26.04.1946
Sameinað þing: 40. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (4243)

228. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Stefán Jóh. Stefánsson:

Frá því að áhrifa Alþfl. fór að gæta nokkurs á Alþingi, hefur afstaða hans til ríkisstjórna alltaf og eingöngu miðazt við málefnin ein. Alþfl. hefur metið það og vegið hverju sinni, hvort hann teldi líklegra að greiða fyrir áhuga- og stefnumálum með því móti að standa að ríkisstj. eða vera í andstöðu við ríkisstj. Flokkurinn hefur ekki hikað við að taka á sig ábyrgð og óþægindi með þátttöku eða stuðningi við stjórn, ef hann taldi, að með því móti væri bezt borgið hag alþýðu manna í landinu og að auðið yrði að koma áleiðis einhverjum aðkallandi nauðsynjamálum almennings, sem væru í samræmi við stefnumið og dægurmálabaráttu Alþfl. Og ég fullyrði, að með þessu móti hefur flokkurinn hrundið í framkvæmd ótalmörgum hagsmunamálum alþýðunnar í landinu og stutt að og knúið fram marga mikilsverða breytta þjóðfélagshætti, sem gert hafa það að verkum, að alþýðan í landinu á við batnandi kjör að búa, aukið félagslegt öryggi og stórum betri aðstöðu til menningarlífs. Alþfl. hefur orðið að fá þessum stefnumálum sínum hnikað fram með samningum við aðra flokka, nokkuð sitt á hvað, eftir því, sem aðstæður hafa leyft hverju sinni.

Eftir haustkosningarnar 1942 var allt í óvissu um það, hversu takast mundi að mynda nýja þingræðisstjórn. Fyrst var gerð tilraun til myndunar fjögurra flokka stjórnar, en það mistókst. Í annan stað var reynt að mynda stjórn Alþfl., Framsfl. og flokks kommúnista. En það fór á sömu leið, að samkomulag náðist ekki um grundvöll og höfuðmálefni, er flokkar þessir gætu fylkt sér um. Þetta leiddi svo, eins og alkunnugt er, til þess, að þáverandi ríkisstjóri skipaði stjórn utanþingsmanna, sem ekki studdist við ákveðna þingflokka, og allra sízt meiri hluta þings.

Sumarið og haustið 1944 var enn á ný gerð tilraun til myndunar þingræðisstjórnar, og hófust um það efni samtöl á milli allra flokka. Ekki leiddi það heldur til árangurs. Þá hóf núverandi hæstv. forsrh., Ólafur Thors, tilraun til myndunar stjórnar, og leitaði í því efni, eftir að honum hafði ekki tekizt að ná samkomulagi við Framsfl., til Alþfl. og flokks kommúnista. Alþfl. svaraði málaumleitun þessari, eins og hann hafði alltaf áður gert, með því, að það færi allt eftir málefnunum, hver afstaða hans yrði. Og þegar núverandi hæstv. forsrh. lagði fyrir Alþfl. stefnuskrá þá, er hann hafði samið sem grundvöll að stjórnarsamstarfinu og — að því er upplýst var — fengið flokk kommúnista til þess að fallast á og 15 af 20 flokksmönnum sínum í Sjálfstfl., þá bar Alþfl. fram sínar kröfur og viðauka, til þess að til greina gæti komið, að Alþfl. gæti tekið þátt í stjórnarsamstarfi. Auk nokkurra breyt. og umorðunar á stefnu ríkisstj. í utanríkismálum, þar sem meðal annars var lögð áherzla á að tryggja sjálfstæði og öryggi landsins með samningum og, þátttöku í alþjóðastarfsemi lýðræðisþjóðanna og að hafa náið samstarf við hin Norðurlandaríkin í menningar- og félagsmálum, gerði Alþfl. skilyrði um eftirfarandi atriði :

1. Að til þess að tryggja þá almennu yfirlýsingu, að allir landsmenn gætu haft atvinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, skyldu 300 millj., kr. af inneignum bankanna í Bretlandi og Bandaríkjunum settar á sérstakan reikning og þeim varið eingöngu til kaupa á framleiðslutækjum, þar af 200 millj. kr. til skipa, véla og efnis til skipabygginga, 50 millj. kr. til véla og þess háttar til aukningar og endurbóta á, síldarverksmiðjum, hraðfrystihúsum, niðursuðu, tunnugerða, skipasmíða o. fl. og loks 50 millj. til áburðarverksmiðju, vinnslu og hagnýtingar landbúnaðarafurða, til jarðyrkjuvéla og efnis til rafvirkjana. Auk þess óskaði flokkurinn, að sett yrðu nokkur nánari skilyrði um fyrirkomulag og aðferðir við þessa fyrirhuguðu nýskipan íslenzkra atvinnumála, með hliðsjón af atvinnuástandinu í landinu, í því skyni að komið yrði í veg fyrir atvinnuleysi á meðan verið væri að útvega hin nýju atvinnutæki, að hlutazt yrði til um, að þessi tæki yrðu keypt utan lands eða gerð innan lands, svo fljótt sem unnt væri, og þau seld einstaklingum og félögum og slík félög m. a. stofnuð að opinberri tilhlutan, ef þörf gerðist.

2. Að sett yrðu þá á yfirstandandi Alþ. launalög í samræmi við frv., sem fyrir l. á, með breytingum til móts við óskir B.S.R.B.

3. Að samþykkt yrði á næsta Alþ. svo fullkomið kerfi almannatrygginga, sem næði til allrar þjóðarinnar án tillits til stétta og efnahags, að Ísland yrði á þessu sviði í fremstu röð nágrannaríkjanna.

4. Að samþykkt yrði, að Ísland gerðist þá þegar þátttakandi í alþjóðlega vinnumálasambandinu, I. L. O.

5. Að hafin yrði þá þegar endurskoðun stjórnarskrárinnar með það fyrir augum, að sett yrðu ótvíræð ákvæði um réttindi allra þegna þjóðfélagsins til atvinnu, eða þess framfæris, er tryggingalöggjöfin ákvæði, félagslegs öryggis, almennrar menntunar og jafns kosningarréttar, og auk þess sett þar skýr fyrirmæli um verndun og eflingu lýðræðisins og varnir gegn þeim öflum, er vinna vilja gegn því, og þessari endurskoðun yrði lokið svo fljótt, að frv. yrði lagt fyrir Alþingi áður en kosningar færu fram.

Auk þessara framangreindu atriða voru nokkur önnur almenn atriði, er flokkurinn vildi láta koma fram í stefnu stjórnarinnar, svo sem um það, að skattar þeir, er þyrfti að afla, yrðu lagðir á þá, er helzt fengju undir þeim risið, og þá fyrst og fremst á stríðsgróðann, en að skattar á lágtekjumönnum yrðu ekki hækkaðir, að ríkisstj. gerði allt, sem í hennar valdi stæði, til þess að hindra, að tekjur hlutarsjómanna rýrnuðu, og leitazt yrði við að bæta lífskjör þeirra og skapa þeim meira öryggi, og að ríkisstj. leitaðist við að hafa sem öruggastan hemil á verðlaginu og vinna að því, að sem minnstur kostnaður félli á vörurnar við sölu þeirra og dreifingu.

Eftir alllanga samninga gekk Sjálfstfl. og flokkur kommúnista inn á höfuðskilyrði Alþfl. Þegar svo var komið málum, varð það niðurstaðan, að Alþfl. tæki þátt í núv. hæstv. ríkisstj., þar sem svo miklum og merkilegum nýmælum ætti að hrinda í framkvæmd, nýmælum, sem væru fólgin í því að endurskipuleggja og stórauka framleiðslutæki landsmanna til þess að tryggja næga atvinnu í landinu, bæta kjör opinberra starfsmanna og auka og efla félagslegt öryggi í landinu. Það var því vissulega til mikils að vinna til framdráttar sjónarmiðum og stefnumálum Alþfl. Hins vegar var flokksmönnum vel ljóst — og gætti þar að vonum nokkurrar tortryggni að örðugt kynni samstarfið að reynast þrátt fyrir glæsilega stefnuskrá og loforð um stórkostlegar endurbætur. Samstarfsflokkarnir báðir höfðu í mörgum greinum mjög ólík sjónarmið og starfshætti samanborið við Alþfl., sem er og hefur verið sósíaldemókratískur flokkur, er byggir starfsaðferðir sínar á lýðræði og þingræði og hefur þau stefnumið að koma á ríki jafnaðarstefnunnar undir fullkomnum lýðræðisháttum í stjórnmálum og atvinnumálum. Samstarfsflokkarnir voru annars vegar Sjálfstfl., en innan hans vébanda eru flestir höfuðatvinnurekendur þessa lands og er flokkurinn í meginatriðum andvígur jafnaðarstefnunni og vill varðveita auðvaldsþjóðskipulagið. Hins vegar var flokkur kommúnista, sem telur mesta fyrirmynd í þjóðfélagsháttum það stórveldi heimsins, þar sem ekkert stjórnmálalegt lýðræði ríkir, en aðeins einn flokkur, flokkur kommúnista, má starfa og hefur í alþjóðamálum sýnt skefjalausan yfirgang og ásælni við smáríki. Og báðir flokkarnir höfðu auk þess um langt skeið elt grátt silfur við Alþfl., Sjálfstfl. sem, atvinnurekendaflokkur og auðvaldsflokkur, en flokkur kommúnista með vægðarlausum árásum, sem áttu rætur sínar að rekja til þess, að hann vildi ná undir sig íslenzkri alþýðuhreyfingu og láta hana stjórnast af hugmyndakerfi kommúnismans og taldi sósíaldemókrata í raun og veru mestu andstæðinga sína. Eins og ég sagði áðan, var því eðlilegt, að tortryggni gætti í röðum Alþfl. gegn samstarfsflokkunum. Hins vegar varð það niðurstaðan, og í fullu samræmi við allar starfsaðferðir Alþfl., að láta málefnin ein ráða.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur nú starfað í 1½ ár, og er í raun og veru við enda kjörtímabilsins komið í ljós, hvernig hefur gengið með framkvæmd stjórnarsamningsins. Og ekki verður annað með sanni sagt en hann hafi verið haldinn og framkvæmdur í flestum höfuðatriðum. Framkvæmdir við nýskipan atvinnumálanna hafa farið eftir yfirlýstri stjórnarstefnu. Samið hefur verið um smíði 30 nýrra togara og um 80 mótorbáta, um byggingu 3 strandferðaskipa og æði margra flutninga- og farþegaskipa. Verið er að auka síldarverksmiðjur ríkisins og í undirbúningi um byggingu annarra nýrra verksmiðja. Sett hafa verið fullkomin launalög, er mjög hafa bætt kjör opinberra starfsmanna. Í dag voru samþykkt lög um almannatryggingar, er mynda nýtt og fullkomnara tímabil aukins félagslegs öryggis í landinu. Þessari merku löggjöf um almannatryggingar verða síðar gerð nokkur skil af hálfu Alþfl. hér í umr. Ísland er orðinn þátttakandi í alþjóðlega félagsmálasambandinu, sem án efa styður félagslega þróun og eflingu íslenzkrar félagsmálalöggjafar. En því miður hefur ekki orðið full framkvæmd með endurskoðun og samþykkt nýrrar stjórnarskrár. Hefur það komið í ljós, að tíminn til framkvæmda hefur reynzt of naumur, og annríki margra þeirra manna, er að endurskoðuninni áttu að vinna, og ýmis atvik önnur, hafa gert það að verkum, að ekki hefur verið unnt að fullnægja þessu samningsatriði, þótt verulegt starf hafi þegar verið lagt fram við endurskoðunina. Getur Alþfl. ekki sakað samstarfsflokkana um brigðmælgi í þessu efni, þótt áhuginn um framkvæmd þessa máls hafi hjá sumum reynzt of lítill. Verður því síðar að halda áfram því verki, sem byrjað er, og mun Alþfl. ekki láta sitt eftir liggja til þess að fullar framkvæmdir fáist á þessu nauðsynjamáli, þótt síðar verði.

En auk umsaminna mála hefur fyrir atbeina ríkisstj. verið afgreidd mjög merkileg ný löggjöf, svo sem lög um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, raforkulög, ný hafnarlög, lög um stofnlán fyrir sjávarútveginn, fullkomin löggjöf um nýtt fræðslukerfi, lög um landnám og nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum og margt fleira. Mun nánar verða minnzt á sum þessara mála af hálfu Alþfl. hér við umr. og þá ekki hvað sízt um hin mjög svo merku lög um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum.

Það hefur því vissulega komið í ljós með myndun þessarar ríkisstj. og ekki hvað sízt fyrir atbeina Alþfl., að gerð hafa verið stórkostleg átök til framfara og aukinnar hagsældar fyrir alþjóð, og þá ekki hvað sízt fyrir alþýðu landsins, til þess að tryggja atvinnu, bætt kjör og félagslegt öryggi. Þessar staðreyndir viðurkennir og metur Alþfl. fyllilega og trúir því, að merkilegar og stórstígar framfarir hafi áunnizt með stjórnarsamstarfinu. Flokkurinn er einnig ánægður með ágæt störf ráðherra sinna í ríkisstj. og baráttu þeirra þar fyrir áhuga- og stefnumálum Alþfl. En þó að þetta sé þannig, verður því ekki neitað, að flokkurinn hefði kosið ýmislegt á aðra lund. Hann er ekki ánægður með allt, sem gert hefur verið og einnig ógert látið í verzlunar-, viðskipta- og verðlagsmálum. Hann telur einnig suma framkomu kommúnista í stjórnarstarfinu aðfinnsluverða, og sérstaklega verð ég að telja afstöðu og árásir kommúnista í viðkvæmum og vandmeðförnum utanríkismálum vítaverða.

Ég lýsi ánægju Alþfl. yfir því, að hæstv. forsrh. hefur nú í ræðu sinni skýrt allrækilega frá því, sem fram hefur farið milli Bandaríkjanna og Íslands út af beiðni Bandaríkjastjórnar um það, að samningar væru teknir upp við hana um leigu á herstöðvum á Íslandi. Það var vissulega tími til þess kominn, að þeim leyndarhjúp væri svipt til hliðar, sem hingað til hefur hvílt yfir máli þessu. Í skjóli þessarar leyndar hafa einkum pólitískir spekúlantar gert harðar, illvígar árásir á ýmsa andstæðinga sína í stjórnmálum, og það, sem verra er, látið sér sæma að ráðast að Bandaríkjunum mjög hvatvíslega og með margs konar dylgjum og óhróðri, sem vel gæti leitt til andúðar þessarar ágætu lýðræðisþjóðar í okkar garð, þjóðar, sem hefur í samskiptum sínum við Ísland sýnt vináttu og skilning, ekki hvað sízt við stofnun hins íslenzka lýðveldis.

Eins og hæstv. forsrh. hefur þegar skýrt frá, var hin upprunalega málaumleitun Bandaríkjastjórnar frá 1. okt. s. l. rædd bæði á lokuðum fundi Alþingis og af fulltrúum allra flokka með ríkisstj. Svar hæstv. fors.- og utanrrh. var svo rætt á einum slíkum sameiginlegum fundi 5. nóv. s. l., og lýstu fulltrúar Alþfl. þá yfir því, að þeir álitu ógerlegt að ganga til samninga á grundvelli orðsendingar Bandaríkjanna frá 1. okt. s. l., og að þeir skildu svarnótu forsrh. svo, að með henni væru umr. á þeim grundvelli útilokaðar, og að með þeim skilningi samþykktu þeir svarbréf forsrh. Hann lýsti svo sjálfur yfir því, að yrði svarbréf sitt samþykkt og viðræður hæfust, mundi hann ekki, ef til sinna kasta kæmi, fara út fyrir þau takmörk, sem leiddu af þessari skýringu Alþfl., nema fyrir lægi, að vilji meiri hluta Alþ. væri fyrir því. — Fulltrúar kommúnista samþykktu einnig svarbréf forsrh. með sömu skýringu og skilningi eins og Alþfl. hafði áður gert.

Forsrh. afhenti sendiherra Bandaríkjanna síðan svarbréf sitt 6. nóv. s. l. og lét fylgja með munnlega skilning Alþfl.

Eins og hæstv. forsrh. hefur þegar skýrt frá, lét hann þess getið í bréfi sínu frá 12. nóv. s. l., eins og hann hafði áður gert munnlega við sendiherra Bandaríkjanna, að gefnu tilefni, að hann vildi ekki ganga til samningsviðræðna á öðrum grundvelli en þeim, sem tekið hefði verið fram í svari hans frá 6. nóv. s. l. og í þeirri munnlegu skýringu, sem fylgt hefði því bréfi, og var þar átt við skýringar fulltrúa Alþfl.

Málið stendur svo að öðru leyti eins og hæstv. forsrh. hefur sagt frá, og hefur stj. skýrt sendiherra Íslands í Washington frá, að hún hafi látið málaumleitan sína niður falla, að minnsta kosti í bili, og síðan hefur ekkert gerzt í málinu.

Ég get ekki séð, að hægt sé að álasa íslenzkum stjórnarvöldum fyrir svör þeirra og afstöðu til þessa máls. Og ég verð sérstaklega að undirstrika, að svar ríkisstj., með þeim skýringum og skilningi, sem Alþfl. tók fram, hefur leitt til þess, þar sem haldið var á málinu með festu og fullri kurteisi, að hin vinveitta Bandaríkjastjórn hefur látið málaleitun sína niður falla. Út af þeim ummælum og hávaða, sem gætt hefur í sumum blöðum um veru Bandaríkjahers hér, þá er það víst, að íslenzk stjórnarvöld eiga eftir að gera samninga við Bandaríkjastjórn um það, á hvern hátt íslenzkir aðilar taki til fulls við yfirráðum flugvallarins á Reykjanesi, á þann veg, er bezt geti verið borgið íslenzkum hagsmunum og til þess að tryggja það, að hægt verði að hafa nauðsynleg not af flugvellinum í millilandaflugi með viðkomu þar og er það ekki sízt til athugunar fyrir hæstv. atvmrh., Áka Jakobsson, er fer með flugmálin. Og í sambandi við væntanlega þátttöku okkar í Bandalagi hinna sameinuðu þjóða og ef til vill í sérsamningum, sem rúmast innan bandalagsins, við vinveittar lýðræðisþjóðir, eigum við eftir að tryggja sjálfstæði og öryggi Íslands, eins og segir í upphafi stefnuskrár þeirrar, er flutt var af hæstv. forsrh. 21. okt. 1944, án þess að nokkrir aðrir en Íslendingar ráði yfir landi okkar.

Eins og ég hef rakið hér á undan, hefur hæstv. ríkisstj. nú starfað í 1½ ár í samræmi við þá samninga, sem gerðir voru á milli flokka þeirra, er að henni standa, og hafa samningar þessir í flestum höfuðatriðum verið framkvæmdir eins og til stóð. En samningar þessir voru að verulegu leyti miðaðir við kjörtímabil það, sem nú er brátt á enda. Allir flokkarnir ganga nú til kosninga, hver með sína stefnuskrá, sem að sjálfsögðu nær út yfir og meira til framtíðarinnar en stjórnarsamningarnir. Þar hlýtur að vera meira mörkuð stefna en verið hefur í verzlunar-, viðskipta-, verðlags- og gjaldeyrismálum, svo og í skattamálum. Alþfl. hefur lagt fram á Alþ. till. um skipun mþn. til þess að athuga þessi mál, sem því miður munu tæplega hljóta afgreiðslu á Alþ. Einnig er víst, að marka þarf stefnuna nánar í utanríkismálum. Í öllum þessum málum munu flokkarnir marka stefnu sína við kosningar þær, er í hönd fara, og kjósendur svo hjá flokkunum fylgi eftir því, sem þeir telja réttast og mest í samræmi við sannfæringu þeirra og stefnu í þjóðmálum. Að kosningunum loknum kemur svo til kasta stjórnmálaflokkanna að semja og ræða um framtíðar ríkisstjórn. Afstaða Alþfl. mun þá, sem og alltaf áður, mótast af málefnunum, og undir þeim er komið um samvinnu eða andstöðu Alþfl. við aðra flokka. Það er samkv. öllu því, sem ég hef nú tekið fram, að Alþfl. greiðir hiklaust atkv. gegn vantrausti því, sem hér liggur fyrir frá stjórnarandstöðunni. Alþfl. átti sinn þátt í stjórnarstefnunni eins og hún var mörkuð með samningum. Þeir samningar hafa verið framkvæmdir og markað stórkostleg ný framfaraspor í íslenzku þjóðfélagi. Það liggur alls ekki fyrir á þessari stundu neinn nýr grundvöllur fyrir stjórnarmyndun, og vantraust, sem nú er borið fram í þinglokin, án þess að sá flokkur, sem að vantraustinu stendur, hafi nokkra minnstu möguleika til nýrrar stjórnarmyndunar, er hreinn og beinn skollaleikur, sem svara ber með því að fella það.