25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

147. mál, vegalög

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Mér hefur verið sagt, að hér hafi farið fram allmiklar umr. um það, sem hér er kallað Hvalfjarðarferjuvegir, og hef ég heyrt nokkuð af þeim síðustu ræðum, sem um þetta hafa verið fluttar. Ég hef einnig heyrt það hér, að menn eru sumir mjög vantrúaðir á gagn og nytsemi þessarar samgöngubótar. Hér þykir leitt, að ég er ekki undir það búinn hér að skýra frá þeim upplýsingum, sem fyrir liggja í þessu máli, og get þess vegna ekki skýrt það eins og ég hefði viljað og mundi gera síðar, ef þess væri óskað. Mér skilst, að hér sé um 2. umr. að ræða, svo að það mætti sjálfsagt við 3. umr. eða framhald þessarar gera það betur. En ég vil aðeins í stórum dráttum segja frá því, sem fyrir mér vakti við undirbúning málsins, og hvað lá til grundvallar fyrir þeim aðgerðum, sem í því hafa þegar verið gerðar. Hv. þm. Barð. sagði, að það væru tæplega fleiri en tveir menn hér í þinginu, sem áhuga hefðu fyrir þessu máli, nefnilega ég og hv. þm. Borgf. Mér kemur þetta nokkuð spánskt fyrir sjónir, því að upphaf þessa máls er það, að mér berst bréf frá hv. fjvn., undirritað af öllum fjvnm. nema einum, þar sem þeir fara fram á, að hafizt verði handa um framkvæmdir utan fjárl. á árinu 1946. En eins og þeir menn vita, sem setið hafa í fjvn. þingsins undanfarin ár, hafa ýmis mál verið afgr. til framkvæmda þannig. Má kannske segja, að þetta sé ófyrirgefanlegt, en þetta hefur viðgengizt í ótalmörgum tilfellum. Það má sem sagt slá því föstu, að 8 af 9 mönnum í fjvn. óskuðu eftir því, að málið yrði tekið upp. Samtímis hafði það gerzt, að Akraneskaupstaður hafði keypt tvær ferjur, sem hann hugðist nota til þessara flutninga. Málið stóð þá þannig, að ferjuskipin voru til og mikill meiri hl. fjvn. sendi mér áskorun um það að hefjast handa um framkvæmdir, til þess að hægt væri að nota þessi ferjuskip á þann hátt, sem til var stofnað í upphafi. Samtímis þessu barst mér frá þáverandi bæjarstjóra á Akranesi ýtarleg grg. um það, hvernig þessum rekstri yrði bezt hagað og hvernig líkur væru til, að afkoman gæti orðið. Hann hafði kynnt sér þetta mál mjög ýtarlega og komizt að þeirri niðurstöðu í sínu áliti, að þessi rekstur gæti orðið bæði fjárhagslega arðsamur og um leið mikil samgöngubót. Fyrir mér vakti ekkert annað en það að reyna að athuga, hvort með þessu móti yrði ekki greitt úr og bætt sambandið milli Reykjavíkur og Suðurlandsins annars vegar og Vestur- og Norðurlandsins og Austurlandsins hins vegar. Eftir þeim gögnum, sem fyrir lágu, virtist mér svo sem þessi aðferð, að setja fasta ferju á Hvalfjörð að utanverðu, mætti takast mjög vel, þannig að það ynnist bæði við það tími og peningar. Þannig lá málið fyrir mér á öndverðu eða miðju árinu 1946. Ég leitaði þá samráðs við fjmrh. um þetta, og hann setti sig einnig inn í málið og kynnti sér þau gögn, sem lágu fyrir, og það varð sameiginleg niðurstaða okkar, að það skyldi hafizt handa um framkvæmdir. Það lá þá fyrir áætlun frá vegamálaskrifstofunni og vitamálaskrifstofunni um kostnað við þær. Ég man ekki, hvernig tölurnar voru, en það voru hvorki 2 eða 3 millj. kr., eins og hv. 1. þm. N-M. leyfir sér að fullyrða, það var innan við 1 millj., sem áætlað var 1946, að verkið kostaði.

Það lá þá fyrir áætlun frá vegamálaskrifstofunni, og vegamálastjóri mælti ekki á móti því; að þessi vegagerð yrði hafin. Það hefur þá komið til síðan. Það lágu einnig fyrir áætlanir frá vitamálastjóra um nauðsynleg hafnarmannvirki.

Vegagerð þarna getur orðið með nokkuð misjöfnu móti vegna þess, að til og frá lendingarstað að norðanverðu eru akfærir vegir, sem vel má nota til að byrja með, þó að þeir séu ekki fullkomnir. Það er gengið út frá því, að þeir verði notaðir fyrst, en fullkomnari vegir komi síðar.

Að sunnanverðu, við Eyri í Kjós, er vegarlengdin frá þjóðveginum að ferjustaðnum örstutt, nokkur hundruð metrar, og getur það ekki kostað of fjár, og kemur mér því á óvænt, þegar nefndar eru 3 millj. í þessu sambandi. En ég hefði viljað mælast til þess á þessu stigi málsins að mega kynna mér betur en ég hef haft tækifæri til þær nýju upplýsingar, sem virðist hafa komið fram í þessu máli, og vildi vænta þess, að þetta mál yrði ekki tekið til afgreiðslu á þann hátt, að vegurinn yrði tekinn úr vegalögum, því að það held ég, að væri nokkuð fljótræðislegt. Á Alþ. 1945 kom fram, eins og hv. þm. muna, þáltill., sem er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: “Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að verja úr ríkissjóði allt að 800 þús. kr. til lendingarbóta og vegagerðar í sambandi við væntanlega ferju í Hvalfirði.“ Og í framhaldi af þessari þál. mun það hafa verið, sem mér barst þetta bréf frá fjvn. En á því stigi, sem málið var lagt fyrir mig 1946 um vorið, þá lá fyrir grg. með upplýsingum frá bæjarstjóranum á Akranesi, eins og áður er sagt, sem er mjög ýtarleg, um ferðalög og ferðafjölda á þessari leið ásamt kostnaðaráætlun og ýmsu öðru í sambandi við þetta mál að öðru leyti. Sömuleiðis lá fyrir bréf frá félagi sérleyfishafa, sem undirritað er af form. þess, þar sem saman eru dregnir kostirnir við þessa samgöngubót, og eru þeir taldir þannig í þessu bréfi, með leyfi hæstv. forseta:

1. Styttir allar áætlunarleiðir um Vestur- og Norðurland um 1½ klukkustund og gerir það mögulegt að láta Akureyri og væntanlega leiðirnar einnig til Siglufjarðar og Ísafjarðardjúps fara í einum áfanga til Reykjavíkur.

2. Stórkostlegur sparnaður á sliti á bifreiðum, gúmmíum, olíu, benzíni og erlendum gjaldeyri.

3. Sparnaður á viðhaldi á hinum erfiða og hættulega vegi fyrir Hvalfjörð.

4. Meira öryggi fyrir farþega.

5. Öruggari ferðir með tilliti til snjóa og ófærðar á Hvalfjarðarleiðinni.

Þessir kostir, sem formaður félags sérleyfishafa talar um í þessu bréfi, sem hann sendi sem fskj. með þáltill. 1945, voru í mínum augum og augum þáverandi fjrh. það veigamiklir, að við töldum ekki forsvaranlegt að láta málið afskiptalaust. Og þó að ekki lægi fyrir til framkvæmda önnur leið en þessi, sem hv. 1. þm. N-M. taldi nú óafsakanlega og ófyrirgefanlega í alla staði, þá var hún farin, því að önnur leið var ekki fær til að hefja framkvæmdir, og við töldum víst, að meiri hl. Alþ. stæði á bak við fjvnm., sem undir bréfið skrifuðu.

Ég tel nú, að ég , hafi með þessu lýst nokkuð aðdraganda málsins, hvernig stóð á því, að til þessara framkvæmda var stofnað, og það er síður en svo, að ég hafi sannfærzt um, að það hafi ekki verið rétt. Ég tel, að með þessum hafnarmannvirkjum hafi verið yfirunninn stór þröskuldur á samgönguleiðinni til Norðurlandsins og að þessar framkvæmdir muni auðvelda mjög frá því, sem nú er, þessar ferðir. Hitt er svo annað mál, að ef hv. 1. þm. N-M. vill fá sér eina Stórabeltisferju til þess að fara beint frá Reykjavík til Akraness, þá má athuga það mál. En á því, hygg ég, að séu, ýmiss konar erfiðleikar og miklu meiri og verr yfirstíganlegir en lausn málsins á þessum grundvelli. En á þessu stigi málsins tel ég óráðlegt, að þessi vegur yrði tekinn út. Það eru þegar hafnar framkvæmdir á þeim grundvelli, sem lagður var í fyrra af vegamálastj. og vitamálastj., og ég vona þess vegna, að þetta mál geti fengið að halda áfram óátalið, þangað til þetta samband er komið á, svo að það geti þá fengið að sýna sig.