25.03.1947
Efri deild: 99. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

147. mál, vegalög

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Það má náttúrlega alltaf deila um, hvenær mál sé fullkomlega rannsakað. En þegar ég fékk þetta mál til meðferðar, þá mæltu sterk rök með því, að hefja mætti framkvæmd þessa máls. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Barð., að þó að 8 menn úr fjvn. sendi ráðh. álit sitt, þá er það ekki þar með sagt, að meiri hluti alls þingsins sé á sama máli. Enn fremur er munur á, hvort þeir gera það sem meðlimir fjvn. eða sem venjulegir þingmenn, ,en ég hygg, að í bréfinu hafi staðið „fjárveitingarnefndarmenn“, og bendir það á nokkur tengsl við fjvn. fremur en þeir hafi sent álitið sem venjulegir, almennir þingmenn. En ég hef haft það á tilfinningunni — það er rétt að segja ekki meira —, að málið hefði fylgi í þinginu og atkvgr. í gær sýndi, að fyrir því var mikill meiri hluti. Hv. þm. Barð. minntist á skilyrði, sem sett hefðu verið bæjarstjórn Akraness. Þau voru einmitt sett vegna þess, að okkur fjmrh. kom saman um, að grundvöllur þingvilja fyrir málinu væri ekki nógu traustur. Var því bæjarstjórn Akraness tilkynnt það skilyrði, að ef Alþ. ákvæði annað, þá yrði Akranes að vera við því búið að leggja fram 3/5 kostnaðarins og eiga síðan mannvirkin, og gekk bæjarstjórnin inn á það. Ef Alþ. hafnar að veita fé til hafnarmannvirkjanna, þá er það úr ábyrgð Alþ. og ríkisstj. Hér hefur mjög verið talað um, að kostnaðurinn hafi farið fram úr áætlun og áætlunin hafi ekki verið nógu traust. Það er nú engin nýlunda, að áætlanir standist ekki nákvæmlega á þessum breytingatímum, og ekki auðvelt að segja með litlum fyrirvara nákvæmlega um það, hvað svona mannvirki muni kosta. Ég tel þó ekki þær upplýsingar, sem ég hef fengið um vega- og hafnargerðarkostnaðinn, sem er 800–900 þús. kr., stangast mikið við það, sem áætlað er á þskj. 860 frá 1945, en þar er gert ráð fyrir að verja 800 þús. kr. til hafnar- og vegagerðar samanlagt. Síðan var svo gerð grein fyrir vegagerðarkostnaðinum. Nú hefur því verið haldið hér fram af hv. 1. þm. N-M., sem bað mig að reyna að setja mig inn í þessi mál, bara ögn, að kostnaðurinn yrði 2–3 milljónir kr. Hvernig fær hann þessar tölur? Það er upplýst af hv. þm. Barð., að endurskoðuð áætlun vitamálastjóra gerir ráð fyrir um 800–900 þús. kr. kostnaði við hafnarmannvirki. En til vegagerðar hins vegar telur vegamálastjóri þurfa 450 þús. kr., en þar af fara 250 þús. kr. í veg, sem þarf að leggja, þótt engin ferja kæmi, þannig að framlag til vega vegna ferjunnar er aðeins 200 þús. kr. Hv. 1. þm. N-M. virðist fara mjög einkennilega með tölur og ég vildi spyrja þennan hv. þm., hvernig hann leggur saman 200 þús. og 815 þús. og fær út 3 millj. (PZ: Tölurnar verða athugaðar fyrir 3. umr.)