10.02.1948
Efri deild: 56. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í C-deild Alþingistíðinda. (2895)

137. mál, sjúkrahús o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. frsm. þessa máls sagði, að í raun og veru væri frv. þetta aðeins bráðabirgðaráðstöfun, og öllum hlýtur að vera það ljóst, að nauðsyn er á, að læknar fái fasta bústaði eins og aðrir embættismenn ríkisins. Frv. þetta er til þess að bæta úr brýnustu þörfinni í þessum efnum, þar til hæstv. ríkisstj. kann að koma með frv. til l. um bústaði embættismanna yfirleitt, og mun þá eðlilegast, að þeim l., sem um þetta gilda, verði steypt saman í eina heild.

Ég hygg, að rík nauðsyn sé á að létta undir við byggingar og endurbætur læknisbústaða, og fámenn og dreifbýl héruð fá ekki risið undir þeim kostnaði, sem af byggingu nýrra bústaða eða endurbótum á gömlum leiðir. Reyndar lítur illa út um efniskaup til þessara húsa sem annarra nú í bili, en úr því kann að rætast.

Við flm. brtt. á þskj. 307 vildum reyna að sameina þau sjónarmið, sem uppi eru um þetta. Við játum, að erfitt er fyrir fámenn héruð að rísa undir þessum kostnaði, og þess vegna viljum við láta þau fá hærri styrk en þau, sem fjölmennari eru, en styrkinn til þeirra höfum við gert ráð fyrir að hækka í 3/4 í stað 3/5 byggingarkostnaðar, eins og gert er ráð fyrir í frv., því að ég óttast, að ef gengið er fram hjá fólksmörgu héruðunum í þessum efnum, taki menn upp á því að kljúfa stóru héruðin í smærri héruð til þess að verða hærri styrksins aðnjótandi. og væri það illa farið.

Það er lagt á vald ráðh. og honum gefið fullt atkvæði til að ákveða um, hvort greiða skuli byggingarstyrkinn og hvað hann telji hæfilegt í hinum einstöku tilfellum. Einnig ef um endurbætur á byggingu er að ræða, þá sé til þess veittur styrkur eftir mati ráðh. og e. t. v. landlæknis. Við hv. þm. N-Þ. reyndum að sameina þetta, án þess þó að ríkissjóður yrði fyrir tilfinnanlegum fjárútlátum, en læknishéruð fengju nokkra hjálp í þessum efnum.

Ég hef að svo stöddu litlu við þetta að bæta, en vænti þess, að hin hógværa till. okkar nái fram að ganga.