27.02.1946
Sameinað þing: 29. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

65. mál, vélar til raforkuvinnslu á sveitaheimilum

Frsm. (Sigurður Thoroddsen) :

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, hefur verið í athugun hjá allshn., og mælir allshn. með því, að hún verði samþ. með breyt., sem till. um eru prentaðar á þskj. 457. Allshn. sendi þessar till. á sínum tíma til Rafmagnseftirlits ríkisins, og álit Rafmagnseftirlitsins er birt í nál., og er það á þá leið, að það mælir með samþ. þessarar þáltill. og álítur hana þarfa. — Allir allshnmenn voru sammála um þáltill. efnislega, en með þeim breyt., sem ég gat um.

Þáltill. þessi fer fram á, að rannsókn fari fram á því, hvernig verði helzt leyst þörf þeirra sveitaheimila fyrir rafmagn, sem hvorki hafa skilyrði til vatnsvirkjunar né eiga heldur kost á að fá raforku frá almannarafveitum, og að þegar þessi rannsókn hafi farið fram, um það, hvaða tæki heppilegust væru til þess, og gefa út leiðarvísi um gerð vélanna, niðursetningu og meðferð fyrir notendur. Og þáltill. gerir ráð fyrir, að þegar rannsókn hafi leitt í ljós, hvaða vélar hentugast verði að nota til þess að bæta úr raforkuþörf sveitanna, þá verði bændum tryggðar þær vélar með beztu fáanlegum kjörum og ákveðið, að ekki skuli vera hærri tollur greiddur af þessum vélum en landbúnaðarvélum. Þetta ákvæði viðkomandi tollgreiðslunni þótti n. orka tvímælis, að gæti staðið í till., og lýtur ein brtt. að þessu atriði sérstaklega. Hitt eru meira orðabreyt.

Allshn. var sem sagt öll sammála um að leggja til, að þáltill. yrði samþ. með þeim brtt., sem ég gat um áðan.