04.03.1947
Efri deild: 84. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

186. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Flm. (Björn Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég hafði ekki tekið eftir því á dagskránni — þó skömm sé frá að segja —, að þetta mál er á dagskrá nú. Ég hef þess vegna ekki búið mig undir að halda hér neina framsöguræðu, enda held ég, að það sé óþarfi. Það var af hreinni gleymsku og athugunarleysi, að þessi höfn komst ekki inn í hafnarl., þegar þau voru hér til meðferðar á þinginu í fyrra. Ég geri ekki ráð fyrir, að það þurfi að tala fyrir þessu máli. Þessi höfn stendur svo miklu nær því að komast upp í þessi l. en fjöldamargar hafnir, sem teknar voru í hafnarl. í fyrra, að ég vona, að það verði enginn ágreiningur um þetta mál. Ég vísa um réttmæti þessa máls til grg., sem fylgir frv. Hún er að vísu stutt, en það er ekki heldur þörf á að hafa miklar málalengingar um þetta mál. Ég ætla að leyfa mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.