11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

16. mál, fjárlög 1946

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Heiðruðu tilheyrendur. Það mun sjaldan hafa þekkzt aumari frammistaða hjá stjórnarandstæðingum en sú, sem Hermann Jónasson sýndi í gærkvöldi, jafnvel enn aumari en efni stóðu til. Er þó málstaður Framsóknar alveg sérstaklega illur nú, er hún velur sér það hlutskipti að reyna að draga kjark úr landsmönnum einmitt þegar þeir þurfa hvað mest á djörfunginni að halda. En mótsagnakenndari árásir á ríkisstj. en þær, sem Hermann Jónasson og Co. tvinnaði saman, er varla hægt að hugsa sér. Í einu orðinu segir Hermann, að nýsköpunin sé ekkert nema skýjaborgir, hún sé bara pappírsnýsköpun og verði aldrei meira. Í næstu setningu segir hann, að stjórnin sé að framkvæma nýsköpunina og það með slíkum krafti, að það valdi ofþenslu í atvinnulífinu, þessi framkvæmd sé bókstaflega stórhættuleg. Þá virtist hann vera kominn á Vísislínuna alkunnu, að framkvæmd nýsköpunarinnar sé glæpur, landráð og svikráð við þjóðina. En í þriðju setningunni er Hermann allt í einu búinn að bylta öllu við: þá er nýsköpunin hvorki skýjaborgir né glæpur, þá er hún Framsóknarfrumburður, sem Hermann hefur velþóknun á, og sjá, Hermann hefur sjálfur hinar fegurstu fimm ára áætlanir til þess að framkvæma. Það er ekki þægilegt fyrir Hermann Jónasson að vera í senn svartasta afturhald landsins og þurfa svo öðru hvoru að sýnast róttækur til þess að glata ekki síðustu leifunum af fylgi sínu og veifa þá framan í fólkið sömu hugsjónunum og hann bannfærir í hinu orðinu.

Hermann Jónasson og Framsfl. hafa haft eitt tækifæri til þess að taka þátt í nýsköpunarstjórn þjóðarinnar. Þeir slepptu því tækifæri, af því að þessir kumpánar bjuggust við að geta eyðilagt stjórnarmyndunina og nýsköpunina alveg. Hermann Jónasson og Framsfl. hafa síðan haft tækifæri til þess að vinna að framkvæmd nýsköpunarinnar sem hverjir aðrir íslenzkir borgarar. Þeir eru svo sem hvorki valdalausir vesalingar, umkomulausir fátæklingar né fjárlausir, þessir herrar, þó að ekki sitji þeir í ríkisstj. En þeir hafa engan lit sýnt á því að taka samsvarandi þátt í nýsköpuninni eins og aðrir borgarar þessa lands: atvinnurekendur, verkamenn og bændur. Hið volduga og ríka S.Í.S., er þeir stjórna, hefur verið allra stórfyrirtækja smávirkast um nýsköpunina. Landsbankastjórinn, sem flokkur þeirra á, hefur verið manna fjandsamlegastur nýsköpuninni, og blað þeirra, Tíminn, hefur svo gersamlega afhjúpað hatur sitt við nýsköpunina, að hann hefur meira að segja ekki getað dulið gleði sína, er slys hefur komið fyrir eins og það, að nýbyggt skip hefur sokkið. Hermanni Jónassyni þýðir ekkert að reyna að breiða með lýðskrumi og fögrum loforðum yfir afturhaldseðli sitt. Fólkið sér í gegnum þá sauðargæru hans, hún er orðin svo gatslitin af langri og freklegri brúkun. Nazisminn í Þýzkalandi gat reynt svoleiðis aðfarir, þegar Hermann var niðri í Köpenick að lesa, hvernig berja skyldi á verkamönnum. En síðan er alþýðan búin að sjá, hvað undir slíku lýðskrumi afturhaldsins býr, og farin að vara sig. Og allra sízt mun þó þjóðin taka fimm ára áætlanir hans um nýsköpun alvarlega, þótt hann veifi þeim í vinstri hendinni, þegar hún horfir á hann stinga Jóni Árnasyni, svarnasta andstæðingi nýsköpunarstefnunnar, í bankastjórn Landsbankans með þeirri hægri til þess að berjast á móti nýsköpuninni. Íslenzka þjóðin þekkir aðeins eina 5 ára áætlun Hermanns Jónassonar, og við þá áætlun hélt hann líka fast í gærkvöld. Sú 5 ára áætlun var eini fasti punkturinn, þegar þessi þekkti fimleikamaður var að sýna listir sínar í því að fara í gegnum sjálfan sig. 1941 gerði Hermann Jónasson eina áætlun : Kaup hins fátæka manns skal lækka eða því a. m. k. haldið niðri. Í ársbyrjun 1942 byrjaði svo Hermann Jónasson framkvæmdir á þessari áætlun. Kauphækkanir bannaðar með l., verkamenn sviptir samningsfrelsi og byrjað að tryggja stríðsgróðamönnum meiri gróða en nokkru sinni fyrr. Hermann Jónasson sagði síðar á því ári, að þessi áætlun hefði mistekizt, vegna þess að Sjálfstfl. hefði runnið frá því að framkvæma hin ágætu gerðardómsl. Árið 1943 segir Hermann Jónasson allt vera komið í öngþveiti, vegna þess að hans stórkostlega áætlun hafi ekki verið framkvæmd. Og allt er þetta því að kenna, að íhaldið rann frá því að framkvæma gerðardómsl. Árið 1944 segir Hermann Jónasson : Stöðvun, hrun, vegna þess að íhaldið þorði ekki að berja verkalýðinn niður með mér og framkvæma áætlun mína. 1945 segir Hermann Jónasson : Hrunið er komið. Allt er þetta vegna þess, að ekki var farið að mínum ágætu ráðum og framkvæmd gerðardómsl., þrælal. Áætlunin hans Hermanns Jónassonar er því orðin 5 ára gömul. Og hve fögur og fyrirheitarík er hún ekki! Er hún ekki lifandi eftirmynd skapara síns? Hrokinn, ofbeldislöngunin, rangsleitnin, allt einkennir þetta 5 ára áætlun Hermanns Jónassonar, sem honum tókst ekki að framkvæma. Þjóðin þekkir því hina einu sönnu 5 ára áætlun Hermanns Jónassonar, og hún mun aldrei gefa honum tækifæri til að framkvæma þá 5 ára áætlun kúgunarinnar, kauplækkunarinnar og þrældómsins. Því að hver yrði framkvæmd þeirrar 5 ára áætlunar? Hún liggur í augum uppi: Harðvítugasta barátta innan þjóðar vorrar milli verkamanna og atvinnurekenda, svo harðvítug, að þjóðfélaginu stafaði stórhætta af. Við skulum láta Hermann Jónasson sjálfan dæma um þennan verknað að kljúfa þannig þjóðina og æsa stéttir hennar til hatrömmustu baráttu. Hermann Jónasson sagði í gærkvöld : Hver þjóð, sem lætur kljúfa sig í sundur, tortímir sér. Hv. þm. minntist meira að segja á kvislinga í sambandi við slíkan verknað. En hvert var verkið, sem Hermann Jónasson var að reyna að framkvæma, eina verkið, sem hann hefur haldið fast við að reyna að framkvæma í 5 ár: Það er að kljúfa þjóðina í sundur í tvær hatrammar fylkingar, sem berist á banaspjót, þó að það kosti það, að frelsi hennar og efnahagsleg afkoma glatist. Hvaða mark verðskulda slíkir menn eftir orðum Hermanns Jónassonar? Og svo klykkir þessi frumkvöðull 5 ára áætlunar hermennskunnar, sem þjóðin vildi ekki sjá, út með því að hrópa til fólksins: Sjáið mig, ég er hinn eini bjargvættur ykkar, ég er fulltrúi og fyrirmynd heilbrigðra umbótamarina.

Svo vantaði náttúrlega ekki, að við sósíalistar fengjum viðeigandi sendingu frá þessum „heilbrigða umbótamanni“. Þjóðin átti að vara sig á okkur, við vorum svo ægilegir niðurrifsmenn. Hann virtist ætla að sanna það með fölsuðum tilvitnunum úr Morgunblaðinu. En staðhæfingar duga lítt. Þjóðin mun dæma oss sem hann eftir verkunum. Við höfum verið í stj. eitt ár. Það er glæsilegasta uppbyggingarár, sem þekkzt hefur í sögu íslenzks atvinnulífs frá upphafi vega. Og ef Hermann Jónasson ætlar að telja þjóðinni trú um, að kaup á 30 togurum, allmörgum vélbátum, undirbúningur undir byggingu síldarbræðsluverksmiðju og fleiri slíkar aðgerðir séu niðurrif, en bann á kauphækkun verkamanna, þrælalög gegn verklýðssamtökunum og fangelsun verklýðsleiðtoga séu hins vegar heilbrigðar umbætur, þá er ég hræddur um, að þjóðin endi með því að rífa Hermann Jónasson og fylgi hans niður í næstu kosningum til þess að knýja þannig fram þær „heilbrigðu umbætur,“ sem þurfa að gerast í kollinum á slíkum mönnum, til þess að þeir séu hæfir til að starfa að stjórnmálum.

Framsóknarmenn voru í gærkvöld að reyna að slá um sig með því að halda því fram, að þau laun, sem greidd væru í nýbyggingarráði, væru alveg ógurlega há og þar ætti sér stað alveg óvenjuleg eyðsla. Það er bezt að segja hverja sögu eins og hún gengur. Þegar farið var að athuga, hvaða launagreiðslur skyldu vera í nýbyggingarráði, voru teknar til hliðsjónar greiðslur í hliðstæðum stofnunum. Fyrir valinu varð þó einkum viðskiptaráð, sem er eins og kunnugt er, uppáhald og kjörbarn Framsfl. Þeir menn, sem stjórna viðskiptaráði, hafa sem hér segir: Formaður 1100 kr. í grunnlaun á mánuði plús dýrtíðaruppbót plús 9000 kr. á ári fyrir fundahöld. Aðrir í ráðinu auk formanns hafa 1000 kr. í grunnlaun plús dýrtíðaruppbót plús 6000 kr. á ári fyrir fundahöld. Þegar farið var að athuga þetta, var talið sjálfsagt að hafa þarna töluvert lægri laun en í viðskiptaráði, þannig, að grunnlaun voru ákveðin þau sömu, en engar 6000 kr. borgaðar fyrir fundahöld. Það var litið svo á, að það tilheyrði starfinu. En ég vil benda á, að þarna er skiljanlega um mjög mikilvæga n. í landinu að ræða, þar sem hún á að hafa forustu um að hrinda af stað hinni miklu nýbyggingu í landinu. En Framsfl. er öðru vanari. Sá flokkur er vanari, að n. sitji til þess að banna mönnum að flytja inn og byggja skip og yfirleitt að bjarga sér.

Hv. 3. landsk. minntist á afstöðu Alþfl. til stjórnarmyndunarinnar og nýsköpunarinnar. Ég held bæði Sjálfstfl. og Sósfl. hafi ekki verið að reyna að svipta Alþfl. því, sem honum hefur borið af heiðrinum af framkvæmd nýsköpunarinnar, og ég held þeir láti Alþfl. fá þar bróðurpartinn, en við kunnum því illa, ef Alþfl. ætlar að seilast til allrar nýsköpunarinnar bara fyrir sjálfan sig. Það væri ef til vill rétt að rifja upp það, sem Alþfl. sagði fyrst um nýsköpunina á sínum tíma. Það stendur í Alþýðublaðinu 14. sept. 1944. Þar er nýsköpunin bókstaflega stimpluð sem skýjaborgir og öll sögð búin til úr froðu einni. Þess vegna held ég Alþfl. ætti að tala rólega um afstöðuna til nýsköpunarinnar og gera ekki tilraun til að eigna sér meira en það, sem hann á. En þrátt fyrir það að Alþfl. eigi nú að hafa komið með nýsköpunarprógrammið, þá marðist það aðeins í gegn, að Alþfl. tæki þátt í ríkisstj. Það var samþ. í miðstjórn flokksins með 11:10 atkv. og 4 sátu hjá. Ég held því það sé bjarnargreiði við Alþfl. að minnast á þessi mál.

Það hefur aldrei síðan tekinn var upp eldhúsdagur á Alþ. verið eins lítil ástæða til að halda eldhúsdag yfir nokkurri ríkisstj. og þeirri, sem nú situr. Aldrei hefur nokkur ríkisstj. á fyrsta ári sínu efnt eins mikið af loforðum þeim, sem hún gaf þjóðinni þegar hún tók við völdum. Aldrei hefur verið meiri stórhugur og sókn hjá þeirri forustu þjóðarinnar, sem hver ríkisstj. á að vera, en einmitt hjá þessari stjórn. En það er ástæða til eldhúsdags yfir þeim öflum, sem hamast á móti þessari framfarastj. og svífast þess ekki að reyna úr hvaða skúmaskoti sem þeir geta að bregða fæti fyrir hin þjóðnýtu mál hennar. Áður en þessi stjórn tók við völdum, var ástandið þannig í landinu, að einn bankastjóri Landsbankans ásamt heildsala þeim, sem stjórnar Vísi, réðu hér ríkjum og stefndu landinu í beint öngþveiti og kreppu, sem þeir sögðu óhjákvæmilega. Og málgögn þessara manna gerðu allt, sem þau gátu, til þess að telja þjóðinni trú um, að ekkert nema öngþveiti, hrun og kreppa væri framundan, og það væri svikræði og glæpur við þjóðina að láta sér detta í hug aðrar eins firrur og þær að fara að kaupa handa landinu ný framleiðslutæki, áður en þessi óumflýjanlega kókakólakreppa kæmi. Þetta hrunstefnulið reyndi ekki aðeins að ala á bölsýni þjóðarinnar og telja allan kjark úr henni, það gerði líka allt, sem það gat, til þess að hindra það, að ný ríkisstj. kæmist til valda, sérstaklega til þess að hindra, að farið yrði að framkvæma af hálfu ríkisstj. stórhuga og róttæka framfarastefnu, sem gerbreytir tækni og afkastagetu landsmanna. Þetta hrunstefnulið skeytti því engu, þótt álit þingsins væri að eyðileggjast með þjóðinni. Það jafnvel fagnaði því, að íslenzkt þingræði væri komið á glötunarbarm, og gerði sínar ráðstafanir til þess að hrinda því fram af. Það skeytti því heldur engu, þótt auðséð væri, að einmitt breytt og bætt tækni væri eina ráð þjóðarinnar til þess að mæta nýrri kreppu. Það virtist þvert á móti vilja hindra þær breytingar, svo að þjóðin stæði berskjölduð uppi, þegar hún ætti að fara að keppa um rúm sitt á heimsmarkaðinum. Það virðist hafa verið unnið vísvitandi að því að steypa Íslandi út í pólitíska og atvinnulega kreppu, sem vel væri hugsanlegt, að hefði riðið bæði þingræði þjóðarinnar að fullu og rýrt afkomu hennar ógurlega. Alþ. Íslendinga bar gæfu til þess fyrir rúmu ári síðan að setja þessa skemmdarklíku hrunstefnuliðsins út úr ríkisstj. og skapa nýja stórhuga ríkisstj. nýsköpunarinnar. Og Alþ. markaði með myndun hinnar nýju stjórnar þá djörfustu og stórtækustu stefnu, sem nokkur ríkisstj. hefur ákveðið að framkvæma á Íslandi. Aldrei hefur þjóðin fylkt sér eins einhuga um nokkra stj. sem þessa. Hrunstefnuliðið rak upp óp um glæpi, launráð og skýjaborgir. En ekkert af áróðri þessum fann hljómgrunn hjá þjóðinni. Þegar á leið árið og auðséð var, að ríkisstj. ætlaði ekki að láta sitja við orðin tóm, heldur hóf stórfelldar aðgerðir sérstaklega á sviði skipabygginga og bátakaupa og auðséð var, að allt framtak í landinu studdi hana í verkinu, þá vissi þetta afturhaldslið ekki, hvaðan á sig stóð veðrið. Sumir afturhaldskurfarnir, sem hrópað höfðu árið áður, að nú dyndu yfir kreppur, atvinnuleysi og öngþveiti, sögðu nú: Hvar ætlið þið að taka menn á öll þessi skip? En hinir frekari lýðskrumarar böðuðu bara út höndunum og sögðu: 90 mótorbátar, 30 togarar, hvað er það? Ekki neitt. Og það voru sömu mennirnir, sem horft höfðu upp á það, meðan þeir voru forsætisráðherrar í 8 ár, að fleytunum fór sífækkandi. Það hafði sýnt sig að vera rétt, sem við sögðum fyrir einu ári síðan, að einmitt nú væri tækifæri fyrir Íslendinga, og nú yrði að grípa það tækifæri. Það hefur sýnt sig að vera rétt, að það var ekki seinna vænna að gera stórfellda samninga um skipasmíðar erlendis, sem nú hafa verið gerðir. Það er óútreiknanlegur hagur fyrir þjóðina, að þessar ákvarðanir hafa verið teknar og bankastjórar og heildsalar kókakólaliðsins fengu ekki að ráða. — En það voru ekki aðeins þessir möguleikar, sem við bentum á í fyrra, að hagnýta þyrfti. Við bentum ekki aðeins á, að það þyrfti að afla framleiðslutækja, svo að við gætum tvöfaldað eða margfaldað alla framleiðslu okkar, við þyrftum líka að stækka markaði okkar verulega. Ísland hefur nú mestu möguleika, sem það hefur nokkurn tíma haft í sögu sinni til þess að koma afurðum sínum inn í flest lönd Evrópu. Meðal hverrar einustu þjóðar Evrópu er matarskortur. Við framleiðum einhvern bezta mat, sem framleiddur er í heiminum. Við höfum kvartað yfir því ár eftir ár að geta ekki fengið þjóðirnar til að kynna sér þennan mat okkar. Nú er hver einasti maður reiðubúinn að borða hann, ef hann bara kemst til þeirra. Og við höfum sjálfir þá trú á gæðum þessa matar, að við álítum, að hver þjóð, sem einu sinni byrjar að borða síld okkar og fisk, muni halda því áfram þegar betri tímar koma fyrir þær. Þess vegna liggur okkur lífið á að koma þessum afurðum okkar, hraðfrystum fiski, saltaðri síld og niðursuðuvörum, til þessara þjóða á næstu vikum og mánuðum. Það liggur lífið á því, að við höfum öll tæki til þessa og hver dagurinn er dýrmætur fyrir okkur. Og hjá þessum þjóðum, sem af okkur vilja kaupa, er öflun matar barátta um líf eða dauða. En meginið af þessum þjóðum, sem við þurfum að selja til, standa í augnablikinu uppi með lönd sín flakandi í sárum og atvinnukerfi sín í ólagi. Við erum aftur á móti í augnablikinu rík þjóð af peningum, og við getum gefið þeim lánsfrest, ef við viljum, og við þurfum þess, ef við viljum eiga þessar þjóðir, sem áður en langt um líður verða efnaðar, að góðum viðskiptavinum. Til þess að hagnýta þá möguleika, sem við höfum hvað markaði snertir, þá verðum við í fyrsta lági að setja hálfu meiri hraða í uppbygginguna á Íslandi en gert var ráð fyrir, að flýta byggingu togara, kaupum báta, byggingu hraðfrystihúsa, niðursuðuverksmiðja, lýsisherzluverksmiðju og sköpun hvers konar nýrrar tækni sem við frekast getum. Og við verðum að samstilla alla okkar krafta í þessu og bægja vægðarlaust frá í krafti lýðræðisins þeim öflum, sem standa þarna á móti. Í öðru lagi verðum við að taka upp skjótvirka og djarfa verzlunarpólitík, ekki aðeins við Ameríku og England, heldur við öll lönd meginlands Evrópu, sem við getum komið á verzlunarsamböndum við, og ekki hika við að fara út í djarfa lánapólitík líkt og Svíþjóð, England og Ameríka og aðrar þjóðir, sem standa þannig að vígi, að þær geta lánað. En hvernig eru horfurnar fyrir því, að við getum framkvæmt þessa pólitík? Það liggur í augum uppi, að til þess að tryggja framkvæmd hennar þarf algera samstillingu bankanna í landinu við stefnu ríkisstj. En hvernig er viðhorfið í þessum hlutum í dag. Nýbyggingarráð hefur fyrir hálfu ári síðan gengið frá frv. um fiskveiðasjóð til þess að skapa eðlilega, efnalega undirstöðu undir framkvæmdir nýbyggingarinnar, hvað togara- og bátakaup og fiskseljendur snertir. Þetta frv., sem bæjarfélög eiga afkomu sína og möguleika undir og þyrfti að vera komið í gegn fyrir löngu, er nú fyrst að sjá dagsins ljós í þ. Og hvernig stendur á þessu? Það stendur þannig á því, að allan þennan tíma hefur einmitt einn af þeim herrum, sem rekinn var úr ríkisstj. í fyrra, haldið uppi baráttu úr því vígi, sem hann hefur verið að reyna að skapa sér og hrunstefnu sinni í sjálfum þjóðbanka landsins. Slíkt getur þjóðin náttúrlega ekki þolað. Auðvitað ber umráðamönnum bankans að lúta skýlausum vilja þjóðarinnar, sem aldrei hefur komið eins skýrt fram og einmitt við mótun stefnu núv. ríkisstj. En Framsóknarherrarnir halda auðsjáanlega enn þá, að þeir séu valdið, sem eigi að drottna í landinu.

Því miður hefur það gerzt, að í staðinn fyrir að kókakólaliðið hafi verið rekið út úr stjórn Landsbankans, hafa helztu forkólfar þess getað skipzt á embættum eftir vild. Skipun Jóns Árnasonar, yfirlýsts fjandmanns nýbyggingarinnar á Íslandi, í bankastjórastöðu Landsbankans er kinnhestur gagnvart þeim yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar, sem hefur fylkt sér um nýsköpunarstefnu stj., en þó sérstaklega framan í verkalýðinn og sjávarútvegsmenn, sem einmitt áttu kröfu á því, að stjórn Landsbankans væri breytt þannig, að nýsköpunin eignaðist þar hauk í horni, en ekki svarinn fjandmann. Það er nauðsynlegt, að það komi fram og þjóðin sýni það við hvert tækifæri, sem henni gefst til að láta skoðun sína í ljós, að hún vill ekki láta bjóða sér þess háttar vinnubrögð. Alþýðan og útvegsmenn þessa lands eru engar skóþurrkur fyrir einhverja óvalda Framsóknarkurfa, heldur það vald, sem á að ráða þessu landi.

Þjóðin er búin að fá meira en nóg af þeirri fátækt hugsjóna, af því hróplega framtaksleysi í nýbyggingarmálum og af þeirri fákænsku í fjármálavísindum nútímans, sem einkennt hefur bankapólitík Framsóknarvaldsins. Þjóðin er búin að fá nóg af Framsókn. Hún er búin að fá nóg af þekkingarleysi hennar á fjármálum, meira að segja bankastjórar þessa flokks og helztu fjármálaspekingar hafa verið eins og álfur út úr hól og hrópað: Hrun, hrun, verðlækkun, verðlækkun, þegar vörurnar hafa verið að hækka erlendis og beztu tækifærin hafa gefizt til að auka markaði okkar. Þjóðin er búin að fá nóg af yfirgangi Framsfl., af því að láta þennan flokk vera Þránd í Götu hvers konar stórra framfaramála landsins. Þjóðin er búin að fá nóg af hugsjónaleysi og steinrunnu afturhaldi þessa gamla embættisflokks, sem engu hefur gleymt og ekkert lært síðustu fimm árin og hrópar því enn á gerðardóm og þrælalög sem eina úrræðið í öllum vandamálum þjóðarinnar. Þeir þursar, sem þannig hrópa, þegar dagur frelsis ljómar að nýju um veröldina, geta aðeins sætt þeim álögum að stirðna sem nátttröll. Og þjóðin mun sjá fyrir því, að þau verði örlög Framsóknar.