekur þetta mál til meðferðar, þá starblíni hún ekki á þennan einasta veg á landinu. Hún getur ekki lagt til, að þetta frv. verði samþ., nema reynt sé um leið að uppfylla á sama hátt kröfur frá öðrum héruðum, sem að sjálfsögðu eiga eins mikinn, ef ekki meiri rétt til samgöngubóta en þessi. Hér er þó um að ræða veg, sem hægt er að fara og á að ljúka samkvæmt till. þessara manna, sem sé öryggisvegur, þegar snjór er á fjallinu, og þá séð fyrir flutningum vetur og sumar, meðan önnur héruð hafa engan veg, ekki einu sinni sem hægt er að koma hjólbörum eftir. Taki Alþingi þá röggsemi á sig að samþ. þetta frv. og ákveða, að stj. sé heimilt að taka 22 millj. kr. lán til framkvæmdanna eða allt að því, þá finnst mér, að á sama tíma og þeir binda sig þeim bagga, verði þeir einnig að leysa samgöngumál annarra héraða, ekki eingöngu vegamál, heldur einnig brúamál. Ég vil líka minna á, að í þessari till. er gert ráð fyrir að leggja fé í nýjar brýr, sem eru allt að 14 metra langar, þó að önnur brú sé þar í minna en eins km. fjarlægð, meðan neitað er um fé til brúa annars staðar, þar sem menn eru skildir sundur frá öðrum héruðum, af því að fé fæst ekki til að byggja þar brýr.

Mér hefur þótt rétt að láta þetta koma fram til leiðbeiningar fyrir n., því að hvað sem mþn. líður, þá getur samgmn. ekki afgr. málið nema með tilliti til annarra þarfa, sem eiga sér eins mikinn rétt, ef ekki meiri.