23.05.1947
Efri deild: 144. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (3515)

127. mál, afgreiðslustöðvar fyrir áætlunarbifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ástæðan til þess, að þetta frv. var lagt fram á sínum tíma, en það var samið af samgmrn. og flutt af samgmn., var sú, að það var talið óviðunandi, hvernig hagað væri afgreiðslu sérleyfisbifreiða, og þó kannske sérstaklega hér í Reykjavík. Það hefur verið svo, að menn hafa orðið að leita uppi afgreiðslustaðina, sem hafa verið settir sinn í hvert horn bæjarins, og aðbúnaður þar verið með ýmsu móti og ekki alltaf viðunandi.

Í frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstj. beiti sér fyrir þessum úrbótum á þann hátt að standa að byggingu þessara afgreiðslustöðva og reka þær. En hins vegar hefur samgmn. þessarar hv. d. ekki viljað fallast á þetta sjónarmið, heldur viljað, að einstaklingar þeir, sem sérleyfisleiðirnar hafi, reki þetta fyrirtæki eða verði gefinn kostur á því að annast þetta.

Ég hef mætt á fundum n., þar sem þetta mál hefur verið rætt, og hef ég af eðlilegum ástæðum, þar sem ég stóð að samningi frv., ekki óskað eftir því, að þessu yrði breytt. En hins vegar hef ég heldur en að stofna málinu í voða gengið til samkomulags við n. og get sætt mig við þessa málsmeðferð. Ég hefði sem sagt helzt kosið, að sá háttur yrði á hafður um lausn málsins, sem frv. gerir ráð fyrir. En ef hv. d. vill heldur gefa sérleyfishöfunum kost á að reyna sig á því, geri ég það ekki að neinu aðalatriði við afgreiðslu málsins. Í rauninni býst ég við, að sérleyfishafarnir séu nú kannske ekki alveg undir það búnir að hefja framkvæmdir í málinu, nema þeir fái til þess verulegan styrk úr ríkissjóði, sem ég ætlast ekki til, þó að þessi breyt. verði samþ. Ef þeir eiga að fá kost á að leysa málið, tel ég eðlilegast, að þeir eigi þá sjálfir, a. m. k. að mestu leyti, að annast fjárhagshlið málsins og ríkið komi þar ekki til greina nema að mjög litlu leyti. Ef þeir geta ekki tekið að sér þetta verkefni af einhverjum ástæðum, gerir frv. ráð fyrir, að það opinbera taki við.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar.