31.01.1947
Neðri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (2062)

147. mál, vegalög

Frsm. (Sigurður Bjarnason) :

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, greina frá því, að sjálfsagt hefur vegamálastjóri haft fyrir sér allar till. hv. þm. sem þeir hafa flutt hér á þingi nú, þegar hann gerði till. sínar, sem liggja nú fyrir í þessu frv. Og ég hygg, að það verði varla sagt, enda þótt samgmn. sé alltaf reiðubúin til að taka mjög mikið tillit til þess, sem vegamálastjóri leggur til, að sú n. hafi í þetta skipti selt honum algert sjálfdæmi um það, hve miklu af vegum skyldi bætt í þjóðvegatölu. En ég vil geta þess, sem ég tók fram í frumræðu minni, að að sjálfsögðu mun samgmn. ræða við hv. þingmenn um þær brtt., sem þeir kunna að vilja koma fram með við þetta frv. En það eru eindregin tilmæli n. til einstakra hv. þm., að þeir láti sem mest sitja við það, sem í þessu frv. greinir. Það er mjög örðug afgreiðsla þessara mála, ef hún á að vera svo öllum líki, sérstaklega ef uppfylla á það, að allir hv. þm. fái í eitt skipti allt, sem þeim finnst þá og þeirra byggðarlög vanta í þessum efnum. Það er því alveg nauðsynlegt í þessum málum, að hv. þm. hafi allir nokkurt hóf á í þessum efnum. Því að hv. þm. mega ekki reikna með því, að hér sé verið að ganga frá einhverju svo varanlega, að óbreytt standi um aldur og ævi og hv. þm. hafi ekki tækifæri til að hafa áhrif á síðar.

Þá er hitt atriðið, sem hv. þm. Borgf. hélt fram í sambandi við þetta frv., sem fyrir liggur, og bað menn að athuga í sambandi við væntanlegt frv. um sýsluvegasjóði, að hér í þessu frv. væri hallað á þær sýslur, sem hafa sýsluvegasjóði. Það má vel vera, að þær verði að einhverju leyti ekki eins vel úti og þær sýslur, sem nú njóta þess mjög hækkaða framlags, sem till. eru um í frv., sem hér liggur fyrir. En að sjálfsögðu mun samgmn. hafa samband við vegamálastjóra um þetta atriði, áður en það frv. verður flutt, sem hv. þm. Borgf. minntist á, um sýsluvegasjóði. Ég geri ráð fyrir, að það frv. komi til samgmn. og að það komi til kasta hennar að flytja það.