12.12.1949
Efri deild: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

27. mál, bæjarstjórn í Húsavík

Frsm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Eins og segir í nál., þá hefur n. orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta nái samþykki með tveimur smávægilegum breytingum; skal ég gera grein fyrir þeim bráðlega, en vildi fyrst segja um þetta nokkur orð almennt.

Um sveitarstjórnarmál í landinu gilda almennu sveitarstjórnarlögin frá 1927 og sérstök lög fyrir kaupstaði, sem nú eru orðnir 12 að tölu. Þau kveða t.d. á um starfssvið sýslumanna, sem eru til eftirlits með starfi hreppsnefnda og fara með héraðsstjórn. Í sveitarstjórnarlögunum er ekki greint á milli sveita og smærri þorpa, eins og t.d. Húsavík hefur verið. Í 4. gr. laganna er að vísu kveðið svo á, að ef þorp vex og verður svo stórt, að fólksfjöldi nemi yfir 300 íbúum, þá megi kjósa í þorpinu sérstaka hreppsnefnd, en þó það haldi áfram að vaxa langt yfir þessa tölu, verður það áfram undir ákvæðum sveitarstjórnarlaganna. Þá hefur það komið í ljós, að ýmsir annmarkar eru á sveitarstjórnarlögunum. Þau fela til dæmis í sér ákvæði, sem takmarka um of valdsvið hreppsnefnda, svo sem í því efni að ákveða laun þeirra, er fara með sveitarstjórnarmál; en störf þeirra hafa aukizt mjög á síðari árum af margvíslegum orsökum. Sé t.d. þorp í vexti innan sveitarfélagsins, lenda framkvæmdastörfin á oddvitanum, og í æ vaxandi mæli hafa þeir verið innlimaðir í hið almenna stjórnarkerfi, sem fleiri og fleiri verða stöðugt sammála um að kalla skriffinnskubákn. Þetta er meginástæðan, sem fram er færð, er stærri kauptún leita eftir bæjarréttindum, enda þótt það komi ekki fram í grg. fyrir þessu frv. En á því er enginn efi, að Húsavík er með stærstu kauptúnum landsins og stjórn þess umfangsmikil, og ég tel víst, að þar hafi komið í ljós erfiðleikar á framkvæmd sveitarstjórnarmála, sem geri það að verkum, að bæjarréttindi séu æskileg fyrir kauptúnið; og ég býst við, að Húsavík eigi rétt á að fá þessi eftirsóttu bæjarréttindi, þar sem íbúatala er þar komin talsvert á annað þúsund.

Elztu lögin, sem sett voru um sérstök bæjarréttindi, voru fyrir Rvík árið 1872, síðan Akureyri 1883, Ísafjörð 1917, Siglufjörð og Vestmannaeyjar 1918, Seyðisfjörð 1919, Neskaupstað 1928, Hafnarfjörð 1929, Akranes 1941. Ólafsfjörð 1944, Sauðárkrók 1947 og Keflavík 1949. Þau lög, sem síðar hafa verið sett, hafa verið sniðin hver eftir öðrum, og það frv., sem hér liggur fyrir, er t.d. sniðið eftir lögunum um Keflavík og Sauðárkrók. Bar heilbr.- og félmn. það saman og sá, að það kom til athugunar, hvort hér væri nú rétt að farið. Í frv. eru t.d. ákvæði, sem liggur við að telja megi úrelt, og er mér ekki grunlaust um, að flm. hefði kosið, að ýmislegt væri þar öðruvísi, en hann mun hafa óttazt, að það kynni að tefja fyrir frv. að gera þar breytingar á, því að hann leggur áherzlu á, að afgreiðslu þess verði hraðað. En ef nú ætti að fara að gera efnisbreytingar á frv., mundi það leiða af sér, að það styngi mjög í stúf við síðari lög, án þess þó að talizt gæti, að um raunverulega endurskoðun væri að ræða á lagafyrirmælum um þessi efni. Því virtist n. sem það mundi vera betri vinnubrögð, að sett væru almenn bæjarstjórnarlög, og þau gætu síðan gilt fyrir þau kauptún, sem yxu svo upp, að þau fengju kaupstaðarréttindi samkvæmt þeim.

N. hefur orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ. með tveimur smábreytingum. Fyrri brtt., sem liggur fyrir á þskj. 83, er við 11. gr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Bæjarstjórn ræður hafnarmálum bæjarins samkvæmt almennum hafnarlögum“. Það kom sem sagt í ljós, að áður gild ákvæði um þetta voru numin úr gildi með almennu hafnarlögunum frá 1946. — Hin brtt. fjallar um ákvæði til bráðabirgða, og er lagt til, að greinin um þau orðist svo: „Hreppsnefnd Húsavíkurhrepps fer með stjórn kaupstaðarins, þangað til bæjarstjórnarkosningar hafa farið fram“. En í frv. er ekki gert ráð fyrir, að á slíku ákvæði þurfi að halda, en það virðist svo sem einhver tími muni líða á milli þess, að þetta frv. nái staðfestingu og bæjarstjórnarkosningar fari fram, og því er þetta ákvæði nauðsynlegt. Frekari breytingar lagði n. ekki til, og enda þótt ýmislegt sé athugavert, svo sem ákvæði 7. og 16. gr., sem ég hefði kosið að væru öðruvísi, þótti mér ekki rétt að flytja um það brtt., eins og málið er vaxið.

Það, hvort sérstakar þarfir mæli með því, að Húsavík fái bæjarréttindi, það tel ég augljóst, að svo er; hún er orðin með allra stærstu kauptúnum landsins að íbúatölu og stjórn mála. hlýtur því að vera allumfangsmikil. Þar hafa verið miklar framfarir, og er þorpið með hinum fegurstu í landinu og fyrir gestsaugað a.m.k. með miklum menningarbrag og meiri en í þorpum víða hvar, því miður. Hv. flm. þessa frv. hefur staðið framarlega í stjórn kauptúnsins, og mun hann því bezt þekkja þarfir þess. N. sér því enga ástæðu til að tefja framgang málsins, eins og það er vaxið, með frekari brtt., enda þótt rök séu fyrir nauðsyn þeirra.