14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (3882)

49. mál, almannatryggingar

Frsm. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er frá hv. þm. V-Húnv. Það er búið að liggja alllengi hjá n., og kom það til af því, að n. var ekki sammála um það í byrjun, hvernig hún ætti að afgr. þetta mál. Fjórir nm. voru á móti frv., og aðeins einn nm., þ.e.a.s. ég, var með því. Hins vegar voru allir samþykkir þeirri till., sem hér liggur fyrir. Frv. þetta var sent til umsagnar tryggingarráðs, og lagði það mjög á móti því, að frv. væri samþ., eins og það nú liggur fyrir, og óskaði eftir því, að tryggingarlöggjöfinni yrði ekki breytt efnislega, fyrr en nokkur reynsla væri fengin af framkvæmd hennar. Þetta sjónarmið féllst n. á að lokum og varð einhuga um að mæla með því, að frv. yrði vísað frá með rökst. dagskrá.

Það er ekkert undarlegt, þótt brtt. komi fram við tryggingarl., enda liggja nú þegar fyrir þinginu þrjú frv. um breyt. á þessum l. Þetta er von, því að l. um almannatryggingarnar eru svo stórkostlegt stökk frá því, sem áður var, að það er ekki undarlegt, þótt komi fram óskir um nokkrar breyt. N. er og þeirrar skoðunar, að óhjákvæmilegt verði á næstunni að breyta þessum l. mjög mikið, enda kemur æ betur og betur í ljós, hve erfið l. eru í framkvæmd, og það er áreiðanlegt, að bæði þjóðfélagið og einstaklingar komast í þrot með að uppfylla þær skyldur, sem l. leggja þeim á herðar, enda er nú að koma í ljós megn óánægja með þau ákvæði, sem l. hafa að geyma, og eru ýmis af þeim í frv., sem hér er um að ræða, en n. féllst á það, að heppilegast mundi fyrir málið, að þessu væri frestað. Var það álit n., að þeir menn og þeir flokkar, sem hefðu staðið að því að koma l. á, mundu ekki fallast á að breyta þeim, fyrr en gallar á þeim hefðu komið fram. Þetta áleit ég nokkuð rétta skoðun. Ég leit svo á, að heppilegt væri að fá meiri reynslu og að rétt væri að vísa málinu til stjórnarinnar, til þess að hún láti fara fram gagngera endurskoðun á l. Mér virtist það heppilegast fyrir málið á Alþ. að vinna að því að fá löggjöfina nákvæmlega endurskoðaða á næsta ári.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð.