31.01.1947
Neðri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

147. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Frv. til breyt. á vegalögunum voru flutt hér í báðum deildum Alþ. á öndverðu þessu þingi. Í Ed. var frv. um þetta flutt af hv. þm. Barð., en frv. í Nd. flutti ég sjálfur. Samgmn. hefur haft þessi frv. til athugunar og sendi þau ásamt mörgum brtt. til umsagnar vegamálastjóra, er á fyrra þingi hafði verið falin endurskoðun vegalaganna í heild. Hann hefur síðan í samráði við samgmn. beggja deilda samið nýtt frv., sem prentað er á þskj. 330, og það hefur orðið að samkomulagi milli beggja flm. hinna fyrri frv. og samgmn. beggja þd., að þau frv. yrðu látin víkja fyrir þessu nýja frv., er n. stæðu að ásamt vegamálastjóra. Enn fremur hefur orðið samkomulag um það, að þetta frv. yrði fyrst tekið til meðferðar í hv. Nd., en nýtt frv. til brúalaga kæmi fyrst fram í hv. Ed., en áður höfðu einnig verið flutt frv. til l. um breyt. á þeim l.

Með þessu frv. á þskj. 330 hafa vegalögin verið tekin til endurskoðunar samkv. rökst. dagskrá, er samþ. var hér 2. apríl s. l. Þá var vegamálastjóra falið að láta fara fram heildarendurskoðun. Núgildandi vegalög eru frá 1933, og hafa ekki verið gerðar verulegar breyt. á þeim, en síðan hafa miklar breytingar orðið á vegakerfi landsins, það hefur stóraukizt og aðstæður allar breytzt. Slík heildarendurskoðun laganna, sem í þessu frv. felst, verður því að teljast mjög nauðsynleg.

Á þessu stigi málsins vil ég aðeins fara nokkrum almennum orðum um þær breyt. frá ákvæðum gildandi l., sem þetta frv. felur í sér. Upp í 2. gr. frv. eru teknir allmargir nýir þjóðvegir, eða rúmlega 40 vegakaflar, samtals 530 km að lengd, og er það samkvæmt tillögum vegamálastjóra. Samkvæmt frv. þeim til breyt. á vegalögunum, sem upphaflega voru lögð hér fram í báðum þd., var þessi viðbót helmingi meiri, eða um 1100 km samtals. Þannig hefur vegamálastjóri fallizt á, að vægur helmingur þessara vega yrðu teknir inn sem nýir þjóðvegir. Hann bendir á, að ekki sé skynsamlegt að fara of fljótt í það að bæta við nýjum þjóðvegaköflum, meðan nauðsyn þykir að dreifa nýbyggingarfénu svo mjög sem gert er í fjárlögum, og það sé ekki rétt meðferð á ríkisfé. Samkvæmt upplýsingum vegamálastjóra eru nú þjóðvegir á, landinu samtals 5600 km langir. Þetta var nú um þá fyrstu meginbreytingu, sem frv. leggur til að gerð verði á gildandi vegalögum, og það er skoðun n., að hv. þm., sem margir hafa hér með fengið margar till, sínar teknar til greina, láti sem mest þar við sitja. Við höfum lagt niður fyrir okkur, hve langt sé hægt að ganga í þessu efni, og þótt ýmsir hv. þm., m. a. ég sjálfur, séu ekki fyllilega ánægðir með þær breyt., sem hér er lagt til, að gerðar verði, er það von okkar, að þeir taki hér tillit til álits og tillagna vegamálastjórans.

Önnur meginbreyting frá gildandi l., sem felst í þessu frv., er sú, og hún er allmikilvæg, að sýsluvegagjaldið, sem verið hefur tvær til fimm krónur fyrir hvern verkfæran karlmann, verði hækkað upp í andvirði eins dagsverks í samræmi við breytt peningagildi, þar sem talið er, að gjaldið sé orðið alltof lágt og nái ekki tilgangi sínum. Lagt er til, að þessi hækkun verði heimiluð. Önnur breyting í sambandi við sýsluvegi er sú, að lagt er til að framlag ríkisins til sýsluvega Sé hækkað verulega í þeim sýslum, sem ekki hafa sýsluvegasjóði: Ríkið greiðir nú helming kostnaðar nýrra akvega, en engan viðhaldskostnað, en samkvæmt þessu frv. er lagt til að hækka framlög ríkissjóðs til akfærra sýsluvega þannig, að ríkið greiði allt að 3/5 hlutum kostnaðar nýrra akvega og helming viðhaldskostnaðar, og er það alger nýjung. En það er ekki gert ráð fyrir því í frv., að þetta hækkaða framlag verði beint lögboðið, heldur háð vilja fjárveitingavaldsins hverju sinni. Þetta er þýðingarmikil breyting, og vegamálastjóri bendir á, að þetta sé skynsamlegra en fara of geyst í að þenja út þjóðvegakerfið og dreifa nýbyggingarfé til þjóðvega meira en nú er.

Þá er það breyt. á hreppsvegagjaldinu. Í núgildandi l. er það ákveðið tvær til fimm krónur á hvern verkfæran karlmann, en samkvæmt þessu frv. verður það tuttugu krónur, og jafnframt er heimilað að hækka það upp í andvirði eins dagsverks í vegavinnu. Þessi hækkun sprettur fyrst og fremst af því, að þetta gjald er nú engan veginn orðið í samræmi við peningagildið.

Þá greinir vegamálastjóri frá því, að nauðsyn beri til, að þeim sýslum, sem hafa sýsluvegasjóði, verði gert auðveldara um framkvæmdir í samræmi við þá hækkun, sem lagt er til að gerð verði á framlagi ríkissjóðs til sýsluvega í sýslum, sem ekki hafa sýsluvegasjóði. Eins og hv. þm. er kunnugt, var á síðasta þingi hækkaður sá skattur, sem ríkið greiðir í sýsluvegasjóði, úr 6 upp í 10‰ Vegamálastjóri leggur til, að skatturinn verði enn hækkaður upp í 12‰, og hefði hann þá hækkað um helming frá í fyrra. Við þetta hækkuðu framlög sýslnanna, og hefur vegamálastjóri frv. um þetta í undirbúningi. Mér þykir rétt að skýra frá þessu, ella gæti virzt sem sýslum, sem ekki hafa sýsluvegasjóði, væri mismunað á kostnað þeirra, sem eiga sýsluvegasjóði.

Ég hef þá gert grein fyrir helztu nýmælunum í þessu frv., og gefst mér vonandi tækifæri til að ræða þau nánar síðar og hin einstöku ákvæði frv. Ég sé því ekki ástæðu til að hafa framsöguræðu mína lengri, en legg áherzlu á að skora á þá þm., sem brtt. hafa flutt hér við vegalögin, að fella sig, eftir því sem frekast er unnt, við þær till., sem hér hefur orðið samkomulag um. Það er stundum erfitt að ná fullu samkomulagi um þessi mál, og sjónarmiðin eru mörg hjá þm., sem þekkja líka vel þarfirnar fyrir nýja vegi heima fyrir. En samt sem áður er það þannig, að það ber nauðsyn til þess, að hæstv. Alþ. hafi nokkurt hóf á í þessum málum. Og þó að þetta mál hafi nú verið undirbúið og reynt að samræma óskir manna og nauðsynina á framkvæmdum, þá vitum við, að hér er ekki um að ræða neitt, sem sé eilífðarlausn. Þess má þó vænta, að þessar till. geti orðið grundvöllur undir lausn, sem a. m. k. um nokkur ár gæti enzt í þessum efnum. Að sjálfsögðu breytast tímarnir, þannig að ný viðhorf skapast við það, að akvegakerfið þenst út og nær til fleiri og fleiri byggðarlaga. Og ýmis önnur atvik geta valdið því, að nauðsynlegt verði seinna að gera breyt., ekki aðeins á því, hverjir vegir skuli vera þjóðvegir, heldur einnig öðrum ákvæðum vegalaganna.

Fyrir hönd samgmn. óska ég þess, að þetta mál geti fengið þá afgreiðslu, sem sé í sem beztu samræmi við það, sem hér ligg ja fyrir till: um, og að ekki þurfi að gera mjög miklar byltingar á þeim till., sem hér liggja fyrir, sem samgmn. beggja d. hafa haft samráð um við vegamálastjóra. Leyfi ég mér því að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr.