15.05.1950
Efri deild: 108. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1341)

15. mál, Sementsverksmiðja

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hygg það réttmæli hjá hv. þm. Barð., að tilgangslaust sé að vísa málinu til n., því að það fær þar ekki á svo stuttum tíma þá rannsókn, sem kann að vanta. Ég er því sammála hv. þm. Barð. og hæstv. landbrh. um það, að það sé sama og láta málið daga uppi, ef því er vísað til n. Ég tel því æskilegt, að málið verði afgreitt án þess. Hitt stendur svo óhaggað, sem ég hef áður sagt, að náttúrlega tekur sá á sig mikla ábyrgð, sem endanlega ákveður verksmiðjunni stað, án þess að hafa kynnt sér öll gögn, sem kostur er á. Ég hef ekki ástæðu til þess að vænta mér trausts frá hv. 6. landsk.. úr því að ég batt ekki nokkra fúadalla við bryggju á Ísafirði, en útvegaði þjóðinni allt að tveimur milljónum króna í erlendum gjaldeyri. Hins vænti ég, að svo verði aldrei sagt, að teknar hafi verið fljótfærnislegar ákvarðanir um staðarval fyrir sementsverksmiðjuna, en enn sem komið er hef ég ekki aflað þeirrar þekkingar á málinu sem þarf eins og t.d. hv. þm. Barð. hefur aflað sér. Ég tók ekki við embætti atvmrh. fyrr en fyrir tveimur mánuðum, en síðan hef ég lesið ýmis gögn um málið, þar á meðal grg. n., sem um málið fjallaði, en því fer fjarri, að ég hafi þá þekkingu í dag, sem ég teldi mér nauðsynlega, áður en ég gæti tekið ákvarðanir í málinu. En án þess að segja of mikið vil ég taka það fram, að ég tel vafasamt, að málið sé það upplýst, að rétt sé að taka frekari ákvörðun um staðsetningu á þessu stigi málsins. Sömuleiðis vil ég upplýsa, að mér er ekki kunnugt um, að ákvörðun hafi verið tekin um staðinn eða um það, að lagt hafi verið í hafnarbætur á kostnað ríkisins í þessu skyni.

Að lokum vil ég geta þess, að ég mun ekki binda hendur mínar í þessu máli, fyrr en öll gögn liggja fyrir. Ég vil svo leyfa mér að óska þess, að málið verði afgreitt án þess, að nefnd fjalli um það, til þess að það dagi ekki uppi á þessu þingi.